87 nýjar leiguíbúðir Sjómannadagsráðs verða senn tilbúnar. Á næstu vikum og mánuðum flytja leigjendur í nýtt hús Naustavarar við Skógarveg í Fossvogi. 

Íbúðirnar eru staðsettar í tveimur nýjum, samtengdum fjölbýlishúsum og bætast þær nú við þær sextíu leiguíbúðir sem teknar voru í notkun á Sléttuvegi 27 árið 2020. Öll húsin tengjast Sléttunni þjónustumiðstöð  og hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg, ofan Skógarvegar.

Byggt hratt og vel

Alls er nú unnið að lokafrágangi 87 nýrra íbúða í lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs í Fossvogi og segir Þröstur V. Söring, framkvæmdastjóri Naustavarar og eignasviðs Sjómannadagsráðs, að fyrstu íbúar flytji  inn í júlí. Athyglisvert er að í yfirstandandandi byggingaráfanga lítur út fyrir að framkvæmdirnar frá fyrstu skóflustungu til innflutnings í allar íbúðirnar 87 taki aðeins tæp tvö ár.

„Við höfum mikla reynslu af þeirri aðferðarfræði sem Sjómannadagsráð hefur tileinkað sér í samningagerð, hönnum og framkvæmdum og ég sé að hún er að skila miklum samfélagslegum og fjárhagslegum ábata. Það er ljóst að þörfin er mikil og við hyggjumst halda áfram á sömu braut með byggingu fleiri leiguíbúða fyrir sextíu ára og eldri. Þegar þessar íbúðir verða komnar í notkun eru íbúðir Naustavarar á höfuðborgarsvæðinu orðnar 350 talsins,“ segir Þröstur.

Umframeftirspurn
Þröstur S. Söring, framkvæmdastjóri Naustavarar og eignasviðs Sjómannadagsráðs.

Þröstur S. Söring, framkvæmdastjóri Naustavarar og eignasviðs Sjómannadagsráðs, við Skógarveg. Mynd/EÖJ

„Nær öllum íbúðunum hefur verið úthlutað og við hyggjumst bjóða væntanlegum íbúum í sýningarheimsókn um miðjan júní,“ segir Þröstur, sem getur þess að allar búðirnar tengist þjónustumiðstöð  Sjómannadagsráðs, Sléttunni við Sléttuveg, og séu hluti af lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs, sem samanstendur af hjúkrunarheimili Hrafnistu og þjónustumiðstöðinni.

„Á Sléttunni er rekin afar fjölbreytt þjónusta fyrir fólk með ólíkar þarfir og við finnum að fólk er spennt fyrir því, ekki síst vegna þess að það er innangengt frá íbúðunum yfir í Sléttuna.“

Mikil gæði

Gæði og búnaður íbúðanna verða sambærileg og í núverandi íbúðum við Sléttuveg. Auk þess annast dótturfélagið Hrafnista rekstur hjúkrunarheimilis með 99 íbúðum auk þjónustumiðstöðvar Sjómannadagsráðs, sem er samstarfsverkefni með öðrum félagsmiðstöðvum eldri borgara í Reykjavík. Í þjónustumiðstöðinni á Sléttunni er rekin fjölbreytt starfsemi, m.a. veitingasala, verslun, heilsuefling,  dagdvöl, hárgreiðslu- og fótaaðgerðastofur auk mjög fjölbreytts félagsstarfs.

Lífsgæðakjarnar Sjómannadagsráðs

Nafnið lífsgæðakjarni kom fyrst fram hjá starfsfólki Sjómannadagsráðs og Naustavarar árið 2020 en hugmyndafræðin sem slík hefur verið í þróun í áratugi hjá Sjómannadagsráði. Í grunninn gengur hún út á að  reka í sameiginlegri þyrpingu hjúkrunarheimili, leiguíbúðir og þjónustumiðstöð þar sem unnt er að hámarka lífsgæði eldra fólks í samræmi við getu og hæfni hvers og eins með eins fjölbreyttu þjónustuframboði og kostur er fyrir markhópinn.

Fjölbreytt gerð íbúða

Nýju íbúðirnar við Skógarveg eru ýmist tveggja eða þriggja herbergja, allt frá 54 til 90 fermetrar að stærð en auk þess eru þrjár um 120 fermetrar að stærð. Í íbúðunum er allt aðgengi hannað með hagsmuni  notenda í huga og eru dyr og gangar til að mynda breiðari en gengur og gerist, auk þess sem baðherbergi og eldhús eru sérhönnuð til að auðvelda aðgengi hjólastóla og annarra stuðningstækja. Undir báðum  húsum er ein stór bílageymsla þar sem stæði eru leigð sérstaklega.

Einnig eru útistæði við húsin þar sem einnig er hægt að leigja fast stæði eins og við á um íbúðirnar við Sléttuveg.

Einnig hugað að framkvæmdum við Hraunvang

Þess má að lokum geta að Sjómannadagsráð hefur hafið undirbúning að frekari stækkun Hrafnistu við Hraunvang í Hafnarfirði  sem felur í sér fjölgun hjúkrunarrýma um 110 í næstu framtíð, en á heimilinu búa nú um tvö hundruð manns. Ósk þess efnis hefur verið send til skipulagsyfirvalda í Hafnarfirði, sem tekið hafa jákvætt í erindið.

Hrafnista í Hafnarfirði tók til starfa árið 1977 og hefur Sjómannadagsráð síðan þá byggt upp starfsemina þar jafnt og þétt í góðu og farsælu samstarfi við bæjaryfirvöld. Meðal annars er þar rekinn öflugur  lífsgæðakjarni með blandaðri þjónustu í samræmi við aðstæður hvers og eins. Þar er ekki síst um að ræða afar öflugt félagsstarf á Hrafnistu.

Þeir sem njóta þjónustunnar þar eru auk íbúa heimilisins m.a. íbúar leiguíbúða Naustavarar, leiguíbúðafélags Sjómannadagsráðs, sem byggt hefur alls 64 íbúðir á lóðinni á umliðnum árum og áratugum í fjölbýli  við hlið Hrafnistu.

Auk stækkunar hjúkrunarheimilisins er einnig fyrirhuguð fjölgun leiguíbúða fyrir sextíu ára og eldri á lóðinni sem býður upp á ýmsa kosti við frekari framkvæmdir.

» bv

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.