• Hlutaskipti við útreikning á kjörum sjómanna hafa verið þekkt í íslenskum sjávarútvegi um aldir • Fyrsti vísir að greiðslu fastra launa til sjómanna kom í kringum aldamótin 1800 • Erfiðlega hefur gengið að semja um kaup og kjör síðustu áratugi

Lengi hefur verið tekist á um kjör sjómanna og deiluefnin verið margvísleg, þar á meðal með hvaða hætti sjómenn eigi að fá greidd laun. Laun íslenskra sjómanna hafa lengst af byggst á svokölluðu hlutaskiptakerfi. Hlutaskiptin eru samningur á milli sjómanna og útgerðar og byggist á því að sjómenn fái ákveðna hlutdeild í aflaverðmætinu.

Hluturinn er breytilegur eftir tegund afla og stærðar eða tegundar skipsins. Tekjur sjómanna og útgerða haldast í hendur; ef veiðin er mikil og gott verð fæst fyrir fiskinn hækka laun sjómanna en lækka að sama skapi ef illa gengur og fiskverð lækkar. Skiptaverðmæti getur aldrei farið yfir 80 prósent né undir 70 prósent.

Tekið er mið af því hvort heimsmarkaðsverð á olíu hækkar eða lækkar. Sjómenn eru eina starfsstéttin á Íslandi sem fær laun sín greidd með þessum hætti.

Nokkrir sjómenn við hafnargarðinn í Reykjavík á sjómannadaginn 1959. Mynd/úr safni Sjómannadagsráðs

Saga hlutaskiptanna
Hugmyndin um hlutaskipti hefur verið þekkt í íslenskum sjávarútvegi um aldir. Fyrst er getið um aflaskipti í Fóstbræðrasögu, sem er talin vera rituð á 13. öld. Þar kemur fram að hluturinn skiptist í fjóra staði – einn fór til fiskimanns, annar fyrir skip, þriðji fyrir öngul og sá fjórði fyrir vað.

Auk þess voru þekktir hásetahlutur og formannshlutur ásamt skipshlut, veiðarfærahlut og beituhlut. Aflaskipti voru mismunandi á milli verstöðva og launakjör sjómanna því ólík eftir landsfjórðungum.

Í Vestmannaeyjum voru skiptin ólík því sem tíðkaðist annars staðar á landinu, þar var lengi eingöngu konungsútgerð á vetrarvertíð. Í flestum landshlutum fóru skiptin fram á skiptifjöru og formaður sá oftast um skiptin. Skipt var í köst eða hluti og skipt var eftir ákveðnum skiptareglum, sem voru mismunandi eftir landshlutum.

Í skipadómi frá 1564 voru skipshlutir tveir af ýsu, flyðru, skötu, karfa o.fl. bæði á meðan á vertíð stóð og utan hennar en af þorski utan vertíðar. Á 17. öld var svo farið að greiða sjómönnum svokallaðan útróðrarhlut til viðbótar vegna þess hversu illa gekk að fá menn til útróðrar en þessi kaupauki var síðan bannaður með lögum árið 1653.

Í kringum 1800 var fyrsti vísir að því að sjómenn færu að fá borgað fast kaup og undir lok 19. aldar, þegar færri sóttu í sjómennsku, þilskipum fækkaði og árabátaútgerð jókst, varð það algengt fyrirkomulag.

Hlutaskipti í einhverri mynd tíðkuðust þó allt þar til togararnir komu til sögunnar og togarasjómenn fóru á fast kaup ásamt lifrarkaupi.

Á fjórða áratug síðustu aldar var hlutaskiptakerfið svo tekið upp að nýju þegar togararnir fóru að stækka, vélar komu í togarana og farið var að gera meira út á síld. Þá fengu sjómenn föst laun auk aflahlutar og aflaverðlauna. Það þótti mikil kjarabót, þar sem sjómenn höfðu lengi ekki fengið neinn hlut af aflaverðmæti, sama hvernig fiskaðist. Það kerfi var lagt af á tíunda áratugnum og við tók það hlutaskiptakerfi sem við þekkjum í dag.

Sjómenn samningslausir í tíu ár
Miklar kjaradeilur hafa átt sér stað síðustu áratugi og deilumálin verið margvísleg á milli sjómanna og útgerða. Helstu ágreiningsefnin hafa verið tengd kostnaðarhlutdeild beggja aðila, olíuverðsviðmiði og verðmyndun.

Einnig hafa atriði eins og nýsmíðaálag, sjómannaafsláttur, kauptrygging, orlofsréttindi og lífeyrismál vegið þungt í deilum milli útgerða og sjómanna.

Sjómenn voru samningslausir í 10 ár fyrir undirritun síðasta samnings og árið 2016 fóru þeir í lengsta sjómannaverkfall sögunnar, sem varði í 10 vikur.

Sjómenn sömdu loks við útgerðir í febrúar árið 2017 en þá var orðið ljóst að lög yrðu sett á verkfallið ef samningar næðust ekki. Sjávarútvegurinn hefur oftar fengið á sig lög vegna kjaradeilna en nokkur önnur atvinnugrein, eða fjórtán sinnum síðan árið 1938.

»» rg

Valmundur Valmundsson

Valmundur Valmundsson er formaður Sjómannasambands Íslands.   Mynd/Hreinn Magnússon

Kjaradeila sjómanna og útgerðar enn í hnút

Síðasti kjarasamningur sjómanna rann út í lok árs 2019 og hafa samningar enn ekki tekist. Í febrúar á þessu ári undirrituðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómannasamband Íslands nýjan kjarasamning en í mars var hann kolfelldur með rúmlega 67 prósentum atkvæða.

Helstu breytingar í nýja samningum fólu í sér hærri greiðslur í lífeyrissjóð og hækkun á kauptryggingu í samræmi við samninga á almennum vinnumarkaði.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, segist ekki átta sig fyllilega á því hvers vegna svo margir felldu samninginn. Hann hafi talið sig vera með góðan samning í höndunum.

„Í raun og veru vorum við að hækka laun sjómanna. Við getum sagt að ef menn hefðu valið að fara lífeyrisleiðina er launahækkunin um rúmlega tvö prósent, þó að hún komi í formi lífeyris seinna meir á lífsleiðinni. Þú gast valið um það eða að hækka launin um 0,7 prósent. Við vorum að tryggja mönnum að þeir héldu sama launahlutfalli út samningstímabilið. Og af því að við fengum þetta í gegn með lífeyrissjóðinn, sem er í raun og veru launahækkun báðar leiðirnar sem þú ferð, gátum við selt útgerðarmönnum þetta með svona löngum samningi,” segir Valmundur.

En hann skynjaði að sumir væru hræddir við samningslengdina.

Gerðardómur bættist við
„Kannski skiljanlega, en líka ekki. Þegar við hittum menn og útskýrum að við séum að festa hlutfallið sem þeir hafa af tekjum útgerðar til 10 ára, þá skilja þeir það. Svo er líka grein þarna sem við settum inn til að tryggja okkur fyrir því ef það kemur eitthvað nýtt. Þá höfum við eitthvað um það að segja. Ef við ætlum til dæmis að fara að veiða túnfisk, sem gengur inn í lögsöguna og kvóti er til staðar, megum við veiða hann en erum ekki með neina samninga um veiðina.“

Settur hafi verið varnagli um að semja yrði sérstaklega um nýjar veiðar, eða kalla til þriðja aðila til að skera úr vandanum. Hann á bágt með að skilja tortryggni sem fram kom vegna þessa þáttar.

„Við fórum fram á þessar breytingar. Greining er búin að vera tuttugu ár í samningum, við töldum okkur bara vera að styrkja hana. Gerðardómurinn er það eina sem bættist við.“

Óvægin umræða á samfélagsmiðlum
Valmundur segir jafnframt að samfélagsmiðlar virðist hafa haft talsverð áhrif á ákvörðunartöku sjómanna í kosningunum. „Við erum ekkert óvanir því að það séu felldir á okkur samningar.“ Núna hafi þó farið í gang afar óvægin umræða, fyrst og fremst á samfélagsmiðlum.

„Það var alveg sama hvar maður fór inn og reyndi að leiðrétta. Manni var manni bara hent út og blokkaður og öllu sem við settum inn var eytt.“ Hann segir samninginn hafa verið kynntan um land allt og alls staðar verið vel tekið. „Menn skildu hvað við vorum að gera. Ætli við höfum ekki talað við á bilinu 300 til 400 sjómenn, það fór bara eitthvað í gang. Menn kynntu sér ekki inntak samningsins eða mættu á fundi. Það var náttúrlega algjörlega óþolandi.“

Óvissa um framhaldið
Valmundur segir næstu skref ekki augljós og ekkert gerist fyrr en í fyrsta lagi eftir sumarið. Sú staðreynd að skipstjórar og stýrimenn hafi samþykkt samninginn hafi mikil áhrif á framhaldið.

„Við erum svolítið bundnir af því að þeir hafi samþykkt,“ segir hann og telur hæpið að útgerðin verði til tals um miklar breytingar frá þeim samningi.

„Við fengum lífeyrissjóðinn fyrir tíu ára samning, þannig að ef við ætlum að stytta samningstímann er bara spurning hvað menn vilja setja á móti. Þetta er svolítið reiptog núna.“

Hann telur sjómenn nú vera á því að bíða og sjá hvernig samningurinn reynist hjá skipstjórnarmönnum.

„Menn eru ekki tilbúnir í átök. Það verður erfitt að koma þessu saman núna, örugglega erfiðara en oft áður. En verkefnið liggur fyrir og við verðum bara að vinna úr því.“

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.