Sjóminjasafnið í Reykjavík stendur á einum og öðrum tímamótum á þessu ári. Á þessu ári eru tuttugu ár frá stofnun safnsins og tíu ár síðan Borgarsögusafn Reykjavíkur tók við rekstri þess.
Eftir áratugaumræður og vangaveltur um nauðsyn þess að til yrði veglegt alhliða sjóminjasafn sem stæðist samanburð við sambærileg erlend söfn komst alvöru hreyfing á málið upp úr aldamótunum síðustu þegar Reykjavíkurborg samþykkti að fylgja eftir tillögum undirbúningshóps um stofnun sjóminjasafnsins. Það var 2003 og þá þegar búið að ganga frá því að húsnæði Bæjarútgerðar Reykjavíkur á Grandagarði yrði lagt undir safnið.
Með það var undirbúningi áfram haldið og opnað samtal um hvernig málum yrði best fyrir komið í safninu. Í Sjómannadagsblaðinu 2004 var fjallað um áformin og bent á að húsnæðið við Grandagarð 8 yrði til sýnis á sjómannadaginn.
„Aðstandendum safnsins er mikils virði að sem flestir líti við þennan dag, skoði húsakynni og tjái sig um áformin. Hér er átt við alla sem taugar hafa til hafnarinnar, útgerðar og siglinga og vilja veg þeirra sem mestan. Vitað er að sá hópur er stór en lætur sjaldan mikið fyrir sér fara,“ segir í blaðinu.
1. desember 2004 var svo Sjóminjasafnið í Reykjavík formlega stofnað og var raunar síðasta skipulagða embættisverk Þórólfs Árnasonar sem borgarstjóra að skrifa undir samning um rekstur þess. Safnið var svo opnað á sjómannadaginn ári síðar.
Meiri aðsókn yfir sumartímann
Borgarsögusafn Reykjavíkur tók svo við rekstri Sjóminjasafnsins 2014, auk fleiri safna, og fagnar því 10 ára afmæli í ár. Að sögn Helgu Maureen Gylfadóttur, deildarstjóra miðlunar, safnfræðslu og viðburða hjá Borgarsögusafni, er að jafnaði afar góð aðsókn á Sjóminjasafnið í Reykjavík, jafnt innlendir sem erlendir gestir á öllum aldri.
„Aðsóknin er meiri yfir sumartímann og þá einkum í hópi erlendra ferðamanna. Á safninu er rekin öflug safnfræðsla sem tekur á móti fjöldi skólafólks á öllum skólastigum, allt frá leikskóla til háskóla, allt árið um kring,“ segir hún.
Grunnsýning safnsins „Fiskur & fólk: sjósókn í 150 ár“ var opnuð sumarið 2018, en að henni hafði þá verið unnið allt frá 2014.
Samkvæmt upplýsingum frá safninu var í hugmyndavinnu fyrir sýninguna leitað til fjölmargra sérfræðinga á ýmsum sviðum, s.s. fiskifræðinga, umhverfisfræðinga og rithöfunda, auk sérfræðinga safnsins. Lögð var áhersla á að greina markhópa og þeirri nýjung beitt að fá þá til að svara spurningum um hvað þeir vildu sjá.
Sýnir breidd atvinnuvegarins
„Hönnun sýningarinnar var í höndum Kossmann.dejong sem er hollenskt fyrirtæki sem starfar á alþjóðavettvangi. Sýningin er byggð í kringum fiskinn sjálfan þar sem honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn, að landi, í gegnum vinnslu og loks á diskinn.
Sýningin spannar sögu fiskveiða á Íslandi, frá því að árabátarnir viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000,“ segir í svörum frá safninu.
„Hún sýnir breidd atvinnuvegarins, hve margir koma að honum með einu eða öðru móti, sjómenn, fiskverkafólk í landi, makar, börn, söluaðilar og neytendur, vísindafólk og stjórnmálamenn. Allir leggja sitt af mörkum og einnig þeir sem vinna að því að finna leiðir til að nýta veiðina sem best, svo sem roð, bein og annað sem nýta má.“
Sýningin er umfangsmikil, sett fram á lifandi og gagnvirkan hátt með gripum, textum, myndum og leikjum þar sem sagan er sögð frá sjónarhóli útgerðarbæjarins Reykjavíkur. Hún hefur líka vakið athygli og var til dæmis tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna 2020.
Ókeypis aðgangur á sjómannadaginn
„Mat valnefndar er að sýningin Fiskur & fólk: sjósókn í 150 ár í Sjóminjasafni Borgarsögusafns Reykjavíkur höfði til fjölbreytts hóps gesta, jafnt þeirra sem vel þekkja til og þeirra sem lítið þekkja til sjósóknar. Sýningin miðlar sögunni á fræðandi, lifandi, gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Aðferðafræðin við gerð sýningarinnar og hið umfangsmikla tengslanet sem virkjað var, er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar,“ sagði þá í tilnefningunni.
Gert er ráð fyrir að sýningin standi fram til 2028–30 og er ekki gert ráð fyrir að breyta henni að neinu leyti á sýningartímanum, nema því sem snýr að almennu viðhaldi. Stór hluti sýningarinnar er gagnvirkur og gæta þarf að því að allt virki sem skyldi.
Á sýningunni er meðal annars að finna gagnagrunn sem nefnist Minning lifir, þar sem fjallað er um þá sem hafið hefur tekið frá 1900 til 2018. Að sögn Helgu Maureen er unnið að því að koma því efni á heimasíðu safnsins svo að gagnagrunnurinn sé aðgengilegur fleirum en þeim sem sækja sýninguna heim.
Sem fyrr er ókeypis aðgangur að safninu á sjómannadaginn og vel þess virði fyrir fólk sem fagnar sjómannadeginum á Grandagarði að líta við.
» óká
Óðinn og sýningarsalir
Samstarf Sjóminjasafnsins við Hollvinasamtök varðskipsins Óðins og dráttarbátsins Magna endurspegla góð tengsl safnsins við samfélagið, en í sumar verður aftur opnað fyrir leiðsögn í safnaskipið Óðin sem liggur, ásamt dráttarbátnum Magna, við nýju trébryggjuna Safnabryggju. Hún var vígð í ágúst í fyrra en leiðsögn um Óðin lá niðri á meðan á smíði bryggjunnar stóð. Í Sjóminjasafninu er einnig sýningarsalur sem nefnist Vélasalur, en í honum fara fram tímabundnar sýningar. Þar er nú sýningin Við erum jörðin – við erum vatnið eftir Heimi Frey Hlöðversson, kvikmyndagerðarmann, listamann og margmiðlunarhönnuð. Á jarðhæð safnsins hefur svo rýmið Bryggjusalurinn nýst fyrir ýmsar minni sýningar og viðburði sem safnið stendur fyrir. Á sjómannadaginn í ár verður Bryggjusalurinn miðstöð fyrir íbúa Grindavíkur þar sem Landsbjörg verður með veitingasölu til styrktar bæjarfélaginu.
Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments