Eftir að hafa stundað margvíslega verkamannavinnu, lokið skrifstofunámi og unnið sem ritari fann Arna Valdís Kristjánsdóttir sig á sjónum. Hún er að jafna sig eftir vinnuslys en lætur afar vel af sjómennskunni og stefnir á sjóinn aftur þegar fram í sækir.

Ræðuhöld á sjómannadaginn 2023

Arna Valdís vakti athygli fyrir skörulega ræðu sem hún flutti við heiðrun sjómanna í Hörpu á sjómannadaginn fyrir ári. Mynd/Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins

Arna Valdís Kristjánsdóttir, sjómaður á Vigra RE-71, vakti verðskuldaða athygli fyrir kjarnyrta og hnitmiðaða ræðu sína á Sjómannadaginn 2023. Eins og þau muna sem á hlýddu lítur hún á sig sem sjómann, ekki sjókonu eða fiskara, og frábiður sér allar hugmyndir um að breyta nafni Sjómannadagsins í Fiskaradaginn. Þegar það gerist muni hún snúa sér tvisvar við í gröfinni.

Sjálf hefur hún gert sig gildandi á starfsvettvangi sem var lengstum einokaður af körlum, með fáeinum undantekningum á borð við Þuríði (Einarsdóttur) formann, sem einnig þótti kvenskörungur mikill á sinni tíð.

Þær Þuríður og Arna eiga það sameiginlegt að hafa farið ungar til sjós með feðrum sínum. Þuríður var aðeins ellefu ára þegar hún fór á fyrstu vertíðina en Arna var á unglingsaldri þegar hún var ráðin sem messagutti á Vigra, en þá var faðir hennar Kristján Sigurður Birgisson yfirvélstjóri á honum.

„Við systurnar prófuðum það allar sem unglingar en þetta starf er eiginlega dottið upp fyrir núna á flestum skipum,“ segir hún.

Arna fór einnig einn túr sem háseti í Smuguna á sínum tíma en vann framan af við önnur störf í landi.

Verður ekki pabbaráðin
Arna Valdís Kristjánsdóttir

Arna Valdís Kristjánsdóttir prófaði ung að árum að fara fyrst á sjóinn, þá sem unglingur messagutti á Vigra þar sem faðir hennar var yfirvélstjóri. Mynd/EÖJ

„Ég var búin að vera í alls konar verkamannavinnu, vann með höndunum og kunni því alltaf mjög vel. Síðan fór ég í skrifstofunám og byrjaði að vinna sem ritari á augndeildinni á Eiríksgötu. Launin voru ekki góð og ég sá ekki fram á að verða fjárhagslega sjálfstæð, þannig að ég ákvað að prófa að fara einn túr á sjóinn,“ segir Arna, sem spurði föður sinn hvort hann væri til í að hafa samband við skipstjórann og athuga með pláss fyrir sig.

„Þá sagði hann bara nei, Arna Valdís. Ef þú ætlar að sækja um starf á frystitogara, þá verður þú bara sjálf að hringja í skipstjórann. Þú verður ekkert pabbaráðin neitt,“ segir Arna og hlær.

„Það tók mig nokkra daga að telja í mig kjarkinn í það að hringja í mann sem ég kannaðist nú við, Hannes Einarsson, sem var skipstjórinn þá. Hann gaf mér pláss.“

Arna hefur ekki unnið í landi síðan, eða í ein 18 ár. Að hennar sögn var það auðsótt mál fyrir hana sem unga konu að fá pláss á togara á þessum tíma.

„Þetta var fyrir hrunið. Það var mjög margt erlent fólk að vinna um borð og þá voru tekjurnar orðnar það lágar að margir voru farnir í eitthvað annað, þannig að ég fékk þarna inni. Eftir hrunið varð síðan erfiðara að fá pláss en þá var ég búin að stimpla mig svolítið inn.“

Arna átti eftir að vera á Frera (sem nú heitir Blængur) í sex ár. Árið 2013 fór hún á Vigra og hefur verið þar síðan.

Þurfti að sanna mig

„Ég var alveg að skíta á mig fyrsta túrinn. Maður þurfti að sanna sig og allt það. Ég var sett svolítið í djúpu laugina og strax í öðrum túr fór ég að taka nýtingarprufur og þurfti að vera fljót að læra og fylgjast með. Ég var líka svolítið þrjósk; ég bara ætlaði að stimpla mig þarna inn,“ segir Arna, sem hefur aldrei fundið fyrir sjóveiki á öllum sínum langa ferli sem sjómaður.

„Ég veit hvað sjóriða er þegar ég kem í land eftir svona brælutúra. Þá svimar mann og maður dettur næstum því í sturtunni,“ segir hún og hlær. „En ég veit ekki hvað sjóveiki er, sem betur fer. Ég finn oft til með nýju strákunum sem eru ælandi út í eitt.“

Þó að fyrsti túrinn hafi tekið á taugarnar fann Arna fljótt að sjómennskan ætti vel við sig.

„Maður þarf náttúrlega bara að vera hraustur til að geta þetta og þola útiverurnar. Ég fann fljótlega að þetta ætti vel við mig og finnst þetta skemmtileg vinna. Auðvitað er hún ekki alltaf skemmtileg. Hún er oft hundleiðinleg og erfið en það á vel við mig.“

Þó að sjómennskan sé Örnu í blóð borin kom sú ákvörðun hennar að gerast sjómaður á frystitogara flestum í opna skjöldu.

„Það voru allir mjög hissa. Margir vissu ekki hvernig þetta var. Ein vinkona mín sagði til dæmis: „Ertu að fara á sjó? Í mánuð? Og hvað gerið þið um helgar?“ segir Arna og hlær, enda lítið um helgarfrí á frystitogara.

Gamlir skarfar og karlrembur
Arna Valdís um borð

Arna Valdís við vélarnar þar sem fiskurinn er verkaður um borð. Myndir/Gissur Snorrason

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni þegar konur ráða sig í störf sem álitin hafa verið karlastörf en Arna segist ekki hafa fundið fyrir teljandi árekstrum eða fordómum í sinn garð.

„Mér hefur alltaf fundist gott að vinna með strákum. Auðvitað eru þeir alls konar eins og allir og maður lendir í alls konar týpum en ég held að ég sé fljót að læra að vinna með fólki. Jú, jú, maður lenti alveg í einhverjum svona gömlum skörfum og karlrembum en það dró fljótlega úr þeim. Maður þurfti bara að vera harður í því að sanna sig eins og allir sem byrja á sjó. Ég held að ég hafi alveg náð því. Annars væri ég örugglega ekki þarna enn þá,“ segir Arna, sem myndi gjarnan vilja sjá fleiri konur til sjós.

„Við getum þetta alveg.“

Frá vegna slyss á sjó

Arna viðurkennir að sjómennskan sé slítandi starf en það eigi svo sem við um fleiri störf.

„Ég var að vinna á skrifstofu í fjögur ár og ég var alltaf með vöðvabólgu og að drepast í bakinu. Ég tel mig í miklu betra líkamlegu standi í þessari vinnu, en þetta er náttúrlega lýjandi. Þetta er mjög slítandi. Það er bara svoleiðis og ég hef séð á eftir vinnufélögum sem hætta ungir, t.d. einn mjög góður vinur minn sem er í sínum síðasta túr.“

Sjálf hefur hún farið í þrjár axlaraðgerðir en segist vera orðin góð núna.

„Ég er reyndar búin að vera frá út af slysi. Ég hef aldrei slasað mig áður um borð, er búin að læra að varast hætturnar en svona gerast bara slysin,“ segir Arna, sem var að laga til pönnur í svokallaðri pönnupressu þegar pressan fór skyndilega niður og önnur hönd hennar varð undir henni. „Hún átti ekki að gera það,“ segir Arna og bætir við að þetta hafi allt gerst svo hratt.

„Ég dofnaði eiginlega strax upp. Ég kippti puttunum undan og þeir voru alveg flatir og ég fattaði það ekki einu sinni en það var risaskurður í lófunum,“ segir Arna, sem fékk góða hjálp frá skipsfélögum sínum.

„Þeir töldu að ég væri óbrotin því að það voru gerðar einhverjar tilraunir með að banka puttanum í borðið. Þannig að ég var svona viku um borð en svo kom í ljós þegar ég fór á bráðamóttökuna þegar ég var komin í land að ég var brotin. Ég þurfti að vera í gifsi og svo var ég með einhvern taugaskaða líka.“

Arna finnur enn til í hendinni og hefur ekki alveg sama kraft í henni og áður. „Ég datt líka svolítið niður andlega, missti sjálfstraustið en er orðin jákvæðari núna,“ segir hún og jánkar því að hún hafi verið hrædd um að komast ekki aftur á sjó. „Það var alveg hræðileg tilfinning,“ segir hún.

„En ég ætla mér bara að reyna að vera jákvæð. Mig langar aftur á sjó og tel mig eiga mörg ár eftir,“ segir Arna, sem getur ekki beðið eftir að komast í næsta túr með Vigra.

Þó að Arna hafi lent í slæmu slysi um borð í togara bendir hún á að almennt hafi slysum fækkað mjög á undanförnum árum, enda sé meira lagt upp úr öryggismálum nú en áður. Fleira hefur breyst til batnaðar á þeim 18 árum sem liðin eru síðan hún byrjaði á sjó, svo sem aðbúnaður sjómanna.

Sjómenn ekki langræknir

„Vistarverurnar finnst mér miklu mannúðlegri og betri. Þær eru bara mjög fínar. Áður voru alltaf tveir til fjórir í klefa og svo þurfti maður að bíða í röð eftir að geta tannburstað sig og það voru kannski þrjú klósett fyrir alla áhöfnina, sem er alveg fáránlegt,“ segir hún.

„Mér finnst mórallinn skipta öllu máli. Hef verið að vinna með strákum og þar lærði ég það að ef það fauk í mann var það bara búið í kaffinu og þurfti ekkert að ræða það meira. Mér finnst það dásamlegt. Ég þekki ekki marga langrækna sjómenn,“ segir hún. „Við þurfum náttúrlega að standa saman. Við erum saman allan sólarhringinn í heilan mánuð. Það veltur á okkur að geta staðið okkur sem einstaklingar og í hópi,“ segir Arna Valdís Kristjánsdóttir að lokum.

» eöj

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.