Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni, segir að það yrði áskorun að fást við alvarlegt sjóslys tengt einhverju af stóru farþegaskipunum sem hingað koma með  ferðamenn. Fyrirbyggjandi aðgerðir skipti því miklu máli.

Komum farþegaskipa hefur fjölgað gríðarlega. Í fyrra voru þetta rétt rúmlega eitt þúsund skipakomur en fyrir tuttugu árum voru þetta einhverjir tugir skipa á ári,“ segir Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri  aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Með fjölgun farþegaskipa í íslenskri lögsögu aukast líkurnar á að eitthvað fari úrskeiðis eða að kalla þurfi á aðstoð Landhelgisgæslunnar og annarra viðbragðsaðila. Öðru hverju þarf Landhelgisgæslan að sækja  veikt fólk um borð í farþegaskip en sem betur fer hafa ekki orðið meiriháttar áföll í þeim. Ef til þess kemur eru Auðunn og félagar hans tilbúnir að takast á við vandann.

„Við erum búin að leggja mikla vinnu í það síðustu árin að undirbúa okkur, bæði að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að þetta gerist og undirbúa okkur ef þetta skyldi gerast,“ segir Auðunn og bendir á að til séu nokkrar viðbragðsáætlanir vegna stærri farþegaskipa, verklagsreglur og verkferlar.

Auðunn F. Kristinsson

Við bráðan háska, svo sem ef skemmtiferðaskip væri að sökkva, segir Auðunn F. Kristinsson að reyna myndi á björgunarbáta og annan björgunarbúnað um borð í skipinu sjálfu, en verkefni Landhelgisgæslunnar yrði að bjarga fólki um borð í varðskip eða önnur nærstödd skip. Mynd/EÖJ

„Svo erum við líka með samninga og verklagsreglur varðandi utanaðkomandi aðstoð og hvernig við vinnum með nágrannaríkjum okkar ef við fáum aðstoð frá þeim. Það er í raun og veru þannig að ef eitthvert þessara stóru skipa verður fyrir áföllum hjá okkur köllum við á aðstoð annars staðar frá.“

Varðandi aðstoð segir Auðunn Ísland eiga í mjög góðu samstarfi við nágrannaríkin. „En það tekur alltaf tíma fyrir þau að koma með mannskap og búnað til okkar þannig að við þurfum jafnvel að geta haldið út í  tvo til fjóra daga áður en við fáum utanaðkomandi aðstoð,“ segir hann.

Áður en utanaðkomandi hjálp berst þurfa menn því að reiða sig á eigin tækjakost, svo sem varðskip, þyrlu, skip Slysavarnafélagsins Landsbjargar og nærstödd skip.

„Samkvæmt áætlun okkar er síðasti kosturinn að rýma svona skip, sé hjá því komist. Við reynum frekar að vinna með atvikið þannig að við getum haldið sem flestum um borð, að því gefnu að það sé öruggt, af  því að það er tímafrekt að rýma svona skip og við höfum í raun og veru ekki getu hér á Íslandi til að rýma svona skip með þyrlu. Það er bara ekki hægt.“

Sökkvandi skip klárlega áskorun

Við bráðan háska, til dæmis ef skipið væri beinlínis að sökkva, er ljóst að ekki er hægt að bíða í tvo til fjóra daga eftir aðstoð að utan. Þá reynir á björgunarbáta og annan björgunarbúnað um borð í skipinu og verkefni Landhelgisgæslunnar yrði að bjarga fólki um borð í varðskip eða önnur nærstödd skip.

„Það er verkefni sem er þaulæft hjá okkur. Skalinn á þessu er þannig að þetta verður erfitt verkefni og langvinnt og klárlega áskorun. Það eru svo margir sem koma að því. Það  er ekki bara okkar að bjarga fólkinu heldur þarf líka að koma fólkinu í land og þetta mun reyna á björgunarsveitir og almannavarnakerfið í landi að koma þessu fólki fyrir í landi og sinna því ef meiðsli eru eða eitthvað slíkt. Það þarf að koma fólki á spítala og til síns heima. Ég held að við séum eins vel búin og við getum verið undir þetta, en þetta verður áskorun ef þetta gerist.“

Að sögn Auðuns er Landhelgisgæslan ágætlega búin tækjum með tvö öflug varðskip og þrjár öflugar þyrlur. Það sem vanti sé þó rekstrarfé til að geta gert bæði skipin út á sama tíma, þar sem það gæti stytt viðbragðstímann ef eitthvað kæmi upp á.

„Segjum sem svo að við séum með skipið okkar statt fyrir austan og það verður slys á Vestfjörðum, þá getur það tekið sólarhring fyrir okkur að komast á staðinn. Það er veiki hlekkurinn að við skulum ekki geta verið með bæði skipin okkar á sjó á sama tíma allt árið og sérstaklega yfir sumarmánuðina meðan þessi gríðarlega mikla umferð skemmtiferðaskipa er í lögsögunni, af því  að viðbragðstíminn okkar getur orðið langur.“

Betri sjókort skipta sköpum

Auðunn leggur mikið upp úr fyrirbyggjandi aðgerðum til að auka öryggi og draga úr hættu á að alvarleg atvik eigi sér stað tengd farþegaskipum sem hingað koma. Samstarf við útgerðir farþegaskipa skiptir þar miklu máli, sem og æfingar með þeim og innlendum jafnt og erlendum viðbragðsaðilum.

Annað af varðskipum Landhelgisgæslunnar er nú með heimahöfn á Siglufirði en hitt í Reykjavík og getur það stytt viðbragðstíma. Þá hafa framfarir í sjómælingum og sjókortagerð skipt sköpum.

„Við hjá Landhelgisgæslunni erum í sjómælingum og sjókortagerð líka og við erum með fókusinn á að gefa út ný og betri kort fyrir sum þessara svæða sem eru illa mæld en við vitum að skip hafa áhuga á að fara inn á. Til að koma í veg fyrir að eitthvað gerist erum við að endurnýja sjókort af þessum svæðum, sem er mjög mikilvægt, og það er líka búið að herða aðeins regluverkið.“

Núna segir Auðunn skip til dæmis þurfa að senda Landhelgisgæslunni siglingaáætlun sína þannig að Landhelgisgæslan viti hvert þau séu að fara og geti þá brugðist við og beint þeim frá ákveðnum svæðum og  upplýst um hættur.

„Það er fullt af litlum atriðum sem er verið að gera til að þétta þetta og tryggja eins vel og hægt er að ekkert gerist. Og að við séum þá í stakk búnir til að takast á við það ef eitthvað gerist,“ segir Auðunn F. Kristinsson.

» eöj

Symphony of the Seas

Skemmtiferðaskip eru eins og fljótandi bæjarfélög

Lendi stórt skemmtiferðaskip í vandræðum er það á pari við að brýn náttúruvá steðji að stæðilegu bæjarfélagi, svo stór og mannmörg geta þessi skip verið.

Hér til hliðar má sjá mynd af skemmtiferðaskipinu  Symphony of the Seas, sem er í flokki stærstu skipa og býður margvíslega afþreyingu og þjónustu um borð, þar á meðal skautasvell, vatnsrennibrautir, leikhús og skemmtigarð í miðju skipinu.

Skipið, sem  heimsótt hefur Ísland, er rúmur 361 metri á lengd og vegur yfir 228 þúsund brúttótonn. Hámarksfjöldi farþega um borð er 6.680, þótt alla jafna séu þeir heldur færri, og í áhöfn eru svo 2.200 manns.

Algengt er að stærri farþegaskip geti borið 3–5 þúsund farþega og er áhöfnin þá um eitt til tvö þúsund manns.

Faxaflóahafnir greindu frá því í apríl síðastliðnum að í ár væri gert ráð fyrir 308.584 farþegum hingað til lands með skemmtiferðaskipum sem séu örlítið fleiri en árið áður þegar 306.211 farþegar komu til Reykjavíkur og Akraness með skemmtiferðaskipum.

» óká

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.