Sjómannadagurinn er sameiningartákn sjómannastéttarinnar. Í dag eru 86 ár liðin frá því að sjómannafélögin héldu daginn fyrst hátíðlegan. Samtakamáttur sjómanna hefur allar götur síðan verið helsti aflvaki  sjósóknar hér við land og hafa sjómenn staðið í stafni og stýrt sínum knerri, þjóð sinni til stolts og sóma. Á það erum við minnt þegar sjómannadagurinn gengur í garð.

Sjómenn eiga sérstakan stað í hjarta þjóðarinnar. Engin önnur þjóð í heiminum heldur sjómannadaginn hátíðlegan. Það er engin tilviljun að sjómönnum er gert hátt undir höfði hér á landi. Dagurinn er fyrst og  fremst helgaður stéttabaráttu sjómanna en hefur líka öðlast menningarlegt gildi, sér í lagi fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra sem geta notið samverunnar, auk þess að halda í heiðri gildi sjómannastéttarinnar og  þá mikilvægu vinnu sem hún skilar af sér til handa þjóðinni. Einu sinni sjómaður ávallt sjómaður á hér vel við.

Það er þó ekki nóg að minnast sjómanna eina stund, á tyllidögum til hátíðarbrigða. Sjómenn eru stéttasamtök sem hafa um langa hríð háð harða baráttu fyrir réttindum sínum. Sú barátta er samofin atvinnusögu og alþýðumenningu okkar Íslendinga. Frá því herrans  ári 1938, þegar sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur, hafa lög verið sett á kjaradeilur sjómanna og útvegsmanna í fjórtán skipti. Það er langtum  oftar en á aðrar greinar og segir sína sögu um samstöðu sjómanna og seiglu, en jafnframt um mikilvægi þeirra í virðiskeðju sjávarútvegsins.

Sjávarútvegur hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum og hefur stór hluti flotans verið endurnýjaður. Bætt vinnuaðstaða skiptir sköpum fyrir sjósókn, enda starfið eftir sem áður líkamlega erfitt og krefst mikilla fórna af hálfu sjómanna, sem oft eru í burtu frá fjölskyldum um langan tíma. Þetta eru þær fórnir sem hafa gert okkur að fremstu fiskveiðiþjóð í heiminum.

Allt fram á þennan dag hefur fiskurinn í sjónum verið lífsviðurværi okkar, hvort sem er til matar eða hagnýtingar. Sú hagsæld sem við njótum nú sem samfélag byggir á þeim nytjum. Hlutur sjómannsins í  framþróun samfélagsins verður aldrei að fullu metinn til fjár.

Það er af virðingu og vegsemd sem ég óska sjómönnum, fjölskyldum þeirra og aðstandendum til hamingju með daginn.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra.