Viðbrigðin við að koma í land voru ofarlega í huga þátttakenda í einu rannsókninni sem gerð hefur verið á starfslokum sjómanna. Í rannsókninni kemur fram að hér hafi starfslok fólks lítið verið könnuð og ekkert horft til einstakra stétta.
Óhætt er að fullyrða að starfslok fólks séu ein af stóru tímamótunum í lífi þess, enda verða alla jafna við þau miklar breytingar á lífsmynstri fólks. Takturinn sem fylgt hefur vinnunni hverfur og annað tekur við. Þetta á við um starfslok sjómanna ekki síður en annarra, en málið hefur ekki verið rannsakað eða skoðað mikið hér á landi.
„Þetta eru sannarlega mál sem þyrfti að rannsaka frekar,“ segir Kristjana Fenger iðjuþjálfi um rannsóknir á starfslokum sjómanna. Sjálf gerði hún fyrir nokkrum árum rannsókn sem bar heitið „Að leggja árar í bát: Starfslokaferli sjómanna“ og flutti um hana erindi á ráðstefnu í Háskóla Íslands haustið 2014. Rannsóknin var líka birt í riti Félagsvísindastofnunar Háskólans, Þjóðarspeglinum.
Voru á síðutogurunum
„Þetta var mjög skemmtileg rannsókn og æðislegt að tala við alla þessa menn,“ segir Kristjana, en bætir við að hún hafi vitanlega fengið mun meiri gögn en birtast í greininni sem unnin var upp úr rannsókninni. Hún hafi þarna verið að ræða við menn sem hafi verið á síðutogurunum fyrir hundrað árum.
„Og það er mikil breyting sem hefur orðið á lífinu síðan þá.“
Til þátttöku í rannsókninni voru valdir sjómenn sem komnir voru á eftirlaun. „Þeir höfðu lifað tímana tvenna.“ Kristjana rifjar upp að á einum fyrirlestri sem hún hélt um
rannsóknina hafi komið til hennar ungir sjómenn sem töluðu um að hlutirnir hefðu breyst mjög frá því sem þessi hópur upplifði þegar hann fór á eftirlaun. „Og þeir fóru
náttúrlega á eftirlaun á mismunandi hátt, bæði út af veikindum og einhverju öðru. Sumir voru á vinnualdri og aðrir voru sáttir.“
Í rannsókninni kemur fram að í svonefndum eigindlegum hluta rannsóknarinnar hafi verið tekin viðtöl við níu sjómenn á eftirlaunum, en Sjómannafélag Eyjafjarðar
hafi haft milligöngu um að útvega þátttakendur.
„Mennirnir voru á aldrinum 67 til 74 ára þegar viðtölin fóru fram og voru liðin tvö til sjö ár frá starfslokum þeirra á sjó. Þeir höfðu starfað sem hásetar eða bátsmenn í 35 til 52 ár og voru allir fjölskyldumenn,“ segir þar.
Í megindlegum hluta rannsóknarinnar, þar sem þátttakendur svöruðu spurningalista, hafi svo tekið þátt 37 sjómenn á eftirlaunum.
„Af þeim buðu 20 fram þátttöku sína úr 70 manna slembiúrtaki úr félagaskrá eftirlaunaþega Gildis lífeyrissjóðs og 11 bættust við með snjóboltaúrtaki. Flestir voru menntaðir skipstjórar, stýrimenn eða vélstjórar (n=30) og unnu lengst af á því sviði, en aðrir unnu sem hásetar (n=5) eða kokkar (n=2). Allir voru fjölskyldumenn og bjuggu ýmist með maka (n=31) eða einir vegna makamissis (n=6) eða skilnaðar (n=1). Allir áttu afkomendur, þ.e. börn og barnabörn.“
Góð laun en mikil fjarvera
Kristjana segir skorta frekari rannsóknir á þessu sviði, en sjálf er hún komin á eftirlaun. Hún hafi alltaf ætlað að vinna meira úr þessum gögnum en ekki komist til þess vegna anna.
Í rannsókninni sjálfri var horft til viðhorfa sjómanna til eigin starfsloka og aðdraganda þeirra.
Tekin voru viðtöl við níu sjómenn á eftirlaunum og þau greind og í kjölfarið var í símtali lagður spurningalisti fyrir 37 sjómenn á eftirlaunum.
„Niðurstöður sýndu að sjómennirnir höfðu flestir hafið störf mjög ungir og átt langa starfsævi á sjó. Áhugi á sjómennskunni var algengasta
ástæða þess að þeir hófu þar störf. Það sem þeim líkaði best við starfið var hve launin voru góð, en síst fjarvera frá fjölskyldunni,“ segir í samantekt niðurstaðna.
„Starfslokin voru þeim miserfið, þeir sem neyddust til að hætta voru ósáttir en hinir sem völdu það sjálfir voru sáttir.“
Þá kemur fram að misjafnt var hvernig undirbúningi starfslokanna var háttað og hvað í þeim fólst. „Þátttaka þeirra í viðfangsefnum innan heimilisins jókst til muna eftir starfslok en tvennum sögum fer af þátttöku þeirra í tómstunda- og félagslífi.“
Bent er á að víðast hvar í vestrænum ríkjum sé opinber lífeyrisaldur 65 ár en hér á landi sé lögbundinn eftirlaunaaldur 67 ár.
Tók hlutverk af eiginkonunni
„Fyrir 2005 höfðu sjómenn sinn eigin lífeyrissjóð, en þá miðaðist lífeyrisaldur þeirra við 65 ár. Þeir gátu tekið skertan lífeyri 60 ára og aukinn frá 65 til 70 ára. Þegar lögin voru afnumin sameinaðist sjóðurinn Lífeyrissjóði Framsýnar í Gildi lífeyrissjóði og við það breyttist eftirlaunaaldur sjómanna í 67 ár,“ segir í rannsókn Kristjönu.
Um leið er bent á að sjómenn hafi samt sem áður möguleika á skertri lífeyristöku og vísað til upplýsinga á vef Tryggingastofnunar ríkisins þar sem segir:
„Sá sem hefur stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur getur átt rétt á ellilífeyri frá 60 ára aldri. Miðað er við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár.“
Kristjana segir viðmælendur sína í rannsókninni marga hafa nefnt viðbrigðin við að koma í land eftir gríðarmikla fjarveru að heiman vegna sjómennskunnar.
„Einn nefndi hvernig konan hans var ekki hrifin af því hvernig hann tók þá af henni verkefni sem hún hafði alltaf annast. Þú kemur í land og þarft að finna þér ný hlutverk.“
Þetta hafi verið upplifun margra sem fóru á eftirlaun þegar þeir höfðu aldur til.
„Síðan voru hinir sem gátu ekki verið lengur á sjó og þurftu að finna vinnu í landi því þeir voru ennþá fyrirvinna. Útgerðin var misvirk í að hjálpa þeim að finna eitthvað nýtt að gera og þeir voru svona misánægðir með það.“
Kristjana segir marga viðmælenda sinna hafa verið ágætlega staddir og komið ár sinni vel fyrir borð. „Og þá gjarnan búnir að koma sér upp tómstundaiðju eða einhverju við að vera. Sumir voru komnir með báta,“ segir hún og bætir við að í rannsókninni hafi hún rætt við sjómenn á Norðurlandi; á Dalvík, Akureyri, Húsavík og þar um kring. „En þetta voru rosalega flottir karlar og gaman að tala við þá.“
Fékk að heyra alla söguna
Kristjana segist ekki síst hafa haft gaman af því að ræða við hópinn af því að hjá þeim hafi hún gjarnan fengið að heyra alla þeirra sögu, allt frá því þegar þeir byrjuðu fyrst á sjó og af hverju, þar til þeir fóru á eftirlaun. „En ég var hins vegar bara að fjalla um eftirlaunatímann, þannig að sum gögnin voru náttúrlega ekki höfð með í rannsókninni.“
Gagnlegt hefði verið að sögn Kristjönu að taka aftur upp þráðinn og ræða við sjómenn sem fóru á eftirlaun um tíu árum seinna en þeir sem hún ræddi við, því hún telur margt hafa breyst. Í þeim efnum þurfi hins vegar aðrir að taka við keflinu.
Í rannsókn Kristjönu er vitnað til erlendra rannsókna um að almennt séu viðhorf fólks til þess að láta af störfum jákvæð, þó að sumir kvíði starfslokunum. Í inngangi rannsóknar sinnar bendir hún á að lítið hafi verið vitað um starfslok fólks á Íslandi almennt og ekkert um starfslokaferli einstakra stétta eins og sjómanna þrátt fyrir að sjávarútvegur hafi verið einn þýðingarmesti atvinnuvegur Íslendinga í gegnum aldirnar.
„Sjómennska er erfið vaktavinna sem krefst oftast mikillar fjarveru frá fjölskyldunni. Það er því áhugavert að fá innsýn í starfslokaferli þeirra, undirbúning, umbreytinguna sjálfa og aðlögun að eftirlaunaárunum og hvort þetta sé á einhvern hátt frábrugðið lýsingum innlendra og erlendra rannsókna,“ segir þar.
Fram kemur í niðurstöðum rannsóknar Kristjönu að þeir sem sjálfir stýrðu tímasetningu eigin starfsloka hafi átt auðveldara með breytinguna, en þeir sem þurftu að hætta óvænt hafi staðið frammi fyrir ýmsum brostnum vonum.
„Rannsóknir sýna mikilvægi þess að vera sjálfur við stýrið í eigin lífi, þ.e. geta ákveðið sjálfur hvenær og hvernig starfslok manns ber að höndum til að þau verði sem farsælust,“ segir þar og tekið er fram að niðurstaðan hafi verið sú sama í þessari rannsókn.
»» óká
Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments