Á dögunum heimsóttu félagskonur í Kvenfélaginu Hrönn Hrafnistu við Sléttuveg í Fossvogi í því skyni að kynna sér starfsemi Sjómannadagsráðs og dótturfélaganna; Hrafnistu og íbúðaleigufélagsins Naustavarar.

Hrönn er öflugur félagsskapur kvenna sem eiga það sammerkt að vera giftar skipstjórum og stýrimönnum kaupskipaflotans og varðskipanna. Þær hittast reglulega auk þess að hafa frá stofnun félagsskaparins 1949 útbúið jólagjafir til handa sjómönnum þeim er verja jólum til sjós.

Formaður Sjómannadagsráðs, Aríel Pétursson, tók á móti hópnum. Hann flutti þeim erindi um uppbyggingu hjúkrunarheimila Hrafnistu undanfarna sjö áratugi, þar sem starfsemin öll hefur jafnt og þétt eflst á mörgum sviðum. Dæmi um það er sú viðbót sem Sjómannadagsráð kom með stofnun Naustavarar sem byggt hefur fjórða hundrað leiguíbúðir fyrir 60 ára og eldri í næsta nágrenni Hrafnistuheimilanna. Saman mynda Hrafnista, leiguíbúðirnar og þjónustumiðstöðin á hverjum stað lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs, þar sem veitt er fjölbreytt þjónusta sem hæfir hverjum og einum eins og gestgjafar kynntu fyrir Hrannarkonum í heimsókn þeirra á Sléttuveginn.

Í þjónustumiðstöðinni Sléttunni er fjölbreytt starfsemi. Auk félagsstarfs og matsalar er þar að finna líkamsrækt, fótaðgerðarstofu, hárgreiðslustofu, verslun, nudd, jóga og gestaherbergi fyrir íbúa Naustavarar.

Heimsóknin var mjög ánægjuleg og þökkum við Hrannar konum fyrir komuna.