Samgöngustofa hefur ýtt úr vör nýju árveknisátaki um öryggi á sjó. Markmið átaksins er kannski ekkert sérlega nýstárlegt, að fækka og koma í veg fyrir alvarleg slys á sjó, en áhersla þess vekur óneitanlega athygli. Í 12 hnútum er nefnilega ekki lögð áhersla á hefðbundna öryggisþætti sem þurfa að vera í lagi áður en siglt er út, eins og að björgunarbátar séu yfirfarnir og að gott aðgengi sé að hjálmum og öðrum öryggisbúnaði, heldur á mannlega þætti. Hvernig mannlegur breyskleiki, þreyta, þrjóska og jafnvel dramb getur verið slysavaldur.

Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í kynningar og fræðslumálum hjá Samgöngustofu, segir fullt tilefni til að beina sjónum að þessum atriðum. Félagslegi þátturinn sé vanmetið öryggisatriði á sjó.

Blaðamaður Sjómannadagsblaðsins settist niður með Einari Magnúsi í höfuðstöðvum Samgöngustofu og fékk að fræðast um átakið 12 hnúta. Það má segja að nafn herferðarinnar dragi nafn sitt af framkvæmd hennar: Framleidd verða 12 upplýsingaspjöld um hina ýmsu mannlegu öryggisþætti og er eitt spjald kynnt til leiks í hverjum mánuði ársins. Fimm spjöld hafa litið dagsins ljós nú þegar, sem til að mynda má finna á heimasíðu Samgöngustofu.

Eitt slys er of mikið
En hvers vegna að ráðast í vitundarvakningu um öryggi á sjó? Íslendingar hafa náð gríðarlegum árangri í þeim efnum á undanförnum áratugum, ekki síst fyrir tilstuðlan aukinnar öryggismenningar um borð, þátttöku atvinnugreinarinnar og þeirrar þjálfunar sem veitt er í Slysavarnaskóla sjómanna. Sem dæmi má nefna að enginn sjómaður lést við störf á árabilinu 2017 til 2021 og sömuleiðis hefur slysum til sjós fækkað á undanförnum árum. Einar Magnús segir að þrátt fyrir þennan árangur sé enn fullt tilefni til að huga að örygginu. Enn verði slys og óhöpp þar sem litlu megi muna að alvarlegar afleiðingar hljótist af. Upplýsingaspjöldin 12 hnútar miði að því að fækka þeim.

Einar setur átakið í samhengi við herferðir Samgöngustofu þar sem áhersla er lögð á mikilvægi bílbeltanotkunar.

„Þá spyr fólk okkur: „Til hvers að leggja áherslu á bílbelti? Eru ekki allir í beltum?“ Staðreyndin er hins vegar sú að þær rannsóknir og viðhorfskannanir sem við framkvæmum sýna að um 96% bílstjóra og farþega nota öryggisbelti. Það er vissulega hátt hlutfall en engu að síður eru þau 4% sem eftir standa þúsundir einstaklinga sem eru í margfalt meiri hættu en aðrir ökumenn og farþegar.“

Þetta varpi þannig ljósi á mikilvægi þess að fólk tileinki sér alla öryggisþætti, sama hver samgöngumátinn er. Það á að setja öryggið á oddinn og veita engan afslátt af því, ekki síst á sjó. „Við sjáum í slysaskráningum hjá okkur að upp koma margvísleg tilfelli á sjó þar sem litlu má muna að alvarlegt slys hljótist af,“ segir Einar, sem undirstrikar mikilvægi þess að sjófarendur skrásetji öll slík tilfelli – sama hvort af þeim hljótist slys eða ekki. Aðeins þannig sé hægt að gera viðeigandi ráðstafanir. Það hafi því ekki síst verið fyrir slíkar skráningar sem Samgöngustofa gat greint vandann og hrint af stað 12 hnútum til að vinda ofan af honum.

Hreinlæti og hroki
Sem fyrr segir beina 12 hnútar sjónum að mannlegum og félagslegum þáttum sem geta ráðið úrslitum á sjó. Herferðin beinist að öllum sem tengjast sjómennsku með einum eða öðrum hætti og einskorðast ekki við yfirmenn eða undirmenn.

Herferðin á að höfða til allra, hvort sem þau eru á sjó eða í landi.

„Þetta eru þættir sem fólk hugsar ekkert endilega út í, hvorki í leik né starfi, heima eða á vinnustaðnum. Þetta eru einfaldlega mannlegir brestir sem eðlilegt er að yfirsjást eða gefa afslátt af,“ segir Einar. Þetta séu því ekki atriði sem eru bundin við sjómennskuna eða til marks um að sjómenn „séu eitthvað slæmir,“ eins og Einar orðar það. „Við erum að reyna að undirstrika að menn efli vitund sína fyrir þessum mannlega þætti. Í þessum spjöldum eru því fyrirbyggjandi aðgerðir: Hvernig við getum komið í veg fyrir að skortur á fræðslu og þjálfun verði hættulegur.“

Í þeim efnum er af nægu er að taka að sögn Einars. Þannig getur aga- og kæruleysi leitt til slysa, rétt eins og áhugaleysi fyrir öryggi og skortur á fræðslu og þjálfun. Þá er mikilvægt að sjómenn taki ekki óþarfa áhættu og að yfirmenn setji ekki óraunhæfar kröfur eða ofmeti eigin hæfni eða annarra, auk þess sem skortur á samvinnu og félagsleg einangrun getur haft alvarlegar afleiðingar. Að sama skapi getur lítið sjálfstraust og ofuráhersla á að halda í hefðir haft margvísleg eftirmál, sem oft birtist í hroka eða „besserwisseratöktum“ að sögn Einars.

„Margt af því sem við nefnum í 12 hnútum er ekki endilega þættir sem menn tengja beint við slysahættu. Tökum hreinlæti sem dæmi. Sjómenn ættu þannig að spyrja sig: „Er allt í drasli um borð í bátnum? Erum við að flækjast í rusli sem á heima á afmörkuðum stað eða þurfum við að klofa yfir eitthvað til að komast í björgunarbátinn?“ Við hjá Samgöngustofu höfum séð myndir úr bátum þar sem það er raunverulega staðan og hætta hefur skapast. Hreinlæti er því ekki bara einhver pempíuskapur, þetta er mikilvægt öryggisatriði.“

Fyrirmynd úr fluginu
12 hnútar sækja innblástur í sambærilegt átak Samgöngustofu fyrir fólk í flugrekstri sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Átakið bar nafnið „The Dirty Dozen“, þar sem einnig var litið á tólf þætti í mannlegri hegðun sem leitt geta til slysa – og eiga það til að leiða til slysa. Þar var um að ræða þætti eins og þreytu eða íþyngjandi kröfur frá yfirmönnum, rétt eins og í 12 hnútum.

„Við hugsuðum með okkur að við hlytum að geta gert þetta fyrir sjómennskuna líka, þrátt fyrir að hún sé annars konar heimur og öðruvísi uppbyggður. Það að vera í áhöfn flugvélar í fjóra klukkutíma er ekki eins og að vera í marga daga á túr. Þá er viðhald tækjabúnaðarins jafnframt ólíkt,“ segir Einar. Þrátt fyrir það geti sömu mannlegu þættirnir leitt til slysa í lofti og á legi, enda starfi manneskjur á báðum sviðum.

The Dirty Dozen, sem unnið var með aðkomu sérfræðinga í fluggeiranum, fór á mikið flug að sögn Einars. Þannig vakti átakið svo mikla athygli í flugbransanum að flugvélaframleiðandinn Airbus nýtir það nú í forvarnafræðslu sinni. Flugfélagið Lufthansa gerir slíkt hið sama og EASA, evrópska flugöryggisstofnunin, hefur deilt „The Dirty Dozen“ í aðildarlöndum sínum. Vonir Einars standa því til að 12 hnútar muni vekja viðlíka athygli en ekki síst að verkefnið skili árangri og fækki slysum.

Draumurinn að enginn brjóti nögl
Fyrstu upplýsingaspjöld 12 hnúta hafa þegar litið dagsins ljós. Þau eru gefin út rafrænt og henta vel til margs konar dreifingar. Þannig má auðveldlega prenta þau út, nýta sem skjáhvílu eða deila þeim á samfélagsmiðlum. Spjöldunum hefur verið dreift til nokkur hundruð aðila að sögn Einars, þar á meðal aðildarfélaga Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka ferðaþjónustunnar og annarra haghafa í greininni. Þá stendur jafnframt til að gefa út dagatal með spjöldunum þegar fram líða stundir. Sem fyrr segir má nálgast spjöldin með einföldum hætti á heimasíðu Samgöngustofu eða með því að leita að „12 hnútar“ í leitarvélum internetsins.

Vinnan við spjöldin hófst í fyrra þegar Samgöngustofa settist niður með hinum ýmsu sérfræðingum í öryggismálum og sjómennsku, meðal annarra fulltrúum Landsbjargar og Slysavarnaskóla sjómanna. Einar segir að vinnan hafi verið yfirgripsmikil og vönduð, enda málefnið mikilvægt. Ótal hugmyndir hafi kviknað en að endingu hafi þeim verið fækkað niður í 12 handhæg auglýsingaspjöld.

„Þau hefðu getað orðið miklu fleiri,“ segir Einar og hlær. Spurður hver draumaniðurstaðan af átakinu sé segir Einar kíminn: „Að menn, í mesta lagi, brjóti á sér nögl við störf sín. Með öðrum orðum: Að það verði helst engin atvik til að skrásetja.“

Einar segir að sjómenn og atvinnugreinin öll eigi mikinn heiður skilinn fyrir frábæran árangur í öryggismálum á undanförnum árum. „Sá árangur er að hluta til hugarfarslegur. Fræðsla og þjálfunarkröfur sem gerðar eru til sjómanna fela nú í sér víðtækara öryggisviðhorf en áður, þetta er ekki bara spurning um að passa í einhvern björgunargalla eða vera með hjálm. Þetta snýr í auknum máli að félagslegum þáttum um borð, t.d. að standa vörð um öryggi sitt og félaga sinna. Þú vilt geta treyst á næsta mann, að hann stígi inn ef hætta steðjar að þér, og hann vill sömuleiðis að þú aðstoðir hann,“ segir Einar.

„Félagslegi þátturinn er nefnilega vanmetið öryggisatriði sem er nauðsynlegt að ala stöðugt á. 12 hnútar verða vonandi liður í því.“

– sój

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.