• Happdrætti DAS sneri vörn í sókn eftir ágjöf í kjölfar þess að Lottóið hóf göngu sína • Nýafstaðin eru framkvæmdastjóraskipti hjá happdrættinu • Happdrættið hefur skilað miðaeigendum 30 milljörðum króna að núvirði í vinninga

Tímamót urðu hjá Happdrætti DAS í maí þegar Valgeir Elíasson viðskiptafræðingur tók formlega við starfi framkvæmdastjóra happdrættisins af fráfarandi forstjóra, Sigurði Ágústi Sigurðssyni, sem gegndi starfinu í hartnær 33 ár, frá árinu 1990. Ráðning Sigurðar, sem verið hafði yfirbókari Hrafnistu í tvö ár þegar hann var ráðinn, markaði einnig tímamót og voru mikilvæg.

Komið hafði til tals í stjórn Sjómannadagsráðs, eiganda þess, að leggja reksturinn niður, svo erfiður var hann orðinn eftir að Lottóið hóf innreið sína á markaðinn 1986.

Sigurður sneri vörn í sókn, enda kappsmaður mikill og fyrrverandi handboltakempa, og í dag blómstrar happdrættið sem aldrei fyrr. Segir Sigurður að í raun sé nú staða þess á markaðnum svipuð og forðum daga í kjölfar stofnunar þess árið 1954, svo mikilla vinsælda njóti happdrættið meðal almennings. Munurinn sé þó sá að nú séu í umferð áttatíu þúsund miðar í eigu landsmanna um allt land og í Færeyjum, en voru aðeins 35 þúsund á fyrstu árunum.

Vöxturinn verður ekki aðeins rakinn til fólksfjölgunar heldur ekki síður til sífelldrar vöruþróunar og nýjunga undir stjórn Sigurðar undanfarna áratugi sem leitt hafa til stóraukins áhuga á að eiga ávallt miða í Happdrætti DAS.

Sjómannadagsráð sterkur bakhjarl
„Staðan var orðin mjög erfið þegar ég kom að verki, búið að segja upp öllu starfsfólki. Ég þurfti eiginlega að byrja frá grunni og ráða nýjan mannskap, enda er svona rekstur aldrei eins manns verk. En ég var staðráðinn í að snúa vörn í sókn og þegar ég lít til baka hefur stjórn Sjómannadagsráðs staðið við bakið á mér í öllum tillögum sem ég hef borið fram í viðleitni til að viðhalda og auka áhuga miðaeigenda og raunar landsmanna allra á happdrættinu með alls konar nýbreytni á sviði happdrættisvinninga. Slíkt er ekki sjálfgefið,“ segir Sigurður Ágúst.

Spennandi vinningar í boði
Og það má segja að ekki hafi skort á hugmyndaauðgi forstjórans, þar sem glæsilegar bifreiðar voru m.a. í aðalvinning í mörg ár, sem vöktu mikla lukku. Slíkt vöruhappdrætti á sér þó fyrirmynd frá upphafsárum happdrættisins, þegar hér var enn ríkjandi bændamenning og gjaldeyrishöft og má því segja að ekki hafi komið annað til greina en fjölbreyttir vöruvinningar á borð við dráttarvélar, báta og jafnvel verðlaunahesta með öllum reiðtygjum og fleira til að höfða til íbúa í sveitum landsins.

Fyrir höfuðborgarbúana heilluðu fremur glæsilegar íbúðir, í senn einbýli, blokkaríbúðir og raðhús en til að mynda úthlutaði DAS alls tuttugu og fimm einbýlishúsum á þeim tíma sem vöruhappdrættið var við lýði auk annarra tegunda íbúðarhúsnæðis.

Blés Sigurður nýju lífi í þá fjölbreytni sem var á fyrstu árunum auk nýrra leiða til að hreppa vinning í DAS.

„Við fluttum inn fjölda glæsilegra bifreiða sem stórjók söluna hjá okkur; byrjuðum á kaupum á glæsilegum fornbíl frá Bandaríkjunum Chevrolet Bel Air, í tilefni 50 ára afmælis DAS, sem var auk þess með 700 þúsund krónur í skottinu á tvöfaldan miða og svo komu fleiri bílar í kjölfarið; lúxusbílar á borð við Mercedes-Benz, Lexus, Hummer, Audi og Mustang sem einnig var með andvirði bílsins  skottinu, heilar þrjár milljónir króna á tvöfaldan miða vinningshafans. Einnig mætti nefna glæsilegt mótorhjól af stærri gerðinni, sem einnig var meðal glæsilegra vinninga á þessu tímabili svo nokkuð sé nefnt.“

Mikilvægur bakhjarl Hrafnistu
Happdrætti DAS hefur frá upphafi verið mikilvægasti bakhjarl Hrafnistuheimilanna við Brúnaveg í Reykjavík og Hraunvang í Hafnarfirði við fjármögnun uppbyggingar og hin síðari ár við viðhald á húsnæði Hrafnistuheimilanna tveggja, sem eru að fullu í eigu Sjómannadagsráðs. Að núvirði hefur Happdrætti DAS skilað eiganda sínum um níu milljörðum króna frá upphafi, þar af fimm frá árinu 1990, sem varið hefur verið til uppbyggingar á Hrafnistu utan eins milljarðs króna sem happdrættið greiddi á grundvelli lagasetningar Alþingis þess efnis að happdrættið skyldi greiða 40% af hagnaði til Byggingarsjóðs aldraðra [nú Framkvæmdasjóður aldraðra]  árabilinu frá 1963 til 1987.

Árangurinn fyrst og fremst miðaeigendum að þakka
Þegar kemur að skilum til miðaeigenda í DAS er er um mun hærri upphæð að ræða, eða alls þrjátíu milljarða króna að núvirði.

„Því má ekki gleyma að þennan góða árangur er fyrst og fremst að þakka velvild og hugsjón landsmanna sem kaupa og eiga happdrættismiða í DAS. Fyrir utan von um góðan vinning, sem nóg er af hjá DAS, enda drögum við vikulega allt árið um kring, held ég að þátttakan sé ekki síst knúin áfram af ríkri hugsjón og skilningi landsmanna á nauðsyn þess að leggja sitt af mörkum í þágu aldraðra. Annars værum við ekki hér. Þúsundir landsmanna víða um land eiga miða í Happdrætti DAS og það gleðilega er að nú hin síðari ár hefur margt ungt fólk verið að bætast í hópinn,“ segir Sigurður.

Útibú DAS í Færeyjum
Færeyingar eru líka fjölmennur hópur miðakaupenda og hefur svo verið allt frá árinu 1994.

„Okkur þykir afar vænt um stuðning Færeyinga við happdrættið og þar með Hrafnistu. Á móti greiðum við hlutdeild af hagnaði til uppbyggingar á sviði íþrótta- og æskulýðsmála þar í landi en Happdrætti DAS er hið eina hér á landi sem starfar einnig utan landsteinanna og aflar þar með mikilvægs erlends gjaldeyris til þjóðarbúsins.“

Breyttir og enn spennandi tímar
Árið 1995 hóf happdrættið sölu á svokölluðum tvöföldum miða, þar sem tilgreindur aðalvinningur tvöfaldaðist að verðmæti þegar vinningurinn kom á númer miðans.

Fjórum árum síðar var svo ákveðið að fjölga árlegum útdráttum í 48 og svo í 52 ári síðar. Hvort tveggja féll í góðan jarðveg meðal landsmanna. Happdrætti DAS er eina flokkahappdrættið hérlendis þar sem dregið er vikulega árið um kring. Í hverjum mánuði eru dregnar út um og yfir 100 milljónirá um fimm þúsund miða.

