Myndlista- og sjómaðurinn Björgvin Jónsson gengur undir listamannsnafninu V.K.N.G. Björgvin hefur vakið mikla athygli fyrir sína einstöku list síðustu misseri og haldið sýningar víðsvegar um heiminn. Samhliða listinni er Björgvin sjómaður en sjómennskan er honum í blóð borin enda kemur hann af miklum sjómönnum að vestan. Eftir að hafa nært andann af seltu og súrefni afhjúpar Björgvin nú glænýja sýningu þar sem hann er undir áhrifum frá helstu auðlind þjóðarinnar. Björgvin útskrifaðist með láði úr School of Visual Arts í New York árið 2018. Honum var boðin innganga í skólann eftir að hafa klárað sumarnámskeið þar. Í gegnum námsárin fór hann ekki leynt og hljóðalaust en hann var einn af þremur nemendum sem var boðið að taka þátt í fyrstu sýningum MvVo’s AD Art Show sem haldin var í Sotheby’s New York og í dag er árleg listasýning um alla New York borg. Þá var hann valinn einn af 20 bestu nemendum við skólann og sérstakur kafli var tileinkaður honum í árlegri bók skólans. Eftir að hann flutti frá New York dvaldi Björgvin nokkra mánuði í París og ferðaðist þaðan víða um Evrópu, meðal annars til þess að kynna sér evrópska listaheiminn nánar. Sú ferð gat af sér seríu af verkum sem var sýnd m.a. í Oculus í New York og einnig á LA Art Show í Los Angeles árið 2020. V.K.N.G. er frumlegur í sinni list og kemur hugarheim sínum vel til skila. Hann vinnur með fjölbreyttan efnivið, þá einna helst akríl plexígler.
Recent Comments