Sjómannadagsblaðið fyrir 50 árum:
Vestmannaeyjagosið var fyrirferðarmikið í blaðinu
Hér lítum við í baksýnisspegilinn og gluggum í efni Sjómannadagsblaðsins 1973, fyrir 50 árum. Einn stærsti viðburður þess árs, gosið í Heimaey 23. janúar, er eðlilega fyrirferðarmikill í blaðinu en einnig er áberandi umfjöllun um öryggismál sjómanna og sláandi að sjá að 34 sjómenn létust milli tölublaða Sjómannadagsblaðsins.
Vestmannaeyjagosið
Auk forsíðumyndar blaðsins, sem Sigurgeir Jónasson ljósmyndari tók af Landakirkju í Vestmannaeyjum, með eldsúluna frá gosinu í baksýn, eru fimm síður lagðar undir umfjöllun um gosið í Heimaey.
Yfirskrift umfjöllunarinnar er „Vestmannaeyjar og eldurinn“, en Jóhann Gunnar Ólafsson, sem ritar greinina, hefur umfjöllun sína á því að tala um hvernig mörgum sem orðið hafi samgrónir Eyjunum hafi þótt Vestmannaeyjar fegursti staður á jörðinni.
„Þar áttum við okkar gleðistundir, æskuástir og sorgarstundir. Allar athafnir okkar bundu okkur tryggðaböndum við þær og þótt örlögin hafi leitt okkur suma á aðrar slóðir, hafa tengslin við Eyjarnar aldrei rofnað, heldur hafa þau styrkzt og eflzt með hverju ári, sem liðið hefur.“
Jóhann lét af starfi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum árið 1939 en var á þessum tíma kominn til Reykjavíkur, þar sem hann fékkst við lögmannsstörf og sagnfræði.
„Það voru okkur öllum harmafregnir, sem bárust úr Eyjunum aðfaranótt 23. jan. s.l., þegar suðaustanverð Heimaey sprakk og gos upphófst þar með þeim ógnum, sem slíkum hamförum eru samfara. Milli vonar og ótta fylgdumst við með fregnum úr Eyjum frá því gosfregnin barst snemma morguns og síðan frá degi til dags, og alltaf vonað og beðið að hamförunum tæki að linna,“ segir í umfjölluninni.
Fram kemur að um miðnætti 23. janúar 1973 og raunar nokkru fyrr hafi orðið jarðhræringar í Vestmannaeyjum. „Eldgos hófst síðan á sjálfri Heimaey og við bæjardyrnar, með miklum gný, hávaða og sprengingum.“
Óvissa um framhaldið
Jóhann Gunnar segir að ljóst hafi verið strax á fyrstu klukkustundum gossins hvílíkar hamfarir stæðu fyrir dyrum og til að forða manntjóni hafi Vestmannaeyingar ákveðið að yfirgefa Heimaey.
„Á fyrstu klukkustundum eftir að gosið byrjaði, og menn höfðu kynnt sér útlitið á gosstöðvunum, hafði skipafloti Vestmannaeyinga lagt úr höfn með um 4000 manns um borð, en íbúar í Vestmannaeyjum voru 1. desember 1972 samkvæmt tölum Þjóðskrár 5278 manns, 2718 karlmenn og 2555 konur. Flutti flotinn allt þetta fólk til Þorlákshafnar og var þar tekið á móti því og það flutt til Reykjavíkur og víða um Suðurnes og Suðurland.“ Lítill hópur hafi orðið eftir og beðið átekta.
Þegar greinin var rituð var enn allt í óvissu um framtíð Vestmannaeyja. Bent er á hversu mikinn þátt fiskiskipafloti Vestmannaeyja hafi átt í að færa þjóðarbúinu tekjur og frá því greint að þingmenn Suðurlands hafi borið fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að láta hefja „athugun á staðsetningu nýrrar hafnar á suðurströnd landsins á svæðinu frá Dyrhólaey og vestur um“ ef svo kynni að fara að höfnin í Vestmannaeyjum og hafnarstæði þar færi forgörðum vegna gossins.
„Það er þungt andlegt áfall að verða að hverfa út í óvissuna og eygja ekkert til miða,“ segir Jóhann Gunnar í niðurlagi greinar sinnar. „En Vestmannaeyingar eru manna bezt undir það búnir að sæta áföllum, og þessvegna leikur ekki vafi á því að þeir láta ekki bugazt, og er það von mín og ósk þeim til handa að framtíðin verði þeim eins hliðholl eins og fortíðin hefur verið.“
Öryggismálin höfuðmál
Á þessum árum voru alvarleg slys til sjós algengari en nú er, en til marks um það er í blaðinu að finna upptalningu á sjómönnum sem farist höfðu af slysförum frá síðustu útgáfu blaðsins. Tekið er fram hverjir þetta voru, hvar þeir voru búsettir og hvort þeir voru kvæntir eða skildu eftir sig börn. Sjá má á fyrirsögn upptalningarinnar hér til hliðar að um var að ræða 28 Íslendinga, fimm Færeyinga og einn Dana.
Þegar rýnt er í tölurnar má sjá að rúmur helmingur þeirra sem taldir eru upp lést þegar bátur þeirra annaðhvort sökk eða strandaði í einu tilviki. Um leið er sláandi að sjá að sjö mannanna drukknuðu í höfn, ýmist hér við land eða erlendis, og sex höfðu fallið útbyrðis.
Í grein sem Páll Guðmundsson skipstjóri skrifar í blaðið bendir hann á að öryggismál sjómanna hafi alltaf verið eitt af höfuðmálum sjómannadagsins.
Framfaraskref á Íslandi
„Þó mikið hafi áunnizt, sýna þeir tíðu sjóskaðar, sem orðið hafa á fyrstu mánuðum þessa árs, að ekki má slaka á. Hér verður að leita orsakanna og taka á málunum með festu. Til að svo megi verða, þurfa allir að taka höndum saman og þar mega sjómenn ekki láta sitt eftir liggja,“ skrifar Páll, en blessunarlega hefur gríðarmikið áunnist í þessum efnum síðustu ár og alvarleg slys á sjó eru nú fátíð miðað við það sem áður var.
Páll nefnir eitt mesta framfaraskref þess tíma, sem var tilkoma gúmbjörgunarbáta.
„Íslendingar munu hafa verið með þeim allra fyrstu, sem viðurkenndu gúmbjörgunarbáta til notkunar á skipum og síðan fyrirskipuðu notkun þeirra,“ segir hann og hvetur sjómenn um leið til að huga vel að frágangi þessara báta og að þannig sé búið um hnúta að losa megi þá með einu handtaki. Þá fagnar hann ábendingum og umræðu um sjálfvirkan sendibúnað og baujur sem sendi neyðarkall þegar þær lenda í sjó eða skip hefur sokkið.
Um leið hvetur hann til þess að einnig verði gætt að endurbótum og viðhaldi skipa, því sá þáttur vegi einna þyngst í að tryggja að farkostur og áhöfn skili sér heill til hafnar. Um leið talar hann um mikilvægi reynslu skipstjórnarmanna.
„Við athugun sjóslysa síðustu 15 árin, er það áberandi, séu skipstaparnir skoðaðir sérstaklega, hvað oft hafa verið við stjórn reynslulitlir menn, í mörgum tilfellum hefur skipstjórinn verið á fyrsta ári í starfi.“
»» óká
Þeir sem áhuga hafa á að glugga í fyrri tölublöð Sjómannadagsblaðsins geta nálgast þau á netinu, bæði á vef Sjómannadagsráðs og svo á vefnum Timarit.is.
Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments