Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagur í júní ár hvert, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir. Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. júní 1938 í Reykjavík og á Ísafirði og er hátíðisdagur allra sjómanna. Árið 1987 var dagurinn síðan lögskipaður frídagur sjómanna. Sjómannadaginn ber að þessu sinni upp á sunnudaginn 2. júní.

Eins og myndirnar hér til hliðar bera með sér er gleðin við völd þegar sjómannadeginum er fagnað í Reykjavík, en þær tók Viktor Már Sigurðsson ljósmyndari á hátíðarsvæðinu við Grandagarð á síðasta ári. Þá er líka ein mynd úr Hörpu þar sem Sjómannadagsráð heiðraði þá Markús Alexandersson, Kristján Lúðvík Ásgrímsson, Ívar Bjarnason, Guðmund Bjarnason, Björgvin Jónasson og Andrés Hafberg fyrir farsæl  félags- og sjómannastörf og björgun mannslífa. Myndina í Hörpu tók Hulda Margrét Óladóttir ljósmyndari.

» óká

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.