Georg Haney, umhverfisstjóri Hampiðjunnar, greinir frá aðgerðum fyrirtækisins á sviði umhverfismála og sjálfbærni. Hann segir sífellt meiri áherslu lagða á hönnun og framleiðslu endurnýtanlegra veiðarfæra.

Georg Haney umhverfisstjóri Hampiðjunnar

Georg Haney, umhverfisstjóri Hampiðjunnar, var lengi hjá Hafrannsóknastofnun áður en hann kom til fyrirtækisins, en sú reynsla nýttist í tengslum við rannsóknir á hagkvæmni og endurnýjun veiðarfæra. Mynd/EÖJ

Síaukin áhersla er á umhverfismál og þar skipa loftslagsmál stóran sess því breytingar á hitastigi lofts og sjávar geta haft mikil áhrif á lífsskilyrði manna og dýra og haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Starfsmenn Hampiðjunnar gera sér fulla grein fyrir eigin ábyrgð hvað umhverfismál varðar og leggja sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni starfseminnar.

Lögð er mikil áhersla á þróun lausna sem tryggja betri nýtingu á lífríki sjávar og góða umgengni um fiskistofnana, sem eru afar mikilvæg uppspretta fæðu fyrir mannfólkið.

Georg Haney er umhverfisstjóri Hampiðjunnar, en áður starfaði hann lengi hjá Hafrannsóknastofnun.

Hann fór oft til sjós á vegum Hafrannsóknastofnunar og gat þannig fylgst með notkun veiðarfæra í raunverulegum aðstæðum en í framhaldinu beitti hann sér fyrir rannsóknum á hagkvæmni veiðarfæra og endurnýjun þeirra.

„Hampiðjan fagnar 90 ára afmæli á þessu ári og auðvitað hafa veiðarfæri og veiðarfæraefni þróast mjög mikið frá því að fyrirtækið var stofnað. Fyrstu veiðarfærin voru eðlilega mun minni, en svo stækkuðu þau með stærri skipum,“ segir Georg.

„Fyrstu áratugina var mikið um hamp í framleiðslunni en plastefnin fóru að ryðja sér til rúms á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá varð hægt að framleiða veiðarfæri sem voru mun betri áður þekktist og entust mun lengur. Í dag getum við boðið viðskiptavinum okkar hágæða veiðarfæri úr bestu fáanlegum efnum, en að baki þeim liggur margra áratuga hönnunarferli og þróunarvinna sem unnin hefur verið í afar góðri samvinnu við íslensk útgerðarfyrirtæki og sjómenn.“

Hann segir rétt val á veiðarfærum skipta miklu máli, en með því að gera þau léttari í drætti megi minnka eldsneytisnotkun skipa og lágmarka snertingu við hafsbotninn.

„Sterk og vönduð efni sem hafa langan líftíma minnka kolefnisfótsporið í framleiðslunni og út líftímann.“

Áhersla á hringrásarhagkerfið
Hampiðjan

Höfuðstöðvar Hampiðjunnar eru við Skarfagarða á Laugarnesi í Reykjavík. Mynd/EÖJ

Hjá Hampiðjunni er lögð sífellt meiri áhersla á hönnun og framleiðslu endurnýtanlegra veiðarfæra sem styðja við hringrásarhagkerfið ásamt því að takmarka eftir megni þá orku sem notuð er til framleiðslunnar.

Með því að leggja áherslu á hringrásarkerfi veiðarfæra minnkar einnig það magn gerviefna sem fer í urðun, sem aftur leiðir til minni landnota.

,,Við hjá Hampiðjunni erum sífellt að leita bestu leiða til að endurvinna gerviefnin þannig að hægt sé að nýta þau aftur í framleiðslu nýrra veiðarfæra. Við viljum náttúrlega ekki að plastefni endi í sjó, heldur að þau nýtist aftur og aftur. Hampiðjan hefur um langa hríð tekið á móti veiðarfæraúrgangi frá viðskiptavinum fyrirtækisins en ekki er lengur tekið á móti notuðum veiðarfærum til urðunar hjá Sorpu. Við höfum flokkað endurvinnanleg efni frá og komið til endurvinnslu eða í endurnýtingu þar sem því verður við komið,“ segir Georg.

Hampiðjan er ásamt öðrum veiðarfæraframleiðendum í nánu samstarfi við útgerðir varðandi móttöku veiðarfæranna, flokkun í efnisflokka og að koma þeim í endurvinnslu hjá sérhæfðum endurvinnslufyrirtækjum.

SFS hefur yfirumsjón með söfnun notaðra veiðarfæra
Hampiðjan

Hampiðjan rekur líka verslun með ýmsar vörur tengda sjósókn og sjávarútvegi. Mynd/EÖJ

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, hafa yfirumsjón með söfnun notaðra veiðarfæra hér á landi og hefur verið gerður samningur við Úrvinnslusjóð þar sem skilagjald á innflutning á efnum til veiðarfæragerðar er fellt niður gegn því að útgerðarfyrirtæki og veiðarfæraframleiðendur taki ábyrgð á og sjái um að notuð veiðarfæri fari í viðunandi endurvinnslufarveg.

Georg nefnir að á síðustu árum hafi Hampiðjan lagt mikla áherslu á að finna nýjar leiðir til að endurvinna öll þau hráefni sem það nýtir við framleiðslu sína og að fyrirtækið hafi haft forgöngu um og unnið í nánu samstarfi við viðskiptavini og fagaðila til að finna endurvinnslulausnir fyrir stærstu efnisflokkana sem notaðir eru í framleiðslunni.

Veiðarfæraúrgangur sem hægt er að endurvinna er meðal annars sendur til endurvinnslufyrirtækja í Danmörku eða Litháen eftir því hvaða efni er um að ræða. Þar eru efnin hökkuð, þvegin og síðan endurbrædd og búin til plastkorn sem henta í ýmsa plastframleiðslu.

Endurunnið nælon gæti valdið byltingu
Georg Haney, umhverfisstjóri Hampiðjunnar

Áratuga hönnunarferli og þróunarvinna liggur að baki þeim veiðarfærum sem Hampiðjan framleiðir nú, segir Georg Haney. Mynd/EÖJ

Nælon gegnir mörgum hlutverkum í sjávarútvegs- og fiskeldisgeiranum en er mest áberandi í gerð trollpoka fyrir uppsjávarveiðar, hringnóta og fiskeldiskvía fyrir lagareldi.

Hampiðjan hefur árum saman safnað og sent til endurvinnslu notað nælonefni, bæði frá starfseminni sem og því sem viðskiptavinir hafa skilað til fyrirtækisins. Það er hakkað niður og brætt og úr því gert nælonkurl.

Afraksturinn er þó afurð sem er lakari en upprunalegt nælon og sökum óhreininda óhæf til notkunar í framleiðslu á gæðaþráðum og er mest notuð í steypta hluti.

Hampiðjan var ásamt dótturfélögum og samstarfsaðilum tilnefnd til verðlaunanna Aquaculture Awards 2024, sem veitt eru fyrir framúrskarandi framlag til lagareldis, fyrir verkefni er kallast Circular Fish Farming Nets (CFFN).

„Þetta spennandi verkefni snýst um notkun endurunnins nælons í framleiðslu á fiskeldiskvíum sem falla vel að bæði markmiðum fyrirtækisins og hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins,“ segir Georg.

„Í því skoðum við nýtingu á 100 prósent endurunnu næloni í netaframleiðslu þar sem það kæmi í staðinn fyrir nýtt nælon sem unnið er úr hráolíu. Takist að nota endurunnið nælon við framleiðsluna gæti það valdið byltingu þegar kemur að sjálfbærni í lagareldi og sjávarútvegi í framtíðinni. Ef vel tekst til mun CFFN-verkefnið gefa Hampiðjunni færi á að bjóða viðskiptavinum sínum hringrásarvöru sem minnkar kolefnislosun svo um munar í virðiskeðju laxeldisins og fiskveiðanna.“

Umhverfisstefna og heimsmarkmið að leiðarljósi

Starfsfólk og stjórnendur Hampiðjunnar vinna eftir umhverfisstefnu sem mörkuð hefur verið og er staðfesting á markmiðum fyrirtækisins um að draga úr öllum neikvæðum umhverfisáhrifum. Auk endurvinnslu og sjálfbærni er í stefnunni lögð áhersla á veiðarfæratækni sem stuðlar að betra stærðar- og tegundavali fiska svo að hámarka megi sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda með því að velja betur þann fisk sem er fangaður.

„Hampiðjan hyggst einnig vinna ötullega að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og áætlun sem miðar að bættri framtíð og við höfum valið okkur þrjú markmið sem sérstaklega er stefnt að. Við teljum að við höfum mikið fram að færa þegar kemur að umhverfismálum tengdum sjávarútvegi og fiskeldi og það eru mörg spennandi tækifæri því tengd á sjóndeildarhringnum,“ segir Georg Haney.

» gag

 

Skjáskot úr myndbandi Hampiðjunnar.

Kafað undir yfirborðið

Vilji fólk sjá troll í notkun má smella hér á hlekk til að sjá myndband Hampiðjunnar þar sem myndavélin fylgir trolli í kaf og veiðarnar eru skoðaðar frá nýstárlegu sjónarhorni.

 

 

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.