Báta- og skipasmíðar eiga sér aldagamlar rætur með þjóðinni. Var Gísli Súrsson t.d. sagður hafa verið meðal högustu skipasmiða á sinni tíð, en hann smíðaði meðal annars skip á meðan hann dvaldi eftirlýstur í  Hergilsey í Breiðafirði á árunum 972 til 975. Með árum og öldum þróaðist iðnin, bátarnir stækkuðu með tímanum, urðu öflugri og síðan vélvæddir og gerðu hvort tveggja sjómönnum kleift að afla meira í hvert  sinn og sækja lengra út á miðin.
Línubáturinn Sigurbjörg ÓF 1 eldri

Línubáturinn Sigurbjörg ÓF 1 eldri kemur í fyrsta sinn í heimahöfn. Mynd/Svavar Magnússon

Á ofanverðri síðustu öld smíðuðu íslenskar skipasmíðastöðvar fjölda stálskipa sem gerð voru út til vertíðarveiða hér við land. Dæmi um slíkan bát er Sigurbjörg ÓF-1, sem Slippstöðin á Akureyri afhenti Magnúsi Gamalíelssyni útgerðarmanni á Ólafsfirði um miðjan ágúst árið 1966.

Það var þá fyrsta stálskipið sem stöðin smíðaði á ferli sínum og jafnframt langstærsta stálskipið sem þá hafði verið smíðað hérlendis, alls 346 lestir.

Hjálmar H. Bárðarson teiknaði bátinn, en hann hafði einnig teiknað fyrsta stálskipið, smíðað hérlendis; hafnsögubátinn Magna II sem Stálsmiðjan í Reykjavík afhenti 1955 og nú er verið að gera upp í Gömlu höfninni við Sjóminjasafnið.

Sigurbjörgin gamla gekk kaupum og sölum uns hún var seld úr landi 1995 eftir tæplega þrjátíu ára útgerð.

Fyrsti íslenski skuttogarinn

Ekki liðu nema sjö ár frá því að Slippstöðin á Akureyri hafði afhent vertíðarbátinn Sigurbjörgu þar til Stálvík hf. í Garðabæ afhenti Þormóði ramma á Siglufirði fyrsta íslenska skuttogarann.

Stálvík SÍ-1

Stálvík SÍ-1. Mynd/Rammi Siglufirði

Það var 450 brúttólesta togarinn Stálvík SI-1, sem eigendur fengu afhenta árið 1973. Stálvík, sem var að öllu leyti hönnuð hér á landi, var alla sína tíð í eigu Þormóðs ramma og gerð út þaðan í rúm 30 ár. Skipinu var lagt árið 2004 og siglt ári síðar til niðurrifs í Danmörku.

Bannið knésetti Stálvík

Stálvík hf. smíðaði fjölda skipa fyrir íslenskan sjávarútveg, um fimmtíu minni báta og skip, þar af sex skuttogara. Reksturinn gekk vel lengi framan af, eða allt þar til fiskveiðistjórnunarkerfinu var komið á með lagasetningu 1983 og gildistöku 1984.

Einkum og sér í lagi var það þó samhliða ákvörðun sjávarútvegsráðherra á þeim tíma að setja bann við veitingu fiskveiðileyfa á skip sem þá þegar voru í smíðum, eins og m.a. er rakið í umfjöllun í tímariti Félags vélstjóra og málmtæknimanna frá júní 2018.

Ástæða bannsins var skýrsla Hafrannsóknastofnunar sem kom út 1983, þar sem spáð var hruni fiskistofna yrði ekki komið markvissri stjórn á veiðarnar. Þegar bannið var sett var Stálvík með einn togara í smíðum auk þess sem átta smíðasamningar um fleiri skuttogara voru í höfn.

Þeim samningum var öllum rift í kjölfar bannsins, enda sagði Jón Þórarinn Sveinsson, forstjóri og einn stofnenda Stálvíkur, augljóst að enginn útgerðarmaður keypti skip sem ekki mætti veiða fisk. Að endingu var Stálvík tekin til gjaldþrotaskipta árið 1990.

„Pabbi var vakinn og sofinn yfir Stálvík“
Sveinbjörg og Þórunn Jónsdætur

Systurnar Sveinbjörg og Þórunn Jónsdætur standa á um það bil þeim stað þar sem skipasmíðastöðin Stálvík stóð. Með mikilli landfyllingu í Arnarvogi skapaðist gott rými fyrir nýja byggð, þar á meðal fyrir hjúkrunarheimilið Ísafold sem Hrafnista rekur í dag. Mynd/EÖJ

Þórunn og Sveinbjörg Jónsdætur ólust nánast upp í skipasmíðastöð Stálvíkur hf., fyrirtækis foreldra sinna, sem staðsett var í Arnarvogi í Garðabæ, þar sem nú má segja að hafi staðið á planinu vestan Hrafnistu Ísafoldar við Strikið í Sjálandshverfinu. Til að mynda má segja að annar gafl vörulagers stöðvarinnar hafi verið þar sem framhlið Hrafnistu við Strikið í Garðabæ er núna.

Þær byrjuðu snemma störf í fjölskyldufyrirtækinu; Þórunn fædd 1965 og Sveinbjörg 1969.

„Ég var tólf ára þegar ég byrjaði að svara í síma þar og Sveinbjörg hóf nokkru síðar starf í mötuneytinu þar sem eldað var fyrir tugi starfsmanna fyrirtækisins,“ segir Þórunn.

Tæknisinnaður frá barnæsku
Jón Þórarinn Sveinsson fyrrverandi forstjóri Stálvíkur með fjölskyldu sinni.

Jón Þórarinn Sveinsson, tæknifræðingur og fyrrverandi forstjóri Stálvíkur, með fjölskyldu sinni, dætrunum Sveinbjörgu og Þórunni og eiginkonu sinni, Þuríði Hjörleifsdóttur. Mynd/úr einkasafni

„Pabbi var alltaf mjög tæknisinnaður, allt frá barnæsku, þar sem hann ólst upp með foreldrum sínum og bræðrum á bænum Uxahrygg á bökkum Þverár sunnan Hvolsvallar. Hann var til að mynda aðeins fimmtán ára þegar hann reisti vindmyllu til að framleiða rafmagn fyrir fjölskylduna. Síðan fór hann til náms í Kaupmannahöfn og vann meðal annars hjá Burmeister og Wain, þar sem smíðuð voru stálskip, og fannst furðulegt að Íslendingar væru ekki í því sama heima,“ segja systurnar.

Það varð úr að þegar Jón kom heim frá námi fór hann að svipast um eftir lóð og staldraði að lokum við í Arnarvogi, þar sem var bókstaflega ekkert nema fjaran. Ekkert rafmagn og á þeim tíma utan allra alfaraleiða. Þar ákvað hann að reisa skipasmíðastöð.

Uppáhaldsskip systranna

„Pabbi var vakinn og sofinn yfir fyrirtækinu allt frá fyrsta degi þar sem störfuðu um fjörutíu manns í byrjun en urðu yfir tvö hundruð þegar mest lét og var þá stærsti atvinnurekandinn í Garðahreppi. Til að mynda má nefna að í hvert sinn sem við vorum að koma frá Reykjavík að kvöldi til eftir eitthvert boð var komið við í slippnum til að athuga hvort ekki væri allt eins og það ætti að vera,“ segir Sveinbjörg.

Þórunn bætir við: „Ég gaf Stálvíkinni nafn, sjö ára gömul þann 30. júní 1973 og gekk lengi með armband með dagsetningunni sem ég á enn þann dag í dag.“

Sveinbjörg segir þau alltaf hafa verið með kvíðahnút í maganum yfir því hvort flaskan myndi brotna þegar henni var slegið utan í skipin því það tókst ekki alltaf. Sveinbjörg segir að eins og Stálvíkin hafi alltaf verið uppáhaldsskip Þórunnar hafi Ottó N. Þorláksson verið hennar uppáhald.

„Já, hann er það og okkur finnst mjög vænt um skipið, sem er enn að og fengsæll happafengur,“ segir Sveinbjörg.

Jón lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 18. maí 2018. Þann dag var hægt að kjósa til sveitarstjórnar á Hrafnistu og var síðasta dagsverk hans að greiða atkvæði í kosningunum.

Smíðuðu sjö togara

Á rekstrartíma fyrirtækisins, sem spannaði tæpa þrjá áratugi, voru í Stálvík smíðaðir sjö skuttogarar og fjöldi minni fiskiskipa og vertíðarbáta auk þjónustuskipa, svo sem fyrir Skeljung og fleiri.

Auk Stálvíkur SI smíðaði fyrirtækið Elínu Þorbjarnardóttur ÍS-700 fyrir Vestfirðinga, afhenta 1977, Arinbjörn RE-54 fyrir Sæfinn hf. í Reykjavík, afhentan 1978, Ottó N. Þorláksson RE- 203, sem bættist í fiskveiðiflotann 6. júní 1981, Runólf SH-135 fyrir Snæfellinga, afhentan 1982, Hólmadrang ST-70 fyrir Hólmvíkinga, afhentan 6. mars 1983, og loks Jöfur ÍS-172 sem Muggur hf. á Hvammstanga gerði út til að byrja með, afhentan 1988, en skipið var til að byrja með í eigu Stálvíkur hf.

Togarinn með búrhvelislagið

Einn merkustu skuttogara sem Stálvík hannaði og smíðaði er Ottó N. Þorláksson RE-203, sem bættist í fiskveiðiflota landsmanna 6. júní 1981.

Það var Bæjarútgerð Reykjavíkur sem lét smíða togarann, sem var allt í senn stærsti skuttogarinn sem hannaður hafði verið og smíðaður hérlendis og stærsti skuttogarinn af svokallaðri minni gerð (undir 500 brúttórúmlestum) sem smíðaður hafði verið fyrir íslenska útgerð. Ottó er í dag, 43 árum eftir að hann hóf veiðar, í eigu Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og gerður út þaðan.

Ottó N. Þorláksson

King Ottó
Sigurður Konráðsson

Sigurður Konráðsson skipstjóri í brúnni á Ottó. Mynd/Hólmgeir Austfjörð

Sigurður Konráðsson í Eyjum er skipstjóri Ottós. Hann var að veiðum á Eldeyjarbanka þegar slegið var á þráðinn til hans í apríl. Sigurður segir vel fara um áhöfnina á Ottó þótt hann sé vissulega barn sín tíma þegar komi að aðbúnaði.

„Við förum svo yfir á uppsjávarskipið Álsey VE þegar er síld, loðna eða makríll og þá er Ottó lagt á meðan. Álseyin er náttúrlega miklu nýrra skip og fullkomnara en Ottó í samræmi við nútímakröfur. Samt sem áður erum við alltaf spenntir þegar við förum aftur yfir á King Ottó eins og skipið er kallað hér um borð, stundum jafnvel Hótel King Ottó,“ segir Sigurður og hlær hátt.

„Það fer að minnsta kosti mjög vel um okkur hérna, frábær matur, áhöfnin samhent og í góðu formi og skipið enn á sínum dampi,“ segir skipstjórinn, sem getur þess enn fremur að áhöfnin láti ekki veltinginn á Ottó trufla sig.

„Hann veltur óneitanlega nokkuð. Ég held reyndar að ástæða þess sé stærri og hærri gálgi en sá sem var upphaflega og það gæti hafa breytt eiginleikum skipsins eitthvað.“

Áhöfnin hélt sig eftir áramót við blandaðar veiðar á Eldeyjar- og Selvogsbanka, þar sem uppistaða var ufsi og ýsa auk ýmiss annars, en fer á miðin undan Vestfjörðum og Austfjörðum að loknum sjómannadegi.

Búrgerð Ottós

Skipslag Ottós er frábrugðið því sem almennt gerðist á þessum tíma, það þótti nýtt og sagðist Jón forstjóri Stálvíkur kalla skipslagið „búrgerð“ vegna þess að við hönnunina hefði lögun búrhvelis verið höfð í huga við gerð teikninganna.

Í viðtali við Morgunblaðið 7. febrúar 1981 sagði Jón þrjú meginmarkmið hafa verið höfð í huga í hönnuninni. „Í fyrsta lagi að smíða vandað skip, sem hentaði vel til fiskveiða við íslenskar aðstæður. Í öðru lagi að skipslagið leiddi til olíusparnaðar, og í þriðja lagi öruggara skip,“ eins og segir í frásögn blaðsins.

Sem dæmi um aukið öryggi má nefna að togvírarnir eru ekki staðsettir á aðalþilfarinu heldur einni hæð ofar, þ.e. á síðuhúsum aftarlega á togþilfari en ekki á sjálfu togþilfarinu. Þetta þótti afar nýstárlegt.

Fyrsta fjölveiðiskipið Guðmundur Jónsson GK

Þann 22. júlí árið 1976 sigldi nýr skuttogari Rafns hf. í Sandgerði, Guðmundur Jónsson GK-475, til heimahafnar, þá nýkominn frá Akureyri, þar sem togarinn var smíðaður hjá Slippstöðinni fyrir Rafn hf. Ólafur H. Jónsson skipaverkfræðingur teiknaði skipið.

Í Sandgerði var um 80 tonnum af fiski landað úr togaranum, afla sem áhöfnin fiskaði á leiðinni suður frá Akureyri með veiðarfærum sem útgerðin lét aka norður.

Á sínum tíma var togarinn sagður einn fullkomnasti togari „okkar Íslendinga að öllum búnaði,“ eins og fram kom í blöðum. Hann var t.d. fyrsti skuttogarinn með útbúnað fyrir botnvörpu, flottroll og nót og var mögulega sá eini í heiminum sem gat stundað svo fjölbreyttar veiðar. Eitt sinn kom hann að landi með yfir 800 tonn af loðnu, sem þótti mikið á sínum tíma.

Guðmundur staldraði ekki lengi við í Sandgerði því hann var fljótlega seldur til Vestmannaeyja sem Breki VE-61. Hann var endurbyggður hjá Slippstöðinni á Akureyri 1978, seldur til Noregs 2007 og fór síðar til niðurrifs.

Guðmundur Jónsson GK

Stærsti skuttogari landsins
Sigurbjörg ÓF1

Sigurbjörgin á heimstími. Mynd/Svavar Magnússon

Nýr skuttogari, Sigurbjörg ÓF-1, bættist í flota landsmanna 19. maí 1979, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar, Ólafsfjarðar, þar sem formleg afhending fór fram hjá útgerð Magnúsar Gamalíelssonar.

Sigurbjörgin var smíðuð hjá Slippstöðinni á Akureyri samkvæmt nýrri hönnun og var fjórði skuttogarinn sem stöðin hafði smíðað, á eftir Guðmundi Jónssyni GK, Óskari Magnússyni AK og Björgúlfi EA. Stöðin hafði þá þegar smíðað hátt í sextíu minni báta.

Sigurbjörgin var í senn stærsta og tæknilega fullkomnasta fiskiskipið sem smíðað hafði verið hér á landi og auk þess stærsti skuttogari landsins undir 500 brúttólestum.

Sigurbjörg, gjarnan kölluð drottningin, var alla tíð farsæl í rekstri þau 38 ár sem hún var hér við land. Sólberg ÓF-1, smíðað í Tyrklandi, tók árið 2017 við merki Sigurbjargar, sem seld var úr landi og endurbyggð í Noregi þar sem henni var breytt í stærsta tengiltvinnfiskiskip heims.

Skagstrendingar með fyrsta frystitogarann

Skip Skagstrendings hf., Örvar HU-21 og Arnar HU-1, við bryggju á Skagaströnd einhvern tímann á árunum 1993 til 1995. Mynd/ Árni Geir Ingvarsson

Fyrsti íslenski skuttogarinn sem frysti aflann um borð var Örvar HU-21 frá Skagaströnd, sem smíðaður var hjá Slippstöðinni á Akureyri og tekinn í notkun 1982.

Örvari var á smíðatímanum breytt í frystitogara þar sem aflinn var unninn um borð. Örvar var um áramótin 2013/14 seldur til Rússlands og stundar þar veiðar í dag.

Sléttanes ÍS

Einnig mætti nefna Sléttanes ÍS-808, sem var í byrjun 447 brúttólesta skuttogari, einnig smíðaður á Akureyri 1983.

Kaupandinn var Fáfnir hf. á Þingeyri, útgerðarfélag Kaupfélags Dýrfirðinga. Skipið var lengt árið 1993 og breytt í frystiskip. Þorbjörn í Grindavík keypti Örvar síðla árs 1999, sem fékk þá nafnið Hrafn GK-111.

Skipið var að lokum selt til Rússlands árið 2015 og er þar við veiðar.

Starfsemin setti mikinn svip á bæinn

Árni Freyr Antonsson skipasmiður hefur starfað í fimmtíu ár hjá Slippnum á Akureyri og er sérhæfður í smíði eikarbáta, sem honum hefur löngum fundist áhugaverðust í greininni, umfram smíði stálskipa.

„Það er svo mikið sérhæft handverk sem fylgir eikarsmíðinni,“ segir Árni.

En tímarnir breyttust, skipin stækkuðu og eikarbátarnir líka, enda eru þeir ófáir vertíðarbátarnir sem smíðaðir voru úr eik og eru enn margir eftir og enn í notkun, aðallega í breyttu hlutverki, t.d. hvalaskoðun.

Árni Freyr Antonsson skipasmiður

Árni Freyr Antonsson skipasmiður hefur starfað í fimmtíu ár hjá Slippnum á Akureyri. Mynd/Hafsteinn Arnarson

Þegar stálskipin komu til sögunnar, skuttogararnir þar á meðal, breyttist starf Árna og hefur hann síðan starfað að almennu viðhaldi skipa.

„Allar innréttingar skipanna voru t.d. hannaðar og framleiddar hér á staðnum og mannskapur í því að koma þeim fyrir um borð. Þegar mest var störfuðu hér vel á fjórða hundrað manns í heild og fyrirtækið setti mikinn svip á bæjarlífið. Þegar skipin voru sjósett safnaðist saman mikill fjöldi fólks í bænum hér við höfnina til að fylgjast með sjósetningum,“ segir Árni, en síðasti nýsmíðaði togarinn frá Slippstöðinni á Akureyri var Bylgja VE-75, sem afhent var Matthíasi Óskarssyni í Vestmannaeyjum árið 1992. Bylgja er enn gerð út í Eyjum.

Nýsmíðarnar lognuðust smám saman út af

„Nýsmíðarnar lognuðust smám saman út af vegna þess að hægt var að fá ný skip á mun lægra verði erlendis, sem ekki var unnt að keppa við. Síðan þá hefur ákveðin sérþekking einnig tapast,“ segir Árni og getur þess að eftir að nýsmíðin hætti hafi nokkrir tilbúnir skrokkar verið keyptir af erlendum stöðvum sem hafi svo verið fullkláraðir hér á landi. „Skrokkarnir komu t.d. frá Danmörku og Póllandi. Þeir voru svo dregnir hingað til lands, þar sem þeir voru fullkláraðir með öllum innréttingum og tækjabúnaði,“ segir Árni Freyr.

Skrokkar keyptir erlendis

Dæmi um aðkeyptan skrokk er Þórunn hyrna EA-42. Skrokkurinn var smíðaður í Póllandi 1977, lengdur á Akranesi og svo fullkláraður á Akureyri. Togarinn var löngum kallaður Flakkarinn vegna tíðra eigendaskipta. Hann endaði að lokum í Marokkó árið 2016, þar sem hann sökk í kjölfar eldsvoða um borð.

Sturlaugur H. Böðvarsson AK-10

Sigurfari II SH-105, síðar Sturlaugur H. Böðvarsson AK-10. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Enn öflug starfsemi

Meginstarfsemi Slippsins á Akureyri er þrátt fyrir neikvæða þróun nýsmíða stórra skipa hér á landi enn umfangsmikil og sinnir fyrirtækið nú víðtækri þjónustu við innlenda og erlenda aðila á sviði almenns viðhalds og breytinga á skipum og síðast en ekki síst ísetningar á alhliða vinnslubúnaði um borð í fiskiskip.

Þess má að lokum geta að alls voru 35 togarar smíðaðir hjá Slippstöðinni á Akureyri á árabilinu 1966 til 1992 eins og fram kemur á skipasíðu Árna Björns Árnasonar á Akureyri, aba.is.

Akranes

Fleiri skipasmíðastöðvar voru við lýði á Íslandi en Stálvík og Slippurinn á Akureyri, það er í smíði stærri skipa. Þar má meðal annars nefna Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi, þar sem t.a.m. Sigurfari II SH-105, 450 tonna skuttogari, var smíðaður fyrir Grundfirðinga og tekinn í notkun 1981.

Skipið hét þó lengst af Sturlaugur H. Böðvarsson AK, frá 1986. Togarinn var seldur í brotajárn í Belgíu árið 2021 og hét þá Mars RE-3, í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur.

Sjósetning Heiðrúnar ÍS-4 á Ísafirði. Mynd/Ásgeir S. Sigurðsson

Ísafjörður

Hjá Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði var fjöldi fiskveiðibáta úr eik smíðaður, sem fóru smám saman stækkandi eftir því sem árin liðu.

Smíði fyrsta stálskipsins hófst 1967 og á næstu árum á átta til viðbótar. Þann 1. júlí 1977 var 394 br.tonna fjölveiðiskip sjósett hjá skipasmíðastöðinni, Heiðrún ÍS-4, sem tekin var í notkun í ársbyrjun 1978.

Heiðrún var útbúin til veiða með línu, neti og nót, ásamt togveiðum með botnvörpu og flotvörpu. Heiðrún er stærsta skipið sem smíðað hefur verið á Ísafirði, lengst af gerð út fyrir vestan, hét síðast Skúmur HF-177 og var að lokum seld til Rússlands árið 2006.

» bv

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.