Hús var tekið á Einari Hannesi Harðarsyni, formanni Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, til að ræða hátíðahöld sjómannadagsins og fleiri mál sem snúa að sjómönnum. Í ár fagna Grindvíkingar deginum í Reykjavík en ekki í heimabæ sínum vegna eldgosanna sem þar hafa sett bæjarlífið úr skorðum.
Sjómannadagurinn hefur skipað stóran sess í hjörtum Grindvíkinga í gegnum tíðina, enda hefur stór hluti bæjarbúa lifibrauð sitt af útgerð með einum eða öðrum hætti.
Grindvíkingar hafa lagt mikinn metnað í hátíðarhöld á sjómannadaginn og hefur dagskráin verið glæsileg og fjölbreytt.
„Það er enn eitt áfallið fyrir okkur Grindvíkinga að geta ekki haldið upp á sjómannadaginn í Grindavík í ár,“ segir Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur.
„Að því sögðu þökkum við Reykvíkingum kærlega fyrir að grípa okkur. Langar mig í þeim efnum sérstaklega til að nefna Aríel Pétursson [formann Sjómannadagsráðs], sem hefur reynst okkur gríðarlega vel og hugsað mjög vel til okkar og mjög mikið í lausnum til þess að þetta gangi upp.“
Grindvíkingum verður gert hátt undir höfði í hátíðardagskrá sjómannadagsins í Reykjavík í ár.
„Draumur okkar Grindvíkinga er náttúrlega að halda sjómannadaginn aftur í Grindavík en maður veit ekki hvernig það verður.“
Að sögn Einars hefur sjómannadagurinn í Grindavík markað upphafið að sumrinu hjá bæjarbúum og hefur grunnskólinn til dæmis gætt þess að ljúka störfum fyrir daginn. Þá hefur hann þróast í að vera hátíð fyrir alla fjölskylduna og jafnvel aðdráttarafl fyrir utanbæjarmenn á góðum degi.
„Sjómannadagurinn er orðinn fjölskylduhátíð í Grindavík. Þetta er ekki bara fyrir okkur sjómennina heldur sýnir þetta hvað sjómannastéttin hefur breyst. Hér áður fyrr hefðu kannski hjónin farið saman á ball en nú fer öll fjölskyldan saman á bryggjuball.“
Þá er enn haldið fast í gamlar hefðir eins og koddaslag, flekahlaup og skemmtisiglingu auk þess sem Sjómanna- og vélstjórafélagið hefur alltaf gefið út veglegt blað í tilefni dagsins. Það verður engin undantekning á því í ár þrátt fyrir breyttar aðstæður.
„Við munum gefa það út í ár sem önnur ár þrátt fyrir að við búum ekki heima í augnablikinu en við munum vinna í lausnum við að dreifa því.“
Dagskrá að hætti Grindvíkinga
Á hátíðarhöldum Sjómannadagsins í Reykjavík verður sérstakur bás tileinkaður Grindvíkingum og enn fremur verður boðið upp á dagskrá í anda Sjómannadagsins í Grindavík, svo sem koddaslag og flekahlaup.
„Það er hefð hjá okkur að heiðra þrjá til fimm sjómenn á sjómannadaginn og þakka þeim fyrir ævistarfið. Við munum halda þeirri hefð þökk sé Reykvíkingum, en Aríel hefur reynst okkur rosalega vel og boðið okkur að taka þátt í heiðrunum Sjómannadagsráðs í Hörpunni, þar sem mikið er í það lagt og meðal annars útvarpað á Rás 1,“ segir Einar og bendir á að fleiri hafi sýnt félaginu velvild á þessum erfiðu tímum.
„Við sitjum hér á skrifstofu fagfélaganna á Stórhöfða. Strax eftir rýmingu Grindavíkur fengum við símtöl frá formönnum hér í húsinu og þeir sögðu okkur að þeir myndu grípa okkur og buðu okkur húsnæði. Þeir voru mjög fljótir að sjá að við gætum ekki farið heim strax. Samfélagið á Íslandi er ótrúlega flott þegar atburðir eins og eru að gerast í Grindavík ganga yfir.“
Einar lofar einnig aðlögunarhæfni íslenskra sjómanna.
„Það er bara með okkur sjómenn að við erum alveg óhræddir að taka á því og vinnutarnir eru nokkuð sem við þekkjum mjög vel. Þó að verkefnin breytist er líka ótrúleg aðlögunarhæfni hjá íslenskum sjómönnum. Þó að þessar náttúruhamfarir sem áttu sér stað í Grindavík séu risavaxið verkefni er ekkert mál fyrir grindvíska sjómenn í þessu tilfelli að laga sig að því.“
Stefnum á að fara heim
Á undanförnum misserum hefur líf verið að færast yfir höfnina í Grindavík eftir að mjög hafði hægt á starfseminni og hún jafnvel stöðvast um tíma. Einar segir að í Grindavík sé hafnarsvæðið kannski hvað minnst skemmt og eðlilegt að sú starfsemi fari fyrst af stað. Menn verði þó að gæta þess að setja öryggi fólks í fyrsta sæti.
„Við eigum náttúrlega að stefna að því að fara heim en við þurfum að flýta okkur hægt og gera það með öryggi okkar allra að leiðarljósi.“
Sjálfur hefur Einar verið til sjós í nærri aldarfjórðung þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur. „Ég byrjaði á sjó sextán ára þar, sem ég er í hópi þeirra íslensku drengja sem eiga mjög erfitt með að vera settir í þann kassa að sitja inni í skólastofu og læra. Stefnan mín gegnum allan grunnskólann var að fara á frystitogara þegar ég yrði stór,“ segir Einar, sem var ráðinn á frystitogarann Hrafn Sveinbjarnarson strax eftir tíunda bekk.
„Ég var mjög óharðnaður og mjög kjaftfor en það sem gerðist þar er að ég eignaðist 25 fósturpabba sem reyndu að leiðbeina mér í lífinu og kenna mér ansi margt. Fyrir ungan og óreyndan mann held ég að ég hafi verið einstaklega heppinn að detta inn í þá áhöfn sem var þá á Hrafni Sveinbjarnarsyni. Þetta var mjög mikill skóli og frábærir menn.“
Einar nefnir sérstaklega skipstjórann Hilmar Helgason.
„Hann var ekki bara skipstjórinn manns. Hann var föðurímyndin líka. Hann passaði upp á að maður setti peningana ekki bara í vitleysu heldur ætti líka að kaupa sér íbúð, kaupa sér bíl, eignast eitthvað og hugsa um peningana sína. Ég held að þetta hafi verið alveg gríðarlega mikill skóli fyrir mann,“ segir Einar, sem átti eftir að gera Hrafn Sveinbjarnarson að sínu öðru heimili.
Allt brjálað um borð ef netið dettur út
„Þó að sjómannsferill minn spanni að verða 24 ár er hann mjög einsleitur. Ég er bara búinn að vera í sömu áhöfninni öll þessi 24 ár og það gefur til kynna að manni líði vel og sé ekki mikið að breyta til.“ Margt hefur breyst til batnaðar á þessum 24 árum og er sjómennskan orðin fjölskylduvænni að mati Einars.
„Þegar ég byrjaði á Hrafni Sveinbjarnarsyni var maður að fara þrjá, fjóra, fimm túra í röð. Í dag fara menn annan hvern túr, eru sem sagt hálft árið í fríi. Maður er alltaf meira og meira með fjölskyldu sinni þó að það sé kannski á annan hátt en annað verkafólk. Þegar maður er með fjölskyldunni getur maður líka tekið mjög virkan þátt í fjölskyldulífinu, sem mér þykir alveg gríðarlega mikilvægt.“
Einar bendir jafnframt á að auðveldara sé að vera í sambandi við fjölskyldu og vini úti á sjó en þegar hann byrjaði.
„Þegar ég byrjaði 1999/2000 fór maður heilu túrana án þess að vera með símasamband eða net og þá þurfti maður að fara upp í stöðina. Í dag er allt brjálað um borð ef við verðum netsambandslausir því að menn eru að fylgjast með krökkunum sínum og fjölskyldulífinu, gegnum samfélagsmiðla, Snapchat og allt þetta,“ segir Einar og bendir á að netvæðing flotans sé öðrum þræði tilkomin vegna þess að búnaður skipana krefjist þess.
Breytt vaktakerfi fækkar slysum
Miklar framfarir hafa orðið í öryggismálum sjómanna á þeim tíma sem liðinn er frá því að Einar fór fyrst á sjó. Það má meðal annars þakka Slysavarnaskóla sjómanna, aukinni fræðslu og eftirliti og breyttu vaktafyrirkomulagi.
„Það breyttist mjög mikið þegar nær allur flotinn, togaraflotinn og línubátaflotinn fór úr sex tíma kerfi yfir í átta tíma kerfi. Það vita það kannski ekki allir en flest sjóslys á svona bátum verða á vaktaskiptum og þarna ertu búinn að fækka vaktaskiptum um 25 prósent og menn eru úthvíldari þegar þeir koma til vinnu. Þeir eru búnir að sofa meira og þeir eru jafnvel betur vaknaðir og ég held að þetta hafi verið hluti af því að fækka slysum,“ segir Einar og bendir á að þetta hafi verið gert að tilstuðlan Slysavarnaskóla sjómanna.
„Það sýndi sig aftur hvað íslenskir sjómenn eru með mikla aðlögunarhæfni að þegar þessar hugmyndir komu um að breyta aldagamalli vaktavinnu úr sex tímum í átta tíma vildu allir prófa. Svo átti að fara til baka þegar það var búið að prófa en það fór enginn til baka því að það líkaði öllum svo vel við átta tíma í staðinn fyrir sex. Sumir voru búnir að vera í þrjátíu ár á sex tíma vöktum og gátu ekki hugsað sér að fara til baka en samt hafði þetta aldrei komið til tals áður. Í átta tíma kerfinu er það mjög oft sem 80–90 prósent af vaktinni eru vöknuð áður en hún er ræst, sem gerðist nánast aldrei á þessum sex tíma vöktum.“
Má ekki sofna á verðinum
Þó að margt hafi áunnist í öryggismálum sjómanna er sjómennskan langt frá því að vera hættulaust starf. Skammt er síðan tveir félagsmenn Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur létust í tveimur aðskildum vinnuslysum og vill Einar nota tækifærið og votta fjölskyldum þeirra sína dýpstu samúð.
„Sjómenn mega alls ekki gleyma því að þó að mikill árangur hafi náðst í fækkun slysa og sérstaklega alvarlegra slysa megum við ekki sofna á verðinum. Við þurfum að vera mjög meðvitaðir um það að við náum ekki árangri í þessu nema með samstilltu átaki. Það má aldrei sofna á verðinum hvað öryggismál sjómanna varðar,“ segir Einar Hannes.
» eöj
Umfjöllunin hér að ofan er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments