Nú eru liðin 85 ár síðan fyrsti sunnudagurinn í júní var tileinkaður sjómönnum og fjölskyldum þeirra, en til þessara hátíðarhalda var stofnað af sjómannafélögum árið 1938 sem vildu tileinka dag þeirri stétt sem ynni hættulegustu og erfiðustu störfin. Sá samtakamáttur sem þessi hefð sprettur upp úr hefur skilað sjómönnum og þjóðfélaginu miklu í gegnum árin. Alla tuttugustu öldina og fram á þennan dag byggði velsæld landsmanna að miklu leyti á þeim verðmætum sem sótt eru á miðin í kringum Ísland. Þó svo að hlutfallslega hafi dregið úr því hversu háð við erum einni atvinnugrein er sjávarútvegurinn enn máttarstólpi í atvinnulífinu og í lífskjörum okkar Íslendinga.

Þó að vinnuslysum til sjós hafi fækkað er starfið enn hættulegt. Enn verða slys og þó að Íslendingum hafi auðnast að koma á skilvirku kerfi til þess að skrá og meta öll meiriháttar slys sem verða til sjós hefur ekki tekist að útiloka þau. Að því er þó unnið innan útgerða víðs vegar um landið, með aukinni þjálfun, betri skipum, stafrænni væðingu og útvistun hættulegra starfa til véla. Sá tími mun koma þegar ekkert vinnuslys verður til sjós, rétt eins og þau ár hafa komið þegar ekkert banaslys verður til sjós. Það er framtíð sem við þurfum að stefna að saman.

Síðustu ár höfum við séð fjölmörg dæmi þess hve mikilvægar rannsóknir eru til þess að treysta framtíð sjávarútvegs við Ísland, bæði til þess að skilja betur vistkerfi hafsins og öðlast meiri þekkingu á því hvers vegna breytingar verða, en ekki síður til þess að auka þau verðmæti sem sjómenn draga að landi. Til skamms tíma voru þúsundir tonna af roði fluttar úr landi sem hráefni fyrir loðdýraeldi. En á fáum árum hefur roðið hækkað í verði svo að það er ekki fjarstæðukennt að einhvern tíma kunni roðið að slá hnökkunum við í verðmætum. Þetta hefði ekki raungerst nema fyrir öflugar grunnrannsóknir og þekkingarleit. Önnur forsenda er vilji og geta sjávarútvegsins til að fjárfesta í nýsköpun, sem hefur skapað þau skilyrði að hér þrífst öflugur sjávarútvegur, mikill meirihluti afla er unnin hér á landi og sívaxandi verðmæti verða til úr þeim afla sem landað er.

Þessari stöðu þurfum við að viðhalda til lengri tíma. Með því að fjárfesta í grunnrannsóknum og vinna markvisst að því að skilja hafið betur munum við bæta skilyrði fyrir nýsköpun og með því auknu aflaverðmæti. Það skilar sér í aukinni velsæld Íslendinga til lengri tíma og bættum hag sjómanna.

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar í dag sem og alla aðra daga.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra