Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur frá því árið 1938. Til hans var stofnað af sjómannafélögum sem vildu tileinka einn dag þeirri stétt sem vann „erfiðustu og hættulegustu störfin,“ eins og sagði í umfjöllun Alþýðublaðsins um fyrsta sjómannadaginn. Þannig má segja að rætur sjómannadagsins liggi í sjónarmiðum um réttlæti.
Samtakamáttur sjómanna varð til þess að vökulögin voru sett, sem tryggðu sex tíma hvíld – en áður höfðu sjómenn unnið dögum saman án hvíldar, með auknum líkum á slysum. Þó að vinnuslys hjá sjómönnum séu enn tíð, borið saman við aðrar stéttir, hefur náðst mikill árangur í að fækka banaslysum til sjós með betri þjálfun sjómanna, öruggari skipum og bættum fjarskiptum.
Til þess að skilja íslenskt samfélag í dag er nauðsynlegt að skilja sögu og þróun sjávarútvegs síðustu áratugina. Greinin á sér djúpar rætur í atvinnusögu landsins og um langt árabil var vægi sjávarútvegs í lífskjörum landsmanna langtum meira en allra annarra greina til samans. Í dag hafa fleiri stoðir bæst við, en sjávarútvegurinn heldur áfram að leika lykilhlutverk.
Þetta hefði ekki verið hægt án þess að komið hefði verið á kerfi sem tryggði sjálfbærar veiðar. Við veiðum í dag lægra hlutfall af stofninum en við gerðum fyrir 20 árum þrátt fyrir að aflinn sé meiri í tonnum talið.
Það var ekki sjálfgefið að þetta tækist, enda kostaði það fórnir. Þær fórnir voru ekki síst samfélagslegar. Aflinn minnkaði árum saman. Til þess að halda úti heilsársstörfum og auka hagkvæmni var veiðiheimildum þjappað saman og útgerðir færðust úr einu plássi í annað.
Hluti af þessari þróun snerist um tæknibreytingar sem voru og eru óumflýjanlegar. Vélin leysir mannshöndina af hólmi og við það hækkar ráin; meira magn þarf til þess að vinnslan eða skipið sé hagkvæmt. Þennan samfélagslega kostnað er mikilvægt að horfast í augu við, kostnað sem snýst um réttlæti.
Í gegnum tíðina hafa stjórnmálamenn sett á fót ýmsar nefndir til að koma á meiri sátt í málefnum sjávarútvegsins. Ég vil draga lærdóm af þessum fjölmörgu atrennum og hef því sett af stað nefndir sem ber að taka á þeim fjölmörgu réttlætissjónarmiðum sem þarf að taka tillit til, til að ná meiri sátt.
Sjónarmiðum tengdum réttlátari og gagnsærri ferlum fyrir ákvarðanatöku, réttlátum leikreglum um eignarhald og dreifingu á hagnaði, svo ekki sé talað um fiskverð. Á réttu fiskverði byggja réttlát kjör sjómanna.
Með aukinni samfélagslegri sátt verður sjávarútvegurinn betur í stakk búinn til þess að grípa þau tækifæri sem fyrir hendi eru til framfara. Áskoranir sjávarútvegs 21. aldarinnar eru fjölmargar en tækifærin enn fleiri. Það eru sóknarfæri í aukinni verðmætasköpun, fullvinnslu, markaðsmálum, nýsköpun og náttúruverndar- og loftslagsmálum. Það er mikilvægt fyrir þjóðarsálina en ekki síður fyrir sjómenn og þau sem vinna í greininni. Sjómenn eru og eiga að vera stoltir af framlagi sínu til þjóðarbúskaparins. Til þess er fullt tilefni.
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar í dag sem og alla aðra daga.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.
Pistil ráðherra er að finna á leiðarasíðu Sjómannadagsblaðsins 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments