Furðufiskurinn – Vogmær:
Vogmær, sem einnig er stundum nefnd vogmeri, er allstór djúpsjávarfiskur, getur stærstur orðið um þrír metrar, sem sagður er óæti þótt hann sé ætur og til engra sérstakra nytja. Er fiskinum alla jafnan hent þegar hann slæðist með öðrum afla.
Hafrannsóknastofnun lýsir vogmeynni svo að hún sé langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. „Og er kviðröndin þykkari en bakröndin líkt og hnífsblað sem snýr egginni upp. Bakröndin er bogadregin. Haus er lítill og trjónan er stutt en augu eru stór. Kjaftur er með framskjótanlegum miðskoltsbeinum,“ segir í umfjöllun á vef stofnunarinnar um sjávarlífverur.
„Spyrðustæðið er mjög grannt. Bakuggi er mjög langur, nær frá hnakka að stirtluenda. Raufaruggi er enginn. Eyruggar eru litlir og kviðuggar örlitlir. Sporðblaðka er með langa uppvísandi geisla. Roðið er smáhnökrótt.“
Rákin í fiskinum er sögð greinileg frá haus að stirtluenda og litur hans silfurgljáandi með einum til fimm dökkum dílum á hvorri hlið. Uggar eru rauðir.
Rekur við og við á land
Fram kemur að í júlí 1983 hafi fundist 185 sentímetra löng vogmær rekin á fjöru austan Skaftáróss, en eftirgrennslan í umfjöllun fjölmiðla í gegnum tíðina leiðir í ljós að fiskinn hefur rekið á fjörur landsmanna í nokkur skipti eftir það.
Í lítilli frétt í Morgunblaðinu í marsbyrjun 2004 er frá því greint að vogmeyju hafi nokkrum dögum fyrr rekið á land í Vogum, í júnílok 2008 segir blaðið líka frá fundi hennar í Reynisfjöru og svo í júlí 2012 að vogmær hafi fundist í fjörunni við Kálfhamarsvita. Þá sögðu Víkurfréttir frá því sumarið 2009 að lifandi vogmær hefði fundist við Gerðabryggju í Garði.
Hvergi er þess þó getið að farið hafi verið eftir því sem segir í þjóðtrúnni finnist vogmærin rekin að landi. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, fjórða bindi, segir svo frá:
„Ef vogmeri rekur á að brenna hana svo reykinn leggi til hafs, mun þá hval reka; ella verður skipstap.“
Vitnað er til þess að þannig hafi þjóðtrúin verið í Grímsey. „Sumir þar sögðu það væri nóg að fleygja henni út í sjóinn aftur, þá stæði enginn skipskaði af henni,“ segir í samantekt Jóns Árnasonar.
Í umfjöllun á Vísindavefnum kemur fram að ætt þessara fiska sem ber fræðiheitið Trachipteridae, og vogmær fræðiheitið Trachipterus arcticus, telji tíu tegundir, en aðeins vogmærin finnist hér við land.
Í umfjölluninni er vitnað til lýsingar á vogmeyju í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar:
„Vogmerin er litfögur. Hún er svört fyrir framan augun og á milli þeirra, einnig ofan á höfði og hnakka. Stór kringlóttur, svartur blettur er fyrir ofan raufina og einnig fyrir ofan hryggjarliðina, og svo virðist sem fiskurinn sé svartur í gegn. Bakugginn, stirtlan og sporðurinn er allt hárautt á lit, en að öðru leyti er hún silfurgljáandi.“
Lítt rannsakaður fiskur
Heimkynni vogmeyjar eru sögð í Norðaustur-Atlantshafi og að hún virðist algeng allt í kringum Ísland, nema undan ströndum Norðausturlands og Austurlands.
„Vogmær finnst undan ströndum Noregs, í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar og allt suður til Madeira,“ segir í umfjöllun á Vísindavefnum.
Hafrannsóknastofnun segir að vogmærin sé mest miðsævis- og djúpfiskur en hún hafi veiðst á 60 til 900 metra dýpi.
„Hún heldur sig dýpra á daginn en á nóttunni. Hennar hefur orðið vart í smátorfum og fundist bæði rekin og veiðst í ýmis veiðarfæri t.d. botnvörpu, flotvörpu, net og fleira.“
Fæða vogmeyjar er einkum sögð smáfiskar, smokkfiskur, rækja og fleira.
Sárafáar rannsóknir hafa verið gerðar á lífsháttum vogmeyjarinnar, segir í umfjöllun Vísindavefsins, en fiskurinn haldi sig sennilega í smáum torfum og einstaka sinnum hafi slíkar torfur rekið á land. Til dæmis hafi á ofanverðri 19. öld rekið 100 til 200 vogmeyjar á land við Arnarfjörð.
„Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er gerð grein fyrir nafngift fisksins. Þar segir að það sé eðli vogmeyjarinnar að koma með flóðinu upp að landi í grunnum víkum og vogum, sérstaklega þar sem botngerðin er sendin. Hún er svo litfögur og mjúk að hún er kennd við mey,“ segir á Vísindavefnum.
Ill afdrif Völu drottningar
Hér má sjá það sem skrifað er um vogmeri í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, en fiskurinn kemur líka fyrir í þjóðsögu einni um grimmdardrottningu sem að endingu hlýtur þau örlög sem refsingu sína að verða að „vogmeri“.
Sagan er í flokki stjúpusagna og rekur raunir prinsessu að nafni Viðfinnu sem frá unglingsaldri elst upp með grimmri stjúpu, Völu drottningu, sem reynir ítrekað að fyrirkoma stúlkunni með margvíslegum leiðum þannig að Viðfinna ratar í hinar mestu þrautir.
Drottningin á galdraker sem virðist svipaðrar náttúru og spegill nornarinnar í sögunni um Þyrnirós. Fleira er líkt með sögunum, því í þessari eru líka dvergar til liðsinnis, þótt sá munur sé á að allir láti þeir lífið fyrir vikið.
Í sögunni er það fjölvís fóstra Viðfinnu sem segir fyrir um örlög grimmu drottningarinnar:
„Ei mun ég skapa þér svo ill afdrif sem þú ættir skilið fyrir öfund og illsku þína; en það læt ég um mælt að þú fylgir keri þínu og farir í sæinn og verðir að hinum ófrýnilegasta fiski kvenkenndum og muni æ hvað þér olli þessum hamskiptum.“
Er svo frá því sagt að Vala drottning yrði að vogmeri, en ker hennar að ígulkeri og sagnaandinn sem í því var að eiturkvikindi er nefndist „alfríið“.
Á YouTube er að finna stutt fræðslumyndband á ensku um vogmeyna.
» óká
Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2024. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments