Hátíðahöld sjómannadagsins í ár verða um margt sambærileg hátíðinni í fyrra, sem að sögn skipuleggjenda gekk vonum framar. Þrátt fyrir töluverða óvissu sökum faraldursins var engu að síður ákveðið að láta slag standa og boða til fjölskylduhátíðar á Granda, ákvörðun sem skipuleggjendur sjá ekki eftir enda mættu tugþúsundir og gerðu sér glaðan dag í blíðviðrinu. Ekki er því við öðru að búast en að öll geti fundið eitthvað við sitt hæfi á sjómannadeginum í ár.

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet Sveinsdóttir, sem hér sést, og Anna Björk Árnadóttir bera að öðrum ólöstuðum hitann og þungann af skipulagningu hátíðahalda sjómannadagsins. Í fyrra var fyrsta hátíðin eftir heimsfaraldur Covid og þótti takast afar vel. Mynd/Hreinn Magnússon

Það var þrautin þyngri fyrir Elísabetu Sveinsdóttur og Önnu Björk Árnadóttur, sem að öðrum ólöstuðum bera hitann og þungann af skipulagningu hátíðahalda sjómannadagsins, að undirbúa hátíðina í fyrra. Eins og aðrir skipuleggjendur viðburða þurftu þær að vera við öllu búnar.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar stóð enn yfir þegar skipulagning hófst, með öllum sínum samkomutakmörkunum og nándarreglum, og því ekki hlaupið að því að meta hvort og hvernig halda mætti viðburð sem tugþúsundir hafa sótt í gegnum árin.

Eins og í lygasögu
„Við renndum mjög blint í sjóinn í fyrra út af Covid,“ segir Elísabet. „Við vorum með plan B á bak við eyrað ef veiran myndi skjóta upp kollinum aftur, en við sluppum blessunarlega við það.“ Öllum samkomutakmörkunum var aflétt á fyrra hluta ársins og létu ekki sjá sig aftur.

„Við vonuðum það besta – en við fengum líka það besta. Dagurinn gekk eins og í lygasögu.“

Það er ekki ofsögum sagt. Ekki aðeins buðu veðurguðirnir upp á blíðskaparveður heldur var mætingin framar björtustu vonum.

Óformleg talning gaf til kynna að allt að 40 þúsund manns hefðu lagt leið sína á hátíðarsvæðið á Granda og segir Elísabet að svæðið hafi borið fjöldann vel. Þessum
fjölda hafi þó óneitanlega fylgt ákveðin úrlausnarefni.

„Ef það er einhver einn lærdómur sem við getum dregið af hátíðinni í fyrra þá er það að huga betur að umferðinni út af Grandanum. Það myndaðist smá teppa þegar mannfjöldinn yfirgaf svæðið eftir hátíðina og því munum við hvetja fólk til að taka strætó, leggja nnars staðar, labba út á Granda eða taka Hopp-hjól – en að öðru leyti klikkaði hreinlega ekkert í fyrra,“ segir Elísabet.

Vönduð og metnaðarfull dagskrá
Hátíðahöldin í ár verða með svipuðu sniði og í fyrra og aftur verður stuðst við hið sígilda nafn Sjómannadagsins, í stað heitisins Hátíð hafsins sem notað var um nokkurra ára skeið.

Sjómannadagsráð, Faxaflóahafnir og Brim standa sem fyrr að hátíðinni og í ár fellur það í skaut tónlistarmanninum Jóni Jónssyni að stýra dagskránni úti á Granda.

Elísabet segir að það hafi komið bersýnilega í ljós í fyrra hvað Sjómannadagurinn er mikil fjölskylduhátíð. Allir aldurshópar hafi sótt hátíðahöldin á Grandanum, jafnvel fjölmargir ættliðir úr sömu fjölskyldunni, og skipti þá engu hvort gestirnir hefðu einhverja tengingu við sjómennsku.

„Við erum ekki aðeins að heiðra sjómenn og þennan mikilvæga atvinnuveg heldur erum við einnig að svala forvitni fólks. Fólk virðist almennt vera mjög áhugasamt um sjávarútveg en gerir sér sjaldan ferð niður á höfn,“ segir Elísabet.

Þess vegna sé svo mikilvægt að mati skipuleggjenda að hátíðahöldin einkennist ekki aðeins af skemmtiatriðum heldur þurfi dagskráin einnig að vera ákveðin upplifun sem fólki bjóðist færi á að taka þátt í.

Elísabet segir að dagskráin í ár verði því bæði vönduð og metnaðarfull. Eftir messu í dómkirkjunni verði sjómenn heiðraðir í Hörpu og að kaffisamsæti loknu verði marserað í skrúðgöngu út á hátíðarsvæðið á Granda. Meðal þess sem þar verður í boði í ár eru ýmsir fastir liðir á Sjómannadeginum; eins og reiptog, koddaslagur, keppni í sjómanni og dorgi, furðufiskasýning, fiskisúpa í boði Brims, harmonikkuleikur, þyrlubjörgun á sjó og fjöldi annarra skemmtiatriða. Þá verður aftur boðið upp á tvo dagskrárliði sem nutu óvænt mikilla vinsælda í fyrra: klifurvegginn sem slútir yfir sjóinn sem og siglingu með varðskipi Landhelgisgæslunnar.

Elísabet segir að aðsóknin í siglingu hafi verið slík í fyrra að ákveðið hafi verið að hafa enn fleiri ferðir í ár þannig að sem flest geti kynnst þessum mikilvæga tækjakosti.

Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána má nálgast í Sjómannadagsblaðinu og á vef sjómannadagsins.

Elísabet segist vona að sem flest sjái sér fært að taka þátt og fagna sjómannadeginum saman.

„Það væri óskandi að við fengjum aftur jafn gott veður og í fyrra en við vonum að fólk láti ekki veðrið á sig fá. Það væri enda í anda sjómanna að fara niður á höfn í brjáluðu veðri,“ segir Elísabet og hlær.

»» sój

Aríel Pétursson

Aríel Pétursson er formaður Sjómannadagsráðs. Mynd/Hreinn Magnússon

Tækifæri til að fagna framförum

Þrátt fyrir að sífellt minnkandi hluti þjóðarinnar starfi við sjávarútveg segir Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, að enn sé fullt tilefni til að fagna sjómannadeginum. Sjávarútvegur sé enn gríðarlega mikilvægur atvinnuvegur, ein af þremur stoðum íslensks efnahags, og að hann standi enn styrkum stoðum þrátt fyrir margvísleg efnahagsleg áföll á undanförnum áratugum.

„Við stöndum framarlega á heimsvísu á þessu sviði og við eigum að vera óhrædd að tala um það. Við erum ofboðslega góð í sjómennsku,“ segir Aríel.

Vísar hann þar meðal annars til allrar þeirrar nýsköpunar sem á sér stað í íslenskum sjávarútvegi; hvort sem það er í veiðiaðferðum, vinnslu, meðhöndlun eða frystingu.

„Þessi nýsköpun er orðin útflutningsvara í sjálfu sér, rétt eins og afurðirnar,“ segir Aríel. Þrátt fyrir að hefðirnar séu í fyrirrúmi á sjómannadaginn er dagurinn jafnframt kjörið tækifæri fyrir fólk til að kynnast öllum þessum nýju og spennandi öngum sjávarútvegarins.

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.