„Það er mjög hörð samkeppni á happdrættismarkaðnum. Þess vegna létum við ekki staðar numið við fjölgun útdrátta heldur innleiddum beina útsendingu útdrátta í Ríkissjónvarpinu árið 2000. Árið 2004 fluttum við til landsins glæsilegan Chevrolet Bel Air árgerð 1954, sem var aðalvinningur það ár í tilefni 50 ára afmælis happdrættisins. Síðan bættum við um betur 2005 með nýjum lúxusbílum og ekki bara það, heldur voru bílarnir með fullt skottið af peningaseðlum fyrir vinning á tvöfalda miða og var peningaupphæðin samsvarandi virði bílanna frá viðkomandi umboðum. Þetta sló algerlega í gegn og salan jókst verulega næstu árin,“ segir Sigurður, sem nú hefur látið formlega af störfum og er tekinn til við ný verkefni utan vinnumarkaðar.

„Nú ætla ég bara að slaka á með fjölskyldunni – ætli ég byrji ekki á því að breyta bílskúrnum heima aftur í bílskúr, en hann hefur verið geymsla allt of lengi. Nú get ég farið að þrífa og bóna í rólegheitum óháður veðri og vindum,“ segir Sigurður og brosir.

Hlakkar til nýrra og spennandi verkefna
Valgeir Elíasson, nýráðinn framkvæmdastjóri Happdrættis DAS, þekkir vel til verkefna þess sem deildarstjóri bókhalds- og launadeildar Hrafnistuheimilanna undanfarin ár, þar sem tekjur frá happdrættinu eru mikilvægar í bókhaldinu. Valgeir er viðskiptafræðingur að mennt með M.a.cc. gráðu frá Háskóla Íslands, en hann hefur starfað hjá Hrafnistu undanfarin ellefu ár.

Fyrsta verkefni hans sem starfsmaður happdrættisins er að innleiða alveg nýtt og fullkomið tölvukerfi sem uppfyllir alla ítrustu öryggisstaðla með tilliti til persónuverndar.

„Fráfarandi kerfi rekur uppruna sinn til ársins 2006, þegar nýtt kerfi leysti af hólmi fyrsta kerfi happdrættisins sem vistað var hjá Raunvísindastofnun Háskóla íslands. Frá þeim tíma hafa verið nokkrar uppfærslur á núverandi kerfi, en nýja kerfið tekur mið af ströngustu öryggiskröfum sem settar eru í dag um leið og það felur í sér betri þjónustu við miðaeigendur og aukið öryggi í rekstri happdrættisins,“ segir Valgeir.

Enn fremur getur hann þess að ný og uppfærð heimasíða happdrættisins taki einnig mið af nýjum öryggiskröfum þar sem miðaeigendur geta m.a. skráð sig inn á „Mínar síður“ þar sem þeir geta breytt áskriftum sínum, bætt við miðanúmerum og svo framvegis.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur á síkvikum happdrættismarkaðnum, þar sem samkeppnin er afar hörð, að vera alltaf vakandi fyrir öllum nýjungum sem horfa til framfara og bættrar og enn öruggari þjónustu við við skiptavini,“ segir Valgeir, nýráðinn framkvæmdastjóri DAS, sem horfir spenntur til nýrra og spennandi verkefna hjá happdrættinu með áframhaldandi vöruþróun og spennandi vinningum, sem verið hefur aðalsmerki DAS frá upphafi.

Vinningslíkurnar mestar í Happdrætti Hjá DAS
Á yfirstandandi happdrættisári DAS, sem hófst 1. maí, er heildarfjárhæð vinninga 1.461.200.000 krónur, en alls verður dregið um 80 þúsund miðanúmer á happdrættisárinu.

Hjá DAS eru vinningslíkurnar mestar, enda er dregið í hverri einustu viku árið um kring. Mánaðargjaldið í DAS er aðeins 1.900 krónur á einfaldan miða og 3.800 á mánuði fyrir tvöfaldan miða. Kostar því hver útdráttur aðeins 475 krónur.

»» bv

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.