Síðustu forvöð að sjá sýninguna í Hafnarfjarðarkirkju.

Egill Þórðarson loftskeytamaður og sr. Þorvaldur Karl Helgason í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju 19. apríl síðastliðinn þar sem þeir voru heiðraðir fyrir óeigingjarnt og þakklátt starf í þágu minningar um látna sjómenn. Mynd/EÖJ

Undanfarin fjögur ár hafa þremur sjóslysum verið gerð ítarleg skil með jafn mörgum sýningum í Ljósbroti í félagsheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Veg og vanda af samantekt gagna, samningu og uppsetningu sýninganna eiga þeir Egill Þórðarson loftskeytamaður og sr. Þorvaldur Karl Helgason.

Sjómannadagsráð, Hafnarfjarðarhöfn og gamlir síðutogaramenn sem kalla sig „Tekið í blökkina“ heiðruðu þá félaga sérstaklega í kirkjunni í apríl síðastliðnum fyrir óeigingjarna en þakkláta vinnu í þágu minningar um látna sjómenn.

Field Marshal Robertson og Leifur heppni

Á sýningu árið 2020 voru skipbroti togarans Field Marshal Robertson frá Hafnarfirði gerð skil, en hann fórst ásamt togaranum Leifi heppna frá Reykjavík í skyndilegu ofsaveðri sem gerði á Halamiðum norðvestur af Vestfjarðakjálka í febrúar árið 1925.

Alls drukknuðu sjötíu og tveir sjómenn með þessum togurum og eftir stóðu þrjátíu og tvær ungar konur, þá orðnar ekkjur, og níutíu og eitt föðurlaust barn. Sextán togarar voru þarna að veiðum þegar veðrið brast á og björguðust fjórtán undan veðrinu við illan leik.

Þrátt fyrir þrennar ítarlegar leitir, sem gerðar voru fyrir öllu Vesturlandi, hefur aldrei fundist neitt brak sem rekja mætti til skipanna. Ekki ein spýta. En togaraskipstjórar í dag vita um þrjú flök í vesturkanti Djúpáls. Tvö þeirra eru af togurum.

Þennan dag fórust að auki sjö manns við Íslandsstrendur með mótorbátnum Sólveigu undan Sandgerði og þrír urðu úti, einnig áhafnarmeðlimir á Sólveigu. Þrennar leitir voru gerðar út vegna þessa sem stóðu yfir í þrjár vikur. Talið er að Sólveig hafi farist undan Stafnesskerjum.

Sviði GK-7

Á sýningunum í félagsheimili Hafnarfjarðarkirkju hefur verið fjallað um stór mannskaðaslys sem orðið hafa á sjó, en hér má sjá umfjöllun í Morgunblaðinu um þá sem fórust með togaranum Sviða í desemberbyrjun 1941. Mynd/Timarit.is

Á sýningunni 2021 var sett upp sams konar sýning og þá um þann harmleik þegar togarinn Sviði GK fórst 2. desember árið 1941 úti af Snæfellsnesi með alls tuttugu og fimm manna áhöfn.

Alls misstu fjórtán konur eiginmenn sína og fjörutíu og sex börn urðu föðurlaus.

Sviði var á heimleið fulllestaður frá Vestfjarðamiðum í um suðaustan og svo sunnan sjö vindstigum.

Skipið var um tíma í samfloti við annan togara, Venus. Veður fór versnandi og Venus leitaði í var við Snæfellsnes norðanvert, en síðustu talstöðvarsamskipti milli skipanna voru þegar Sviði var á siglingu á leið fyrir Breiðafjörð. Þá var ekki að heyra að nokkuð bjátaði á. Svo skilaði togarinn sér ekki heim til Hafnarfjarðar.

Farið var til leitar nokkrum dögum síðar og fannst brak á hafsvæðinu og eitt sjórekið lík á Rauðasandi. Talið er að togarinn hafi farið niður á Flákahorni, sem er í um tíu sjómílna fjarlægð frá Öndverðarnesi á Snæfellsnesi. Meginbrakið fannst síðar á Rauðasandi og undan Skor.

Ellefu íslenskir togarar á miðunum

Nú er uppi sýning á sama stað í Hafnarfjarðarkirkju; sýning um Nýfundnalandsveðrið og dapurleg örlög síðutogarans Júlí GK og þrjátíu manna áhafnar hans.

Júlí fórst á Nýfundalandsmiðum 7. eða 8. febrúar árið 1959. Alls voru ellefu íslenskir síðutogarar á miðunum ásamt togurum frá öðrum löndum, sem sumir fórust, þó enginn hinna íslensku togaranna þótt naumu hefði munað.

Óveðrið skall á um kl. 18:00 þann 7. febrúar og versnaði veðrið eftir því sem leið á kvöldið og aðfaranótt þess áttunda. Íslensku togararnir komust af þótt ganga mætti kraftaverki næst um suma þeirra, enda unnu áhafnir þeirra sleitulaust í rúman sólarhring við að berja ís og klaka af skipunum. Loks þegar menn náðu vopnum sinum á mánudeginum kom í ljós að Júlí vantaði.

Benedikt Ögmundsson, skipstjóri á Júní GK, lét senda skeyti þessa efnis til Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar klukkan tíu um kvöldið og bað um að Júlí yrði leitað úr lofti, þar sem ekkert veður væri til leitar á sjó. Ekkert hefur spurst til nokkurs hlutar síðan þá sem rekja megi til Júlí eða áhafnar hans.

Sýningunni lýkur á sjómannadag

Á sýningunni í Hafnarfirði er einnig fjallað um Hans Hedtoft-slysið, Blue Wave, sem einnig fórst í Nýfundnalandsveðrinu, og Hermóð.

Öll þessi skip fórust á tuttugu daga tímabili og reyndar fórust tvö skip til viðbótar. Egill segir Þorvald Karl hafa lagt geysilega mikla vinnu í upplýsingaöflun um ættingja áhafnanna sem fórust, enda eru um 1.100 nöfn á spjöldunum í safnaðarheimilinu. Sýningin að þessu sinni stendur til og með sjómannadeginum 2. júní 2024.

Mikið þrekvirki flugmanna

Karel Karelsson, frá Sjómannadagsráði í Hafnarfirði (lengst til hægri), hélt stutta tölu þegar Egill og Þorvaldur Karl voru heiðraðir fyrir sýningarnar í Ljósbroti, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju. Mynd/EÖJ

Egill segir Kanadamenn og Bandaríkjamenn hafa flogið í um vikutíma frá 30. janúar til hafsvæðisins undan Grænlandi, um 600 sjómílur hvora leið, sem varði í alls um 340 flugtíma, í leit sinni að Grænlandsfarinu Hans Hedtoft.

„Þegar þeirri leit var lokið var gert hlé í einn sólarhring en þá tók við leitin að Blue Wave, sem stóð yfir dagana 9. til 11. febrúar, þegar byrjað var að leita að togaranum Júlí, sem stóð sleitulaust til og með 15. febrúar. Þann sextánda var skipulögð áframhaldandi leit, en þá skall aftur á aftakaveður,“ segir Egill.

Hann segir tuttugu og tvö leitarflug hafa verið farin í leit að Júlí, í alls um 164 flugtíma, og leitað hafi verið á 53 þúsund fersjómílna svæði sem er álíka stórt og Ísland.

„Þessi flug voru flogin frá fimm flugvöllum; Greenwood á Nova Scotia, Goose Bay á Labrador og Argentia, Gander og Torbay á Nýfundnalandi,“ segir Egill.

„Fyrir mig, sem starfað hef í flugdeild Landhelgisgæslunnar og þekki til svona vinnu, var hér um að ræða algert þrekvirki af hálfu kanadísku og bandarísku björgunaraðilanna, hvort sem litið er til sjálfra leitarfluganna, skipulagningar þeirra eða utanumhalds.“

Hann segir aðgerðunum hafa verið stjórnað af 107. leitarsveit kanadíska flughersins í Torbay á Nýfundnalandi. „Ég tel að þetta hafi verið algert þrekvirki og ekkert minna. Og það ber að hafa í huga að allan leitartímann var slæmt veður, snjókoma og éljagangur,“ segir Egill Þórðarson loftskeytamaður.

» bv

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.