Hálfdan Henrysson á áhugaverðan starfsferil að baki. Hann hefur skorið trossur úr skrúfum skipa og verið sprengjusérfræðingur Gæslunnar eftir veru hjá bæði danska og bandaríska hernum. Þá barðist hann í þorskastríðunum. Hálfdan settist í Sjómannadagsráð árið 1993 og var formaður þess á árunum 2017–2021 og fetaði þar í fótspor föður síns.

Já, ég var yfirstýrimaður á togaranum Baldri, sem lenti í miklum árekstrum í þorskastríðunum,“ segir Hálfdan hæglátur.

„Við skárum upp síðuna á einu herskipanna og lentum á vínbar þess. Mikið af innréttingum og húsgögnum flaut út um gatið, sem og mynd af Filippusi prins,“ lýsir hann einni orustunni myndrænt. „Það var reyndar málverk af honum.“

Breskir fjölmiðlar hafi greint frá: „Já, undir fyrirsögninni Prince Philip lost in action.“

Hálfdan lýsir því að það hafi þótt mikið afrek að reka breska skipið heim, en það var vart í haffæru ástandi eftir áreksturinn.

„Þetta voru vel vopnuð herskip og hefði þeim verið beitt hefði ekki verið spurt að leikslokum,“ lýsir hann þessum pólitísku rimmum við Breta um fiskveiðiréttindi við Íslandsstrendur sem stóðu til ársins 1976. Spenna hafi einkennt mannskapinn.

„Já, hún fór misjafnlega í menn.“

Hann beinir strax málinu frá tilfinningum að skrokk skipsins. „Við fundum að Baldur hafði ýmislegt umfram hin varðskipin þegar við höfðum lært á hann. Hann var lipur, mjögsterkur og hægt að nota í margt.“

Í fótspor föðurins
Mörg ævintýri einkenna langan og farsælan starfsferil Hálfdans. Hann vermdi stoltur formannsstól Sjómannadagsráðs í fimm ár eftir áratuga setu í stjórn, allt frá 1993.

Þar sat einnig faðir hans Henry Alexander Hálfdanarson, einn stofnenda og formaður til ársins 1961 í 23 ár. Sjómennskan hafi verið innrætt frá blautu barnsbeini í sex systkina hópnum.

„Við bræðurnir byrjuðum allir á síðutogurum því pabbi taldi að það yrði enginn að manni nema að fara á síðutogara. Svoleiðis var það bara,“ segir hann þar sem við sitjum við langt fundarborð í fundarherbergi inn af matsal Hrafnistu í Laugarási, húsi sem faðir hans barðist fyrir að byggja á fjórða áratugnum.

„Og fyrst var flutt inn í það árið 1957,“ segir Hálfdan og segir frá því hvernig safnað hafi verið fyrir húsinu í kappi við verðbólguna.

Faðir hans og félagar í Sjómannadagsráði hafi verið stórhuga og náð farsælum árangri. „Svona menn eru því miður ekki margir til í dag,“ segir Hálfdan og hlær góðlátlega.

„Þeir reistu þetta hús sem þá var það stærsta í Reykjavík.“

Innflutningshöft töfðu bygginguna en þeir nutu sérstakrar vináttu Ólafs Thors forsætisráðherra.

„Þeir leituðu til hans um leyfi til að reka happdrætti og hann gekk í málið og keyrði í gegn í báðum deildum Alþingis á einum degi.“

Happdrætti DAS hefur dafnað síðan. „Það var dregið um ameríska lúxusbíla sem ekki voru fluttir inn á þeim tíma og Ólafur gaf leyfi fyrir,“ segir Hálfdan. Bátar, hestar og trillur voru meðal vinninga og menn leituðu allra leiða til að safna fyrir Hrafnistu. „Þetta gekk ekki allt átakalaust enda umsvifin mikill.“

Hann lýsir dýragarði sem þeir komu á fót í Örfirisey.

„Það muna ekki margir Reykvíkingar eftir honum lengur en þar voru ísbirnir, selir, apar og alls konar kvikindi. Fleiri muna líklegast eftir vinsælum kabarettsýningum í Austurbæjarbíói í allmörg ár. Þetta skilaði umtalsverðum hagnaði í kassann og sjómenn og útgerðarfyrirtæki hétu á starfsemina.“

Með ullarvettlinga í stríði
Hálfdan byrjaði hjá Eimskipafélaginu sem messastrákur milli bekkja í gagnfræðaskóla árið 1959, þá 15 ára. Hann fór svo að loknu gagnfræðaprófi á togara og nokkrum mánuðum síðar á varðskip.

„Ég var sextán ára þegar ég kom til Gæslunnar,“ lýsir hann.

„Bræður mínir Henry og Haraldur voru á Hvalfelli og ég á Mars, togurum frá Reykjavík. Yngsti bróðir minn Þorsteinn var á Júpíter, sem var síðasti togarinn sem Tryggvi Ófeigsson átti hér í Reykjavík.“

Henry faðir hans hafi sjálfur verið loftskeytamaður í tvo áratugi, meðal annars á Hannesi ráðherra sem strandaði á Músaskeri undan Kjalarnestöngum.

„Þá fór hann ekki á togara meira, en var stríðsárin á Súðinni, gömlu strandferðaskipi í eigu Skipaútgerðar ríkisins, þangað til hann fór í land.“ Komum að því síðar.

Þrjár lotur í þorskastríðunum og Hálfdan lýsir því þegar þeir voru á Hornbanka í þeirri annarri á árunum 1972–1973.

„Þar var fullt af togurum og við á Alberti. Hann var ekki mikið gangskip. Við stoppuðum og létum reka innan um þessi bresku skip til að reyna að halda þeim frá veiðum. Þá kom risastór dráttarbátur, Statesman eða Lloydsman en ég man ekki hvor var, og lagðist upp að okkur. Karlarnir langt fyrir ofan okkur og horfðu niður á okkur. Svo settu þeir af stað og slógu afturendanum utan í hjá okkur. Þeir höfðu alla yfirburði þar og hefðu getað sökkt okkur með einu skoti.“

Bresku herskipin voru vel vopnum búin og menn gallaðir upp eins og á eldflaugaskotpöllum.

„Okkur leist ekkert á þetta en ég var með duglegum skipstjóra, Höskuldi Skarphéðinssyni, sem var mikill þjóðernissinni og setti alltaf upp ullarlopavettlinga þegar hasarinn, sem stóð oft í nokkrar klukkustundir, byrjaði. Hann var í glugganum í brúnni með þessa vettlinga,“ segir Hálfdan og hlær.

En þarna var hann í lífshættu? „Já, þetta var svolítill hasar á köflum,“ viðurkennir hann. „En menn reyndu að hafa öryggi skipanna í fullkomnu lagi og fólk var þjálfað yrðu árekstrar,“ lýsir hann.

„Toggálgarnir og lunningarnar voru keyrð af okkur. Skipið var rosalega skemmt en gert var við það að loknum átökum og það varð hafrannsóknaskip.“

En hvernig var að fá svona högg á skipið? „Maður þurfti að halda sér,“ lýsir hann. „En mest voru átökin þegar við rifum upp síðuna á freigátunni HMS Diomede. Hnykkur kom á skipið þegar hvert stálbandið slitnaði af öðru. Það er ógleymanlegt.“

Bretarnir hafi ekki hafa þorað að nota vopn.

„Þá var varnarliðið hérna og búið að segja þeim að staða herstöðvarinnar í Keflavík lægi undir við harðnandi átök.“

Minnisvarðinn glæsilegi
Þótt Henry faðir Hálfdans hafi lagt mikla áherslu á sjómennskuna var hann kominn í land þegar Hálfdan fæddist. Honum var umhugað um sjómenn og tók við sem framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands.

„Um miðjan fjórða áratuginn byrjaði hann að vinna að stofnun sjómannadagsins.“

Hann hafi sem formaður Félags íslenskra loftskeytamanna beitt áhrifum sínum til að koma á degi til að minnast þeirra sem höfðu farist við sjómannsstörf og fengið fjölmörg sjómannafélögin í lið með sér. Dagurinn hafi allt frá fyrstu tíð, árið 1938, notið mikilla vinsælda.

„Þetta var mesti hátíðisdagurinn á árinu,“ lýsir Hálfdan. „Og það fór aldrei á milli mála hvenær sjómannadagurinn var því þá vorum við öll systkinin send út að selja merki og blöð og taka þátt í deginum.“

Fyrst hafi sjómennirnir barist fyrir minnisvarða um sjómenn en svo hafi hugmyndin þróast í að reisa hvíldarheimili fyrir aldraða sjómenn. „Varla verður minnisvarðinn glæsilegri.“

Sjómannsræturnar eru djúpar þótt Hálfdan sjálfur hafi ekki orðið fiskimaður. „Mamma átti tíu systkini, þar af sjö bræður sem allir voru til sjós. Okkur var haldið vel við efnið,“ segir hann og að aðbúnaðurinn á togurum hafi orðið til þess að varðskip og farskip hafi orðið fyrir valinu.

„Þótt þessir síðutogarar hafi ekki verið nema tíu ára gamlir þegar ég var að feta mín fyrstu skref var þar lítil eða engin aðstaða til baða. Fara þurfti út til að komast frá lúkörum aftur í borðsali. Þetta voru blaut skip og oft þurfti að sæta lagi til að fara í matinn.“

Um haustið 1960 steig hann um borð í varðskipið Óðin, sem komið glænýr á miðin þá um vorið, og var á því skipi í nokkur ár. Þá færðist hann í það hlutverk að verða bílstjóri hjá Landhelgisgæslunni um skeið; sótti meðal annars áhöfn gæsluflugvélarinnar fyrir flugferðir sem oft voru farnar að næturlagi.

„Ég varð þá jafnframt sendill hjá Pétri Sigurðssyni, forstjóra Gæslunnar, og bílstjóri á Volkswagen rúgbrauði. Því fylgdi bílstjórahúfa sem ég setti aldrei upp,“ segir hann og hlær. Það hafi komið sér vel að þekkja Pétur þegar hann gegndi til að mynda fyrstu stýrimannsstöðunni á varðskipinu Ægi 1, eða Ægi gamla, sem hafi verið leigður Hafrannsóknastofnun árið 1966 í síldarleit.

„Ég þekkti leiguprógrammið og vissi að skipið átti að vera í landi 29. maí 1966. Svo bólaði ekkert á skipinu en við konan mín Edda Þorvarðardóttir stefndum að brúðkaupi í þessari fyrirhuguðu inniveru. Allt var klárt en enginn brúðgumi. Hún hringdi í Pétur og spurði hvenær Ægir yrði í landi. „Hvað kemur þér það við?“ segir Pétur. Hún svarar: „Ég ætla að gifta mig.“ Hann svarar: „Við sjáum til.““

Skipið sigldi síðan inn átta um morguninn umsaminn dag.

„Ég komst til rakarans, búinn að vera mánuð úti á sjó, og Óskar Þorláksson gifti okkur í Dómkirkjunni samdægurs.“

Ekkert mátti gefa upp um ferðir skipsins fyrir fram og varðskipin fóru með leynd.

„Samskiptin við varðskipin voru á dulmáli og engin við áhöfnina. Við fengum ekkert að tala heim.“

En hvað finnst Hálfdani þá um stöðu Landhelgisgæslunnar í dag? „Ægir og Týr sem ég var lengi á og leysti af sem skipherra voru gangskip, dugleg skip. Mér finnst að varðskip megi ekki ganga minna en 20 sjómílur ef það á að vera tilbúið að fara á slysstað.“

Þá finnist honum fyrir neðan allar hellur að flugvél sem keypt hafi verið til björgunar- og gæslustarfa hér við land sé leigð úr landi.

„Það er ekkert vit í því og átti aldrei að gerast.“

Mikill kostnaður fari í að reka þyrluflota sem varnarliðið hafi áður gert. „Ég hefði viljað sjá öðruvísi, öflugri skipaflota sem sinnir grunnslóð eins og var áður.“ Búnaðurinn sé ekki í takti við hlutverkið.

Hálfdan og Haraldur Henryssynir

Hálfdan sést hér með bróður sínum Haraldi, en fimm ár eru á milli þeirra. Hálfdan segir bræður sína Henry og Harald hafa verið á Hvalfelli en hann á Mars, togurum frá Reykjavík. Yngsti bróðir hans Þorsteinn var svo á Júpíter. Mynd/Hreinn MagnússonÁtakanleg reynsla
Starfsferill Hálfdans er sannarlega vanalegur og við beinum athyglinni að tímanum þegar Hálfdan var kafari hjá Gæslunni. Þótt aðalvinnan hafi verið að skera úr skrúfum skipa komu átakanlegri verk inni á milli.

„Fyrsta starfið mitt sem kafara var ásamt öðrum að leita að líkum fjögurra sjómanna sem höfðu drukknað við Stokkseyri. Þeir voru að fara út í bátana sem lágu á legunni í slæmu veðri og báti þeirra hvolfdi.“

Hálfdan segir lítið hafa verið hugsað um sálgæslu á þessum árum.

„Sálræn kennsla var engin. Alls ekki eftir svona atburði.“ Hann hafi ekki setið með þetta áfall í sálinni enda þaulvanur allt frá æsku.

„Við systir mín vorum í koju í hjónaherberginu á Brávallagötu 4 þegar pabbi var forstjóri Slysavarnafélagsins. Hann tók símann upp á næturnar, nánast hverja einustu nótt,“ segir hann og hvernig þeir Henry og Pétur, þá var forstjóri Landhelgisgæslunnar, hafi ráðfært sig um að fá skip til björgunar eða annarra athafna.

Þrjú slys frá æskuárunum séu honum sérstaklega minnisstæð þar sem pabba hans hafi ekki gefist tími til að fara niður á skrifstofu sína í Hafnarhúsinu.

„Það er bruninn í Málmey á Skagafirði. Þá sást úr landi á Þorláksmessu að bærinn var að brenna. Hringt var í pabba,“ lýsir hann og hvernig faðir hans hafi talað við björgunarsveitina á Siglufirði, sem hafi útvegað bát til að fara í eyjuna sem var sambandslaus.

„Svo var björgunarafrekið við Látrabjarg. Þar fór fyrsta skipulagningin fram úr hjónarúminu,“ segir hann og nefnir svo leitina að týndum norskum selföngurum norður í hafi. Honum finnist menn gjarnan mega gera meira úr þeim afrekum. Margir selfangarar hafi týnst í ís og Slysavarnafélagið verið fengið til að skipuleggja leitir.

„Ekki minna en tíu flugvélar tóku þátt í þeirri leit dögum saman. Fjórar vélar komu frá Bandaríkjamönnum, þrjár frá Noregi, vél frá Kanada. Þá voru þrjár frá Flugfélagi Íslands, undanfara Icelandair. Það hefur ekki verið lítið fé.“

Enginn hafi fundist á lífi. „Ísinn braut allt niður og kramdi.“

Með netið flaksandi um sig
En aftur að köfun. Hann lýsir því hvernig netið flaksaði um allt þegar það var skorið úr skrúfunni.

„Menn urðu að passa sig að festast ekki í því. Við vorum með þessar stóru sveðjur og ekki einu sinni í líflínu. Það kom seinna þegar hert var á öryggisreglum.“ Hann hafi stundað þessa björgun í tíu ár og oft orðið hræddur.

„Já, ussussuss. Ég var oft skíthræddur þótt ég hafi kannski ekki lent í lífsháska. Það var ekki þægilegt að horfa í grængolandi dýpið en það létu sig allir hafa þetta.“

Sex til sjö kafarar hafi verið við störf hjá gæslunni, einn í hverjum túr, sem allir hafi auk þess verið stýrimenn.

„Svona verk gat tekið nokkra klukkutíma. Eftir að gerviefni kom í veiðarfærin var þetta eins og steypt hella og þá var farið að draga skip í höfn þar sem var rólegt. Það var vont að skera úr skrúfu þegar skipið var á mikilli hreyfingu.“

Þeir hörðustu voru hátt í klukkustund að í einu í marga klukkutíma.

„Þetta var mikil þjálfun og við vorum eftir okkur eftir þessa miklu áreynslu. Þetta var erfitt starf. Sumir voru rosalega duglegir. Ég kafaði með duglegum mönnum,“ segir hann og nefnir þá duglegustu Kristin Árnason, föður Auðuns Kristinssonar sem nú er hjá gæslunni, og Þorvald Axelsson sérstaklega.

„Þorvaldur var fyrsti skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna og líka svona harður af sér,“ segir Hálfdan hæglátur um þessa hættuvinnu þar sem einn lést við störf.

Hann var síðan sendur til danska hersins þegar hann var stýrimaður á Óðni. „Við vorum að nálgast Hornafjörð þegar beðið var um að ég kæmi í talstöðvar og þá var mér sagt að ákveðið hefði verið að ég færi til Danmerkur í vopnaskóla danska flotans.“ Hann sagði já og var sóttur daginn eftir og sendur til Kaupmannahafnar.

„Þar lærði ég að eyða hættulegum vopnum og leita í skipum og flugvélum. Þetta var allsherjarnám eins og sprengjusérfræðingar fara í,“ segir hann.

Leiðin lá síðan til bandaríska sjóhersins í bekk útlendinga.

„Þar var ég í bekk með þremur Ísraelum úr ísraelska flughernum, þremur sjóliðshermönnum úr egypska flotanum, þremur Jórdönum, tveimur Japönum og einum Filippseyingi. Okkur var sagt að þetta væri í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn reyndu að setja saman hóp af ólíkum þjóðernum. Þetta var flottur hópur og samkomulagið afar gott.“

Eiginkonan Edda og börnin bjuggu í íbúð á vegum ísraelska sendiráðsins í Washington við hlið þeirra ísraelsku. „Ísraelsku fjölskyldurnar fóru aldrei út fyrr en við komum heim á kvöldin, en það var vopnaður vörður við húsið allan sólarhringinn.“

Hálfdan lærði návígishernað og að eyða ýmiss konar gildrum. „En líka sprengjum úr stólum flugvéla sem skjóta sér upp. Að öðru leyti var þetta sambærilegt og hjá Dönum utan þess að þeir voru varkárari en Danir,“ segir hann og hlær.

„Í Danmörku fórum við í skjól við bílinn en í Bandaríkjunum fórum við inn í sérstaka tanka áður en við sprengdum.“

Saknaði fjölskyldunnar
Já, sjómannslíf, sjómannslíf. Margt hefur drifið á daga Hálfdans. Eftir að hann hætti hjá Landhelgisgæslunni réð hann sig til Siglingastofnunar, varð deildarstjóri hjá Slysavarnafélagi Íslands og yfirmaður Tilkynningarskyldu íslenskra skipa. Þá vann hