Það þarf einhver að slá túnin, einhver annar þarf að raka þau og enn annar að fóðra skepnurnar. Í aðdraganda sjómannadagsins höfum við notið þeirrar gæfu að fá að kynna daginn rækilega á flestum fjölmiðlum, hvort sem er í dagblöðum, á netmiðlum eða í útvarpi. Þetta nefni ég hér vegna þess að í tveimur útvarpsþáttum í fyrra fékk ég nokkurn veginn sömu spurninguna á báðum miðlunum og hún var þessi:
„Er sjómannadagurinn ekki tímaskekkja – skiptir sjósókn Ísland máli í dag?“
Ég viðurkenni að mig setti nær hljóðan.
Þegar ég leit þennan heim fyrir tæpum fjórum áratugum stóðu fiskveiðar undir 80 prósentum af allri gjaldeyrisöflun landsins. Hlutfallið hefur minnkað en í dag stendur sjávarútvegurinn undir rúmum þriðjungi af verðmætum alls vöruútflutnings og er því enn gríðarlega mikilvægur þáttur í afkomu þjóðarinnar.
Sem betur fer hefur hlutfallið lækkað, enda er það alkunna að óskynsamlegt er að geyma flest eða öll eggin í sömu körfu. Engu að síður er andvirði samtals á fjórða hundrað milljarða króna dregið upp úr sjó hér við land árlega og flutt út til að fæða munna í flestum heimsálfum.
Mannfjöldi í veiðum og vinnslu
Um tíu þúsund manns starfa í sjávarútvegi hérlendis, þ.e.a.s. með beinum hætti við veiðar og vinnslu, en afleidd störf eru síðan mun fleiri. Úr grósku greinarinnar hafa sprottið stórfyrirtæki á borð við Marel og Kerecis, sem hafa sýnt og sannað að Ísland er svo sannarlega í fararbroddi í nýsköpun í sjávarútvegi – og í þessu tilfelli ekki miðað við höfðatölu.
Farmenn færa okkur fæði og klæði
Til viðbótar veiðum má benda á að grundvöllur lífsgæða okkar er undir millilandasiglingum kominn. Stærstur hluti daglegrar tilvistar okkar er innfluttur; fæði, klæði, húsbúnaður og þar fram eftir götum. Allt þetta er flutt með fraktskipum – mönnuðum af sjómönnum – sem þurfa svo aðstoð hafnsögubáta – mannaðra af sjómönnum – og þegar allt er farið í skrúfuna kemur varðskip til bjargar – mannað sjómönnum.
Getum ekki öll staðið í því sama
Það má þrefa um útfærslu kvótakerfisins fram í hið óendanlega en það hefur óumdeilanlega leitt af sér mikla hagræðingu í greininni, betri skip og ábyrgari umgengni um auðlindina en á sama tíma færri en betur launuð störf til sjós.
Það að þau eru færri gerir það að verkum að sjósókn er hinum almenna borgara eilítið fjarlægari en á árum áður þegar ekki var óalgengt að bróðir, systir, móðir eða faðir starfaði við veiðar eða vinnslu.
Ég skil því hvaðan spurningin í útvarpsþáttunum tveimur er sprottin en þá komum við aftur að fyrirsögn þessa pistils. Við getum ekki öll starfað við að brýna ljái hvert annars.
En til allrar hamingju er einhver sem gerir það, rétt eins og að slá túnin og raka þau. Þá geta hinir sinnt öðrum störfum sem eru líka nauðsynleg til að byggja upp það fjölbreytta og fallega samfélag sem við búum í.
Ef við lítum á samfélagið sem lítið framleiðslufyrirtæki er auðveldara að átta sig á samhenginu. Í framleiðslufyrirtækinu eru hönnuðir sem teikna vöruna, smiðir sem framleiða hana, sölumenn sem selja hana, skrifstofufólk sem innheimtir og greiðir laun og svo matráðar sem seðja alla þessa munna.
Væri smiðunum og grunnframleiðslunni kippt út úr myndinni gæfi það augaleið að tilvistargrundvöllur fyrirtækisins hyrfi og það færi fljótlega lóðbeint á hausinn.
Gildi sjómannadagsins
Sjálfsmynd íslenskrar þjóðarsálar er ekki vel skilgreint hugtak. Danir flagga Dannebrog, Færeyingar skrýðast þjóðbúningi sínum – meira að segja í prófílmyndum á Instagram – og Frakkar brugga góð vín.
Sjómannadagurinn er okkar tækifæri til að minna á það þegar forfeður okkar og formæður komu hingað sjóleiðina í upphafi byggðar og hvernig sjósókn hefur haldið lífinu í þjóðinni í gegnum aldirnar. Fögnum fjölbreyttu og skapandi atvinnulífi en tökum jafnframt saman höndum á sjómannadaginn og þökkum sjómönnum fyrir að draga björg í bú.
Íslenskir sjómenn líka lyft grettistaki í þágu aldraðra
Að síðustu vil ég nefna nokkuð í tengslum við virði sjómannastéttarinnar, hafandi hér áður minnst á gildi þeirra sem starfa á fiskiskipunum, frökturunum, hafnsögubátunum og varðskipunum: Íslenska sjómannastéttin hefur líka lyft algjöru grettistaki með framlagi sínu til velferðarmála þjóðarinnar með uppbyggingu og rekstri hjúkrunarheimila í nær 70 ár auk þess að hafa byggt fjölda leiguíbúða fyrir eldra fólk.
Íslenska sjómannastéttin er enn að störfum í þessum mikilvæga málaflokki sem felst í þjónustu og umönnun við aldraða. Sjómannadagsráð annast rekstur á um fjórðungi allra hjúkrunarrýma á landinu og er um þessar mundir að leggja lokahönd á byggingu tveggja fjölbýlishúsa í Fossvogi með 87 nýjum leiguíbúðum.
Þegar þær verða komnar í notkun verður Sjómannadagsráð með um 350 íbúðir í leigu fyrir 60 ára og eldri sem allar hafa verið byggðar næst Hrafnistuheimilunum.
Sjómenn munu halda þessum leiðangri sínum áfram og stefnir enn að frekari þróun og fjölgun hjúkrunarrýma til hagsbóta fyrir íslenskt velferðarsamfélag.
Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs
Recent Comments