Litið um öxl — Sjómannadagsblaðið fyrir 50 árum:

Þeir sem áhuga hafa á að glugga í fyrri tölublöð Sjómannadagsblaðsins geta nálgast þau öll á netinu, bæði á vef Sjómannadagsráðs, www.sjomannadagurinn.is, þar sem er að finna blöð allt frá árinu 2005, og svo á vefnum Timarit.is þar sem er að finna blöð allt frá 1938.

Litið um öxl er fastur liður í Sjómannadagsblaðinu þar sem gluggað er í efni blaðsins fyrir 50 árum, árið 1974. Forsíða blaðsins er myndskreyting þar sem minnst er landnáms Íslands og siglinga norrænna manna hingað og miðað við árið 874.

Árni Óla

Árni Óla, blaðamaður og rithöfundur.

„Norrænt landnám á Íslandi hefst með Ingólfi Arnarsyni og telst frá því, er hann reisti byggð í Reykjavík sumarið 874,“ segir í upphafsgrein blaðsins sem Árni Óla, sem nefndur hefur verið fyrsti blaðamaður landsins, skrifar.

Í blaðinu er einnig að finna margvísleg önnur skrif um tengslin við söguna, þörfina á sjóminjasafni og svo um öryggismál sjómanna og umfjöllun um sjóslys og drukknanir frá síðustu útgáfu blaðsins. Átján sjómenn létust af slysförum milli tölublaða Sjómannadagsblaðsins 1973 og 1974.

Fyrsta hafstraumarannsóknin

Árni Óla hefur yfirskriftina „Forsjónin valdi Reykjavík“ á grein sinni og fjallar um landnámið. Hann segir fáorða sögu Ingólfs Arnarsonar sýna vel að hann hafi ekki hrapað að því að nema land á þessu afskekkta eylandi lengst vestur í Atlantshafi. Fyrir eiginlegt landnám hafi Ingólfur komið hingað til að kynnast landinu og dvalið eitt ár í Álftafirði hinum syðra á Austfjörðum.

„Segir sagan, að honum hafi litist landið betra suður en norður. Þessi stutta setning sýnir að hann muni hafa látið kanna allvíða og má vel vera að þeir hafi þá komist alla leið suður í Hornafjörð,“ segir í inngangi greinar Árna Óla áður en hann rekur söguna um hvernig Ingólfur lét öndvegissúlurnar ráða því hvar byggja skyldi á Íslandi.

Blaðið telur upp allar þær slysfarir sem orðið hafa sjómönnum að aldurtila milli útgáfa blaðsins og í stuttu máli er farið yfir málsatvik og sjómennirnir sem fórust nefndir fullu nafni, auk heimilisfangs og fjölskylduhaga.

Árni segir söguna um öndvegissúlurnar vel trúanlega, enda hafi nokkrum árum á eftir Ingólfi Þórður skeggi varpað öndvegissúlum sínum í hafið á svipuðum slóðum og Ingólfur. Sá hafi svo tekið land á Lóni og búið þar í 15 ár á meðan hann beið frétta af súlunum.

„Þær hafði ekki borið á land í námunda við hann, heldur höfðu þær borist vestur með öllu landi, fyrir Reykjanes, inn Faxaflóa og seinast komið á land í Leirvogi í Mosfellssveit. Þessu höfðu guðirnir ráðið, og Þórður fór að vilja þeirra.“

Landnámsmennirnir eru merkilegir fyrir trú sína og að hafa treyst guðunum í blindni, segir Árni. „En sögurnar af öndvegissúlunum eru merkar að öðru leyti, því að þær eru elsta vitneskja um hafstrauma við Ísland,“ bætir hann við.

Í greininni rekur hann svo siglingar frá Íslandi á landnámsöld og endar á því að nefna að Reykjavík hafi þó ekki komið mikið við sögu í Íslendingasögunum, enda hafi hún um níu aldir verið bóndabýli.

„Þó gleymdist það aldrei, að hún var hinn goðumvígði landnámsstaður. Á 18. öld fer hún fyrst að rumska, og nú, á 1100 ára afmæli íslenzku þjóðarinnar, er hún orðin glæsileg höfuðborg landsins.“

Segir Árni þar sannast hið forna spakmæli: „Kvörn guðanna malar hægt, en hún malar örugglega.“

Fjallað um varðveislu menningarminja

Annars staðar í blaðinu skrifar annar ritstjóra þess, Guðmundur H. Oddsson, um hvernig Sjómannadagsráð hafi árið 1939, ári eftir fyrsta sjómannadaginn, staðið fyrir Sjóminjasýningu í Grænmetisskálanum sem þá var í byggingu.

Á þeim tíma segir hann að hafi þegar verið mikill áhugi á að koma á fót Sjóminjasafni og svo fer hann yfir vinnu sem stóð yfir 1973 og 1974 til að slíkt safn gæti orðið að veruleika. Bæði hafi staðið yfir söfnun á munum og svo verið horft til skipa sem þyrfti að varðveita.

„Undanfarin ár hafa mörg orð fallið um þá miklu nauðsyn að byggja yfir Sjóminjasafnið, og á minnsta kosti þremur stöðum hefur það verið sett á teikningu hér í borg á ýmsum stöðum, en útlínurnar af því hafa ekki birst, hvað þá meira. Nú hefur verið ákveðið að teiknarar fái að, setja það niður á pappír í Hafnarfirði, og vonandi koma þar útlínurnar á eftir og fjárveiting til að þar rísi á næstu árum veglegt Sjóminjasafn,“ skrifaði Guðmundur 1974.

Auglýsingar í blaðinu 1974 eru í anda þess tíma, en hluti smáauglýsinga vekur þó athygli fyrir að vera markvisst beint til sjómanna. Þar áréttar til dæmis Þjóðviljinn að hann „berjist ötulli baráttu fyrir réttindum sjómannastéttarinnar“ og Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins sendir sjómönnum árnaðaróskir um leið og athygli er vakin á opnunar- og afgreiðslutíma. Þá vekur Kaupfélag Ísfirðinga athygli á sjóklæðum og vinnufatnaði og sölu á vistum til báta og skipa, og Brunabótafélag Íslands bendir útgerðarmönnum og sjómönnum á tryggingar sínar.

Þór Magnússon þjóðminjavörður skrifar svo aðra grein í blaðið þar sem hann minnist skrifa Friðriks Halldórssonar í Sjómannadagsblaðið 1944 sem borið hafi sömu yfirskrift og grein Þórs: Sjóminjasafn.

„Var það hvatning um stofnun sjóminjasafns, en þá virtist svo sem það mál væri komið á laggirnar, stofnuð hafði verið nefnd til að vinna að því, en mikill hvati að sjóminjasafninu var sjóminjasýningin í Reykjavík 1939. Þangað var safnað margvíslegum munum, sem ætlunin var að yrði stofn að sjóminjasafni,“ segir í grein hans.

Í greininni fer hann yfir hvaða áherslur þyrfti að viðhafa í slíku safni og hvers konar muni þyrfti að varðveita.

„Á þessu ári [1974] minnast menn fyrstu siglinga út til Íslands, fyrir 1100 árum. Væri vissulega vel til fallið, að sjóminjasafnið yrði að veruleika á því ári. En það verður ekki nema menn sameinist um að hefja skipulega söfnun og varðveizlu alls þess, sem á nokkurn hátt getur komið safninu til góða og til þess heiti ég á liðsinni allra þeirra, sem láta sig málið einhverju varða,“ segir í lokaorðum greinar Þjóðminjavarðar.

» óká

Auðævi hafanna

 

Í blaðinu er að finna litla skopmynd sem hér má sjá ásamt yfirskriftinni „Auðævi hafanna“, en henni fylgir texti um ónýttar auðlindir í hafi sem kann, nú hálfri öld síðast, að virðast hafa verið ritaður af fullmikilli bjartsýni um framtíðarþróunina, eða hvernig hún ætti eftir að æxlast. Textinn fylgir hér á eftir:

„HAFFRÆÐINGAR hafa kannað ýmsa þá möguleika, sem í heimshöfunum leynast. Og það eru undrasýnir, sem þeir hafa eygt. Með atomorku má breyta sjó í ferskt vatn og með því mætti leysa vatnsskort heimsins um ófyrirsjáanlega framtíð. Höfin eru svo rík af alls kyns efnum, að möguleikarnir virðast nær ótæmandi. Stór svæði hafsbotnsins eru svo frjósöm að þar mætti rækta meira grænfóður en hægt er að gera á þurrlendi jarðar. Með skipulagningu mætti margfalda fiskveiðar, og nú eru aðeins nýttir í örlitlum mæli þeir möguleikar sem hafið getur veitt. Í dag starfa um 100 verksmiðjur í Bandaríkjunum að því að breyta sjó í ferskt vatn og daglega eru unnin 200 tonn af magnesium úr 200 milljónum lítra sjávar. En þetta er aðeins örlítið brot af því, sem vinna mætti úr heimshöfunum.“

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.