Jóhannes Ellert Eiríksson skipstjóri er rafvirkjasonur úr Kjósinni sem varð einn aflasælasti togaraskipstjóri landsins. Hann lauk ríflega hálfrar aldar sjómannsferli sínum á síðasta ári og valdi þá tímasetningu sjálfur.

Jóhannes Ellert Eiríksson

Sumir tala enn um Ella á Ottó þegar Jóhannes Ellert Eiríksson skipstjóra ber á góma, en hann var skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni RE í rúma tvo áratugi. Ferlinum lauk hann hins vegar sem skipstjóri á Viðey RE. Mynd/EÖJ

Jóhannes Ellert Eiríksson skipstjóri lauk 52 ára sjómannsferli sínum í ársbyrjun 2023 sem skipstjóri á togaranum Viðey RE-50, en hann tók við honum nýjum árið 2017.

Skipið sótti hann til Istanbul í Tyrklandi, þar sem skuttogarinn var smíðaður, afar tæknivætt og framúrstefnulega hannað skip. Enn er verið að smíða skip samkvæmt sömu útfærslu.

Elli er uppalinn að Meðalfelli í Kjós, en Meðalfell er einkar fagurt fjall að sjá. Það stendur eitt stakt í miðri Kjós og stefnið er sem á skipi sem stefnir í vestur. Góð gönguleið er upp „stefnið,“ en eflaust eru þær fleiri, til dæmis upp suðausturhlíðina, „skutinn“.

Meðalfell er bratt á flestar hliðar, hamrarnir sem krýna það eru víða sundurskornir með giljum og gljúfrum, en fyrir neðan skriður. Útsýnið er mjög gott yfir Kjósina, sem er einstaklega falleg hvert sem litið er. Þarna má glöggva sig á vænlegum gönguleiðum upp á hina fjölmörgu fjallsrana og múla er ganga norður úr Esju.

„Ég er fæddur árið 1953 en var 17 ára gamall þegar ég fékk áhuga á sjómennsku, og þó að ég væri fæddur í sveit þá tók áhuginn á sjómennsku mig strax alveg, það varð ekki aftur snúið. Fyrsta sjóferðin var í maímánuði 1971 og það var á togaranum Þormóði goða RE sem Bæjarútgerð Reykjavíkur gerði út. Aflinn var 270 tonn af þorski, sem var auðvitað alveg gríðarlega góður afli, og það á síðutogara, mokveiði allan túrinn. Dekkið var iðulega alveg fullt af þorski, gafst varla að klára aflann niður í lest, en hann skemmdist ekki,“ segir Jóhannes Ellert.

Voru stundum brögð að því á þessum árum að ekki tókst að gera að öllum aflanum svo að eitthvað af honum skemmdist?

„Já, á þessum árum við Grænland var bara fiskað og fiskað og dekkið fullt af fiski þannig að þegar skipið valt til rann einhver afli út af dekkinu yfir lunninguna. Það var algengt þegar treg veiði var á Íslandsmiðum, og ekki byrjað að fara á grálúðuveiðar við Grænland enda skipin ekki útbúin til slíkra veiða í þann tíma, þá var haldið á þorskmiðin við Grænland við ísröndina. Hitaskilin á því svæði virtust henta fiskinum. Ég held að sjávarhitinn þarna hafi verið undir núllinu. Enda var skítakuldi á dekkinu þegar blés eitthvað að ráði.“

Elli segist hafa verið háseti í allnokkur ár og ekki farið í Stýrimannaskólann fyrr en um árið 1980.

„Eftir það fór ég í afleysingar sem stýrimaður á Jóni Baldvinssyni ER. Við fórum þá meðal annars yfir miðlínuna milli Íslands og Grænlands á karfaveiðar, en með fullu leyfi. Það var fylgst vel með okkur.“

Aflasæll skipstjóri
Viðey RE

Viðey RE við bryggju í Reykjavík. Mynd/EÖJ

„Aflinn var alltaf góður á þeim skipum sem ég var á, stundum mjög góður, en ég kann engar skýringar á aflasæld minni í gegnum tíðina. Raunar hef ég engar hugmyndir um það og hef ég aldrei haft einhver markmið þar að lútandi.“

Elli var ekki búinn að vera lengi til sjós þegar hann fór sem stýrimaður yfir á togarann Jón Baldvinsson RE, sem BÚR gerði einnig út. Elli varð síðar stýrimaður á Otto N. Þorlákssyni RE, og seinna skipstjóri í 22 ár.

„Skipið var síðan selt til Chile og er enn gert út þar, en á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar eftir að það kom þangað.“

Árið 1995 tók Elli við skipstjórn á togaranum Ottó N. Þorlákssyni RE, sem BÚR, og síðar Grandi og HB Grandi, gerði út en Ottó N. Þorláksson RE var Elli með allar götur fram til 2017 er Viðey RE kom ný í flotann.

Ottó N. Þorláksson RE telst varla gott sjóskip að mati Ella.

„Hann er þungur en manni leið þokkalega um borð. Hann fékk einu sinni á sig brotsjó þegar hann var á þekktum stað við Reykjanesið og það brotnuðu gluggar í brúnni, en ég var þá reyndar ekki um borð. Hins vegar voru það gífurleg viðbrigði að fara yfir á Viðey RE. Það skip haggast varla í verstu vetrarveðrum og eftir á að hyggja er það ef til vill mín allra mesta gæfa á sjómennskuferlinum að fá að hætta á jafn flottu skipi og Viðey RE er.“

Mikil sjóhæfni Viðeyjar RE hafi komið vel í ljós í slæmum veðrum.

Gæði afla aukast með kvótanum

„Kvótakerfið kom 1980 og eftir það var þetta eiginlega alltaf á uppleið, kerfið alltaf verið að batna og fiskiskipaflotinn lagað sig að þeim breytingum sem ákveðnar hafa verið. Sumir eru alltaf að kvarta en á sama tíma fækkar skipunum og þau verða stöðugt afkastameiri. Með bættri meðferð afla og auknum gæðakröfum mun kvótinn bara aukast. Samfara því munu laun sjómanna batna,“ segir Elli.

Misjafn mannskapur í áhöfn

Mannskapurinn sem þú varst með um borð allan þinn sjómannsferil hefur væntanlega verið alls konar?

„Já, vissulega. Á síðutogurum voru oft ýmsar gerðir af ógæfumönnum en einnig góðir karlar. En eftir að síðutogararnir hurfu smám saman, ýmist seldir úr landi til annarra útgerða eða einfaldlega í brotajárn, hurfu þessir ógæfumenn líka. Það á sér ýmsar skýringar. Skipin stækkuðu en þeim fór einnig fækkandi. Þau fengu öll kvóta og það varð aftur vinsælla að fara til sjós á nýjum skuttogurum. Þá urðu þessir menn sjálfkrafa út undan, enda urðu kröfurnar meiri til þeirra sem voru ráðnir um borð í skuttogarana. Þessir ógæfumenn voru oft ágætis karlar en þeirra ógæfa var oftast tengd áfengi, venjulega allt of mikilli áfengisdrykkju,“ segir Elli.

„Stundum komu einnig vandræðaunglingar um borð í síðutogarana, unglingar sem þurfti að ala svolítið upp. Það var oft þrautalendingin að senda þá á sjóinn, gera eitthvað úr þeim, gera þá að mönnum, og það tókst oft. Svo fengu þeir ágætis laun að ég tel.“

Aldrei misst mann

Slappstu alveg við að missa menn í slysi um borð allan þinn skipstjórnarferil?

„Já, og einnig mannskap vegna stórslysa. Ég hef aldrei þurft að fara með slasaðan mann í land eða senda hann með þyrlu. Það er mikil gæfa. Smáskeinur þekktust auðvitað.“

Sóknin á Reykjaneshrygginn
Jóhannes Ellert Eiríksson

Elli ber kvótakerfinu vel söguna og segir framfarir hafa aukist frá því að kerfinu var komið á 1980. Mynd/EÖJ

Elli segir erlenda togara sem sótt hafa á Reykjaneshrygginn bókstaflega hafa þurrkað út úthafskarfann sem þar hefur fengist. „En markaðsátak okkar hefur skilað sér í því að sá karfi sem við veiðum er eftirsóknarverðari vara,“ bætir hann við.

Hvað mataræði varðar segist hann yfirleitt borða allan þann mat sem honum standi til boða, sama hvort það sé fiskur eða kjöt.

„Ég hef þó vanist því frá æsku að borða fisk á föstudaginn langa.“

Valdi sjálfur tímann að hætta á sjó

Þú komst alfarið í land í fyrra. Hvernig tilfinning var það, var það eftirsjá?

„Það var góð tilfinning. Ég valdi þann tíma sjálfur og var búinn að taka hann með nokkrum fyrirvara. Ég var alls ekki rekinn í land og sú löngun að fara aftur á sjó hefur aldrei gripið mig. Hef aldrei verið beðinn um það. Ég hef einnig aldrei séð eftir því að hafa gert sjómennskuna að ævistarfi.“

Elli segir þau hjónin bæði hætt að vinna. „Hún var kennari. Við erum bara í rólegheitum, slökum á yfir morgunkaffinu og nú getum við sinnt börnunum betur. Við eigum þrjú, en eitt barnabarnið býr í Ameríku. Þangað fórum við fjórum sinnum á síðasta ári að heimsækja barnið.“

Hann segist ekki vera að ganga í neina klúbba og saknar raunar einskis þar að lútandi.

„En kannski grípur mig löngun að fara í golf þegar vorar.“

Brottkast afla

Elli segist muna eftir kennara sem langaði til að fara á sjó þegar hann var skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni ER.

„Hann hafði aldrei farið á sjó. Ég tók hann um borð og hann sagði við mig eftir túrinn að hann væri undrandi á því að það væri verið að tala um brottkasti á fiski frá borði. Hann sagði að það væri verið að hirða hvert einstaka kvikindi.“

Þá hefði hann eitt sinn hitt stýrimann á stórum japönskum frystitogara, sem farið hefði einn túr með honum á Ottó N. Þorlákssyni RE.

„Hann hafði mun lægri laun en stýrimaður á sambærilegu íslenskum frystitogara. Sá japanski hafði laun á við japanskan skrifstofumann. Það staðfestir að ekki þarf að kvarta almennt yfir laununum á íslenska flotanum.“

Góð framtíð er í því fólgin að fara á sjó, að mati Ella. „Og ég hvet unga menn til að skoða þann atvinnumöguleika vel. Þetta er allt annað starf en þekktist áður þegar menn voru á vertíðarbátum og saman í þröngum lúkar, þjöppuðu sér saman. Á nýju togurunum fær hver sinn klefa. Það er meira að segja hætt að tala um vonda lykt um borð, þótt verið sé að bræða á þeim togurum sem hafa slíkan búnað. Það kemur eflaust mörgum á óvart,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson.

» gag

Nýjar aðferðir við meðhöndlun fisksins og aukin sjálfvirkni hafa reynst vel

Viðey RE

Tímamót urðu þegar systurskipin Engey og Viðey bættust í fiskiskipaflota landsins, enda hátækniveiðiskip bæði. Mynd/EÖJ

Ísfisktogarinn Viðey RE-50 er skipið sem Jóhannes Ellert Eiríksson skipstjóri, eða Elli á Ottó, segir hafa verið gæfu sína að fá að ljúka ferlinum með. Skipið er 54,75 metrar að lengd, 13,50 metrar að breidd og hannað með það að leiðarljósi að minnka til muna og jafnvel láta hverfa að mestu lestarvinnu sem í gegnum tíðina hefur verið uppspretta fyrir slys, meiðsli og/eða álagsþreytu hjá áhöfnum.

Við hönnun skipsins var lagt upp með að finna lausn sem miðaði að því að færa vinnuna upp á vinnsluþilfarið. Sú hugmynd kom strax fram að best væri að ýta stæðum af körum, eftir rásum með rúllubrautum, aftur eftir lestum skipsins. Með því móti stæði mannskapurinn á föstu þilfari við vinnuna og gætti þess að fiskurinn lægi sem réttastur í körunum. Bara það stuðlaði að auknum gæðum aflans.

Systurskipin Engey, Viðey og svo Akurey eru með hefðbundnu skipsformi að öllu leyti nema stefnislaginu. Stefnislagið tekur ágangi sjávar eins og hann kemur og byggir rólega upp flot í framskipi þannig að ekki verði eins snöggar viðtökur og átök.

Með þessu er skipinu gert kleift að renna sér aðeins dýpra í ölduna í stað þess að verjast henni. Atgangur sjávar verður átakalítill upp á hinn stóra bóg sem skilar öldunni áreynslulaust út fyrir hliðarnar.

Fiskmóttaka skipsins er þannig hönnuð að fiskurinn haldist sem ferskastur áður en að vinnslu kemur. Frá móttökunni fer fiskurinn með færiböndum í slægingu, en í slægingarlínunni eru sjö sjálfstæðar vinnustöðvar sem hverja um sig er hægt að laga að hæð hvers sjómanns.

Línan er með fimm frátökuleiðum, fyrir hrogn, lifur, slóg, slægðan bolfisk og karfa. Eftir flokkun fer fiskurinn í blæðihjól þar sem jöfn og góð blæðing er tryggð um leið og 300 kílóum af fiski er safnað saman í skammt. Við flokkunina verður til fullkominn rekjanleiki út allt vinnsluferlið.

Hrogn og lifur fara sína leið í gegnum þvott og kælidælur. Að kælingu lokinni er þeim afurðum einnig komið fyrir í körum í lestarkerfi skipsins.

Eins er slægingarlínan hönnuð þannig að koma megi slógi og öðru sem til fellur í sérútbúna tanka skipsins til vöruþróunar og vinnslu í landi. Sjálfvirkt lestarkerfi skipsins tekur við hverju kari að lokinni niðurröðun fiskins. Kerfið er í raun risastór sjálfvirkur lager sem mannshöndin kemur hvergi nærri. Kerfið sækir tómt kar í lest og kemur því upp á millidekkið þar sem niðurröðun fisksins fer fram.

Jafnframt er tryggt að sá skammtur sem fer í karið sé skráður í rekjanleikakerfið með öllum nauðsynlegum upplýsingum. Að því búnu fara körin sína leið í lestina að nýju, þar sem þeim er komið fyrir á þar til gerðum brautum.

Hitastigi lestarinnar er haldið í -1°C og undirkæling þannig tryggð fram að losun skipsins.

Þegar í land er komið sér kerfið um færslu kara upp á bátadekk þar sem krani skipsins tekur við þeim. Hefðbundin, erfið og oft á tíðum hættuleg lestarstörf við losun skipsins heyra því einnig sögunni til.

» gag

Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.