„Það verður að vera sjómannssögn í þessu viðtali. Bestu hafnirnar í heiminum í gamla daga voru þar sem voru fallegar konur og ódýrt vín,“ segir Markús Alexandersson, sem sigldi um öll heimsins höf laus og liðugur á sjötta og sjöunda áratugnum; fyrst á norskum tönkurum og fraktskipum. Hann heldur réttindum sínum við og segist tilbúinn í túr þótt orðinn sé 88 ára gamall. „Ég get skaffað læknisvottorð sé þess krafist,“ segir hann.
„Sumir halda því fram að þeir hafi alltaf verið að skoða söfn og sjómannakirkjur. Ég var ekki svoleiðis, ekki nema peningarnir væru búnir,“ segir Markús, sem nú verður heiðraður á sjómannadeginum í Hafnarfirði fyrir farsælan feril.
„Jú, ég hugsaði nú að ef maður lifði nógu lengi myndu þeir hengja eitthvað á mann – þótt maður hafi aldrei gert neitt af viti,“ segir Markús spurður hvort hann sé ekki stoltur. Sjómannslífið hófst þegar hann var aðeins sautján ára og elti ári eldri bróður sinn Friðrik til Noregs. Síðan hefur hann siglt um allan heim og skreytir heimilið bæði með íslenska og norska fánanum, enda finnst honum hann enn hálfnorskur.
„Ég hafði sem barn mikinn áhuga á landafræði. Ég man þegar ég las um Japan. Það festist í kollinum á mér að ég ætti aldrei eftir að koma til Japans. Nokkrum árum seinna var ég í Japan,“ segir Markús og hlær og sagan hefst fyrir alvöru.
„Ég ætlaði aldrei að verða sjómaður. Ég var atvinnulaus unglingur í kringum 1950. Það var svo mikill aumingjaskapur í samfélaginu svo að ég fór út til Noregs 1952. Sautján ára gamall, ungur og reiður maður.“ Bróðir hans hafði sagt að hann gæti landað starfi kæmi hann að vori til, norski flotinn væri það stór.
Komst á norskan tankara
„Ég sigldi með Norðmönnum 1952–1958 og þá voru samkvæmt norska sjómannafélagsblaðinu um 60 íslenskir sjómenn í norska flotanum. Norðmenn voru þá með fjórða stærsta flota veraldar og ég hef stundum sagt að þetta hafi verið stoltasti og flottasti flotinn,“ segir hann.
„Þetta var mjög gott líf,“ lýsir hann og því hvernig hann fékk vinnu á 16 þúsund tonna tankara, Etnefjell, sem tæpum tveimur áratugum seinna, árið 1968, varð eldi að bráð á hafi úti og aðeins þrír af 30 komust af.
„Við sigldum út um allt. Við vorum vestur í Ameríku, austur í Japan og allt þar á milli.“ En sá hann þessi lönd eða aðeins hafnirnar? „Við sáum bara það sem var næst höfninni en stundum voru sjómannakirkjur með skoðunarferðir.“ Lífið hafi orðið miklu skemmtilegra þegar hann komst á fraktara vorið 1953.
Saga Markúsar er ævintýraleg. Margrét Aðalheiður Friðriksdóttir móðir hans var ættuð úr Hnífsdal en faðir hans, Alexander MacArthur Guðmundsson, fæddur í Winnipeg og fékk millinafnið frá skoska lækninum sem tók á móti honum. Þangað flutti afi hans með fjölskylduna aldamótaárið 1900.
„En afi minn eirði aldrei í Winnipeg og flutti heim aftur þótt amma vildi það ekki.“ Þau fluttu út með einn son og annan á leiðinni og eignuðust þar tvo til viðbótar áður en leiðin lá aftur heim.
„Afi minn fékkst við ýmislegt í Reykjavík en fór svo á Snæfellsnes og byggði þar Grund í Kolbeinsstaðahreppi eftir að hafa fengið fyrsta nýbýlalánið á Íslandi,“ segir Markús. En var amma hans lengi ósátt við heimkomuna? „Konur á þessum tíma urðu að sætta sig við það sem karlarnir gerðu. Þær gera það ekki í dag og segja okkur að fara til helvítis ef við erum ekki þægir.“
Vildi eignast fjölskyldu
Markús er kvæntur Guðrúnu Eygló Guðmundsdóttur hjúkrunarfræðingi. „Við eigum þrjú börn en ég á sex,“ segir hann. „Svo að ég er ríkur maður og á 27 afkomendur,“ lýsir hann. En á hann þá börn úti um allan heim?
„Nei, ekki svo ég viti,“ segir hann og hlær. „Það var þó ein í Suður-Afríku sem sagði: Give me a blonde baby,“ segir hann og lýsir því hvernig því hafi verið hótað að þeir færu í fangelsi eða yrðu húðstrýktir tíu höggum sænguðu þeir hjá svörtum konum á aðskilnaðartíma Suður-Afríku á árinu 1958.
„Við komum þangað með timburfarm frá Vancouver í gegnum Panamaskurðinn til Höfðaborgar. Stýrimaðurinn sagði þegar við komum í land að það þyrfti að þvo skorsteininn. Við sem fengum ekki frí létum ekki sjá okkur í þrjá daga sem tók að losa dallinn. Vissum að það væri ekki hægt að reka okkur. Hvar ættu þeir að fá annan mannskap?“ Leiðin lá til Durban í sama landi.
„Við sögðum við stýrimanninn að við myndum þvo skorsteininn þar,“ segir Markús og hlær. En náðu þeir að skoða heiminn á þessum ferðum sínum?
„Ólíkt flugfólki koma sjómenn alltaf bakdyramegin inn í þjóðfélögin. Við sjáum fátæktina,“ segir Markús, sem lýsir því hvernig gert hafi verið út á sjómenn í borgum á þessum tíma en nú ferðamenn. En það eru engin tattú á Markúsi? „Nei, ég tók aldrei tattú, hafði engan áhuga á því,“ segir Markús. „Menn voru að tattúvera sig, einn og einn.“
Hann hafi verið heppinn í Honolulu á Havaí þegar skipið sem hann var á tók olíu og stoppaði í nokkra klukkustundir. Hann fékk að fara í land. „Ég hafði fengið eyrnabólgu og var sendur til læknis. Ég fór með tvær stærstu ferðatöskurnar til að kaupa 33 cl bjórdósir.“ Inni á barnum hitti hann ameríska stúlku og þau spjölluðu á meðan barþjóninn fyllti töskurnar. Hún vildi hitta hann aftur um kvöldið.
„Kemur þú ekki aftur í kvöld? spurði hún og ég sagði: Alveg pottþétt. Ég hef oft sagt í gríni: Skyldi hún bíða enn?“
Tímamót í New York
Markús er á fleygiferð í lífinu, Guðrún Eygló að verða áttræð og þau á leið til New York af því tilefni. Markús lýsir því hvernig þau hafi næstum orðið Bandaríkjamenn — þó á sitthvorum tíma. Guðrún var komin með græna kortið þegar þau kynntust árið 1967 og hann nýkominn þaðan heim eftir að hafa varið árunum 1960–1965 á bandarískum bananaskipum United Fruit Company með heimahöfn í New York en sigldi undir fána Hondúras.
„Hún fór út og starfaði í átta mánuði áður en hún kom heim,“ segir hann. „Og það var nú eitthvað út af mér, já, já.“ Bróðir hans hafði einmitt fengið hann til Bandaríkjanna rétt eins og Noregs á unglingsárunum. „Þá var hann stýrimaður á bananabátunum og ég fór út og reiknaði með að verða Ameríkani,“ segir hann og lýsir líferninu um borð.
„Þetta var lúxuslíf. Okkur var þjónað til borðs og fengum steikina eins og við vildum hafa hana, sem og eggin; allt voða flott en ég sá að yrði ég þarna um borð myndi ég ekki eignast neina fjölskyldu. Það var svo lítið um frí. Maður yrði bara þarna um borð og yrði að vera laus og liðugur,“ segir hann og lýsir því hvernig landkrabbaárin hafi ekki lagst vel í sig.
„Ég var með veitingarekstur og ísbúð; Ísborgina í Austurstræti,“ segir Markús og að hann hafi varið átta árum í landi áður en sjómannslífið kallaði aftur á hann. „Ég var orðinn leiður á þessum rekstri. Ætli megi ekki segja að það hafi verið kulnun í starfi,“ segir hann og hvetur fólk til að skipta um starf finni það fyrir leiða. „Mér flökraði við að fara í vinnuna og fór þá að hoppa um borð og leysa af. Svo ári seinna réði ég mig í fast starf.“
Markús varð skipstjóri á dæluskipinu Perlunni. „Þá hafði ég leyst af um veturinn á fyrsta Herjólfi. Ég var því um borð þegar fólkið byrjaði að flytjast til baka eftir gosið,“ segir hann og hvernig hann hafi fengið tækifæri til að spjalla við eldra fólk sem hafði misst allt og var að koma heim aftur í fyrsta sinn eftir þessar náttúruhamfarir.
„Eftir að hafa talað við þetta fólk fór ég að hugsa um rannsókn sem ég las í Bretlandi um mestu áföll í lífi fólks. Það mesta er dauðsfall í fjölskyldunni en það næstmesta að vera þvingaður til þess að flytja eins og gerðist þarna. Ég hef oft hugsað að margt þetta fólk hafi dáið fyrir tímann út af þessu áfalli. Það væri áhugavert að sjá það kannað.“
Markús horfir til baka. Margar eftirminnilegar stundir og undursamlegt að koma til Asíu; Japan, Hong Kong, Filippseyja, Singapúr. „Þessi lönd voru paradís sjómannsins fyrir 60–70 árum,“ segir hann. Var það veðrið, maturinn?
„Já, og stelpurnar,“ segir Markús. „Og þar var ódýrt. Við lifðum eins og grósserar.“ Hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Drukkið menninguna í sig. Listmunir í búðargluggunum. Útskorið fílabein. „Maður stóð stjarfur fyrir utan en átti ekki pening til að kaupa,“ segir hann og lýsir því hvernig launin hafi verið lág þessi fyrstu ár.
„Í Noregi gat maður beðið útgerðina að taka vissan hlut og leggja inn á banka. Það safnaðist saman,“ segir hann og hvernig hann hafi unnið í 4–5 klukkustundir fyrir dollaranum sem dekksdrengur í upphafi sjómannsára sinna.
Hafið eða fjöllin?
En svo kemur maður alltaf heim. Markús lýsir því hvernig afi hans hafi sagt þegar hann sá fjöllin hverfa á leið sinni til Winnipeg: „Ég kem aftur.“ Hann hafi svo mætt mótstöðu þegar hann mætti aftur og menn upplifað að hann væri kominn aftur til að taka af þeim vinnu.
Markús kom einnig aftur. Ekki út af fjöllunum, heldur vegna þess að hann átti góða foreldra og vini sem hann náði að sameina sjómannslífinu. „Þau toguðu í mig.“ Og hann heldur í sjómennskuna. Sigldi í fyrra um Panamaskurðinn.
„Ég fór með Axel Jónssyni með skipið Janus og hét Börkur NK sem seldur var til Mexíkó,“ segir hann nú á 89. aldursári. Finnur hann ekkert fyrir aldrinum?
„Nei, mér finnst ég ekkert vera gamall. Er með starfsþrek og allt,“ segir hann nú þegar aðeins hefur verið tæpt á því helsta á löngum starfsferli. „Ef maður er stýrimaður verður maður að geta tekið til höndunum. Það er ekkert hægt að hafa stýrimann sem getur ekki unnið.“ Hann hafi öll réttindi.
„Og ég fór í Slysavarnaskóla sjómanna fyrir tveimur árum. Ég er því með réttindi í þrjú ár. Ef einhver vill fá mig til að sigla get ég skaffað læknisvottorð. Ég flýg í gegnum það.“
En er eitthvað sem Markús hefði viljað breyta á langri ævi? „Það var nú einhvern tímann sagt að lífið væri núna. Það er núna. Ég hef náð að lifa því þannig. Hef aldrei haft minnstu áhyggjur, aldrei nokkurn tímann. Mig hefur alltaf klæjað að komast af stað.“
»» gag
Togaragengið hittist í hverjum mánuði
„Er ég að tala við draug?“ spyr Jón Hjartarson þegar hann hringir í gamlan skipsfélaga sinn af Aski á áttræðisafmæli hans.
„Ja, þetta er þá lifandi draugur,“ svarar Markús Alexandersson úr bústað á Bifröst. Þeir Jón og Markús voru saman á sjó og fóru til að mynda saman í fyrsta túr með Aski að Nýfundnalandi eftir að skipið Júlí fórst með 30 mönnum. „Toppskip Askur og ég komst þarna um borð í gegnum Guðmund Ásgeirsson vin minn og skólabróður sem stofnaði Nesskip.“
Jón vildi að þeir Askarar, þeir sem voru á Askinum 1959, hittust. Fjölmennt var í fyrstu en svo þynntist hópurinn. „Svo að ég stofnaði félagsskap sem heitir Tekið í blökkina,“ en blökkin hafi horfið með skuttogurunum. Hópurinn hittist enn einu sinni til tvisvar í mánuði og 15–20 manns í einu. Nú eru breyttir tímar.
„Já, nú þegar skuttogaramennirnir koma í félagsskapinn gengur ekki að tala um síðutogara og ég hef því breytt nafninu í Togaragengið og hef nafnið frá Hilmari Snorrasyni, skólastjóra Slysavarnaskólans.“
Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments