Á Dalvík býr völundarsmiðurinn Elvar Þór Antonsson, fyrrverandi sjómaður sem átti sér lengi það áhugamál að setja saman flugvélamódel í tómstundum og fljúga þeim.
Þetta var á árunum fyrir aldamótin þegar ég var í áhöfn gamla Björgólfs EA. Um aldamótin fór ég að velta fyrir mér erfiðara verkefni en flugvélamódelunum og í framhaldinu
varð ég mér úti um burðarteikningarnar af Björgólfi og hófst handa við gerð líkans af togaranum í hlutföllunum 1:50,“ segir Elvar, sem lauk smíði fyrsta togarans og setti að auki vél í líkanið, sem var nær óþekkt.
Fyrsti rafknúni togarinn á Íslandi
„Ég fór á sorpstöðina á Dalvík og fékk þar 12 volta kæliviftumótor úr gömlum Ford Escort. Síðan varð ég mér úti um hraðabreyti sem ég hafði séð í einhverju blaði að passaði við hann og gat snúið mótornum í báðar áttir svo að togarinn gat bakkað líka. Þekking mín af fjarstýringum úr fluginu gerði mér síðan kleift að klára verkið og ég sýndi svo gripinn þegar ég sigldi Björgólfi á sjómannadaginn í Dalvíkurhöfn árið 1999. Ég er viss um að þetta er fyrsti rafknúni togarinn á Íslandi,“ segir Elvar og hlær.
Líkanasmíði varð að aðalstarfi Í kjölfar smíði á Björgólfi EA réðst Elvar í smíði á Eyrúnu EA frá Hrísey. Því næst varð Sigurbjörg ÓF 1 fyrir valinu og svo Akureyrin EA, sem
hann smíðaði árið 2002, áður en hann byrjaði á togaranum Stefáni Rögnvaldssyni EA frá Dalvík. Síðan hafa líkönin komið hvert á fætur öðru úr smiðju Elvars við Karlsbraut,
því móttökurnar og eftirspurn sjómanna og útgerða reyndust vonum framar. Ákvað Elvar í framhaldinu að gera smíði skipslíkana að aðalstarfi og segja þáverandi starfi sínu hjá Sæplasti lausu.
Mikil nákvæmnisvinna
„Ég hef haft það fyrir reglu að fara nákvæmlega eftir teikningum af skipunum í öllum smáatriðum og vinna allt efni til sjálfur. Burðarteikningarnar eru í flestum tilvikum aðgengilegar í skipaskráningarkerfinu, það er af þeim skipum sem ég hef smíðað, en í augnablikinu er ég reyndar í fyrsta sinn að fást við smíði á báti sem engar teikningar eru til af. Það er Barðinn EA 371, sem varð síðar fyrsta Sigurbjörgin á Ólafsfirði. Það eru bara örfáar myndir til af bátnum en ég fann loks nothæfar myndir á Héraðsskjalasafninu á Dalvík. Ég er byrjaður; kominn með burðargrindina og ég mun klára þetta verk,“ segir Elvar kíminn og getur þess að vinnan krefjist mikillar nákvæmni og þolinmæði.
„Já, þetta er mikið þolinmæðisverk og þegar um líkön af nýjustu togurunum er að ræða fara á bilinu 400 til 600 vinnustundir í verkefnið.“
Langar að halda sýningu í Reykjavík
Í byrjun desember á síðasta ári efndi Elvar til sýningar á skipslíkönum sem hann hefur smíðað á liðnum árum og hlaut hún miklar og jákvæðar móttökur gesta. Sýningin stóð fram í janúar og segir Elvar það hafa komið sér
þægilega á óvart hvað unga kynslóðin sýndi skipunum mikinn áhuga, ungar stúlkur ekki síður en piltar og fólk af eldri kynslóðinni.
„Það var mjög ánægjulegt að upplifa þennan mikla áhuga, ekki síst hjá ungum stúlkum sem ég ræddi við sem hafa verið að læra þrívíddarteikningu í skóla. Þessir nemendur skoðuðu skipin alveg í þaula og voru að spá og spekúlera. Það var mjög skemmtilegt,“ segir Elvar, sem á sér þann draum að efna til sýningar á góðum stað í Reykjavík.
„Ég er svo heppinn að eigendur líkananna eru svo jákvæðir gagnvart því að lána mér skipin til að sýna á einum stað. Það er alveg ómetanlegt, því þetta eru auðvitað viðkvæmir gripir sem þarf að passa vel upp á. En mig langar mjög mikið að halda sýningu í Reykjavík,“ segir Elvar, sem nýlokið hefur við gerð líkans af Frosta frá Grenivík. Sýningin á Glerártorgi leiddi ótvírætt í ljós mikinn áhuga, enda hefur vönduð smíði líkananna ákveðið fræðslugildi sem áhugavert væri að koma á framfæri með vandaðri sýningu í höfuðborginni.
– bv
Kútter Fríða RE 13
Mikið og vandað líkan af Fríðu RE 13, kútter Geirs Zoëga kaupmanns í Reykjavík, sem Elvar hefur smíðað, er í eigu Sjóminjasafnsins í Grindavík. Skipið var smíðað í Hull árið 1884 fyrir þarlendan útgerðaraðila en keypt til Íslands árið 1897 af Geir Zoëga ásamt fleiri skipum.
Þess má geta að laugardaginn 11. mars 1911 fóru sjö opnir róðrarbátar til fiskjar frá Grindavík með alls 58 manns um borð. Flestir bátanna voru áttæringar en nokkrir með tíu eða tólf manns í áhöfn. Þennan morgun var veður gott í Grindavík en á skömmum tíma varð veður vitlaust með miklum öldugangi, slyddu og bálhvassri hríð.
Varð fljótlega ljóst að bátarnir næðu ekki landi. Á sama tíma var áhöfn Fríðu RE úti fyrir Krýsuvíkurbjargi á leið til Reykjavíkur með fullfermi. Skipverjar veittu þá bátunum athygli þegar rofaði til í hríðinni og var skipinu þegar snúið í átt til bátanna.
Röðuðu áhafnarmeðlimir Fríðu sér meðfram borðstokknum þar sem skipinu hafði verið snúið að bátunum og var hverjum bátsverjanum á fætur öðrum kippt um borð í Fríðu utan eins, sem klemmdist milli báts og borðstokks og hvarf sjónum.
Í kjölfarið var Fríðu siglt inn á Járngerðarstaðavík utan við þorpið, þar sem legið var um nóttina.
Morguninn eftir voru skipbrotsmennirnir ferjaðir í land og urðu að vonum fagnaðarfundir með þeim og fjölskyldum þeirra, enda flestir skipbrotsmannanna ungir menn í blóma lífsins.
Kútter Fríða var gerð út hér við land til ársins 1913 en var þá seld til Færeyja, þar sem hún var gerð út til fiskveiða allt til ársins 1980. Þá var hún seld til enskra áhugamanna um gömul skip, sem gerðu kútterinn upp og gáfu henni nafnið William McCann árið 1984. Árið 1997 hlaut kútterinn upprunalegt nafn sitt á ný, City of Edinboro. Skipið var þá í heldur döpru ástandi og sökk m.a. við bryggju í Grimsby.
Árið 1998 var City of Edinboro komið í umsjá Excelsior Trust, sem hafði m.a. endurgert segltogarann Excelsior með góðum árangri. Var kútterinn dreginn til Lowestoft, þar sem hann var dreginn á land og komið fyrir undir þaki. Þar er kútterinn enn þann dag í dag á meðan beðið er tækifæris til að fjármagna uppgerð á skipinu á ný.
Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments