Og það er líka gott að vera sjómaður á Íslandi. Væntanlega betra en í fjölmörgum öðrum löndum og kannski langflestum þeirra. Sjómennskan hefur um aldir verið veigamesta lífsbjörg þjóðarinnar og þeir sem sótt hafa sjóinn hafa alla tíð notið virðingar og ómælds þakklætis fyrir hetjulega og afar verðmæta glímu sína við náttúruöflin til þess að færa þjóðinni björg í bú.

Öllum er mikilvægi íslensks sjávarútvegs ljóst. Öllum er það eflaust líka ljóst að við höfum á undanförnum áratugum byggt upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem er í allra fremstu röð bæði hvað varðar sjálfbærni veiðanna og verðmætasköpun. Enda þótt við getum verið stolt af þessari þróun má líka halda því fram að skárra væri það nú! Til skamms tíma áttum við eiginlega engin önnur útflutningsverðmæti en fiskinn. 200 mílna lögsaga okkar með öll sín fengsælu fiskimið hefur ásamt efnahagslegu mikilvægi fiskveiðanna sett á okkur sterka kröfu um ítrustu fagmennsku og fordæmi fyrir aðra sem nýta heimshöfin til verðmætasköpunar.

En sjórinn, þessi sameiginlega auðlind heimsbyggðarinnar sem í raun þekkir engin landamæri, er nánast eins viðkvæmur og lítið blóm. „Lengi tekur sjórinn við“ er mögulega einn allra heimskulegasti frasi sem við tuggðum upp hvert eftir öðru margt fyrir löngu. Ógnirnar sem að honum steðja vegna plastmengunar, hlýnunar og súrnunar sjávar, ofveiði, eyðingar lífríkis og búsvæða, blýmengunar og annarrar mengunarhættu er sameiginlegt áhyggjuefni allra jarðarbúa. Rétt eins og Ísland hefur skipað sér í fremstu röð hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfi er sjálfsagt að við skipum okkur með öllum tiltækum ráðum í framvarðarsveit þeirra þjóða sem verja vilja lífríki hafsins með kjafti og klóm.

„Vísindin efla alla dáð“ er gamalt orðatiltæki sem svo sannarlega endist betur en hið fyrrnefnda um að sjórinn sé ruslakista sem endalaust geti étið hvers kyns drasli sem í hana er hent. Andri Snær Magnason rithöfundur sagði eitt sinn á ráðstefnu um sjávarútvegsmál að Ísland væri eins og gúrka – 90% vatn. Þess vegna botnaði hann ekkert í því af hverju við legðum ekki meiri áherslu en raun ber vitni á að efla menntun ungs fólks á öllum sviðum vatnsbúskapar þjóðarinnar. Sjómennskan og vísindahluti fiskveiðanna og lífríkis sjávar er þar á meðal og fjölmargar aðrar atvinnugreinar sem við eigum að kappkosta að mennta okkar besta fólk til þess að sinna.

En því miður virðist sem atvinnugreinin sjávarútvegur í sinni víðustu mynd líði fyrir þá neikvæðu umræðu og átök sem einkenna umræðuna um fiskveiðistjórnunina. Engum dylst samt að sjósóknin skilar þjóðarbúinu gríðarlegum verðmætum á sama tíma og hún keppir við ríkisstyrktar útgerðir og vinnslur í flestum samkeppnislöndum okkar. Um þetta er ekki deilt. En við finnum okkur samt margt annað til þess að karpa um. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga en oft og tíðum er orðræðan samt býsna stóryrt, upphrópanakennd og jafnvel fjandsamleg. Og þegar við horfum heilt yfir á íslenska velferðarríkið, aðstæður fólksins í landinu og jöfnuðinn sem þrátt fyrir allt ríkir á svo mörgum sviðum getum við vonandi verið sammála um að það sé gott að búa á Íslandi. Þegar grannt er skoðað eru átakasvæðin í íslensku samfélagi svo ótrúlega smá miðað við það sem fólk svo víða annars staðar þarf að takast á við.

Við getum eflaust fínstillt margt í fiskveiðistjórnun okkar en í grunninn er það að mínu mati orðið svo heilsteypt og þroskað að lagfæringarnar ættu að miklu frekar að snúast um jákvæð samstarfsverkefni í stað þessara þreyttu og endurteknu hjaðningavíga. En kannski má segja – því miður – að þau einkenni sjáist æ víðar í alls kyns skoðanaskiptum þar sem fólki er nánast frá byrjun skipað í tvær andstæðar fylkingar og veröldin öll gerð eins svört eða hvít og frekast er unnt. Sjávarútvegurinn okkar og sjómennskan hefur ekkert að gera við slík átök og nær vonandi að forðast þau í lengstu lög.

Sjómannadagsráð er ekki aðili að þessum skoðanaskiptum enda þótt ég geri þau hér að umtalsefni. Ráðið var hins vegar stofnað fyrir tæplega 90 árum með það að meginmarkmiði að kynna störf sjómanna og standa vörð um ímynd þeirra. Þess vegna eru mér framangreind orð hugleikin enda enginn vafi á því að jákvæð og uppbyggileg umræða um íslenskan sjávarútveg mun bæði örva menntun og nýliðun í sjómannastéttinni.

Sjómannadagurinn var – og er auðvitað enn – flaggskip okkar í kynningu á störfum sjómannsins. Þessum sameiginlega hátíðisdegi allrar þjóðarinnar víða um land hefur stöðugt vaxið fiskur um hrygg og hér í Reykjavík munar auðvitað mikið um afar ánægjulegt samstarf okkar á undanförnum árum við útgerðarfélagið Brim og Faxaflóahafnir. Landhelgisgæslan lagði síðan sitt lóð á vogarskálarnar í fyrra með því að bjóða gestum Sjómannadagsins í siglingu út á sundin. Það framlag vakti mikla hrifningu og verður endurtekið í ár með enn frekari vindi í seglin.

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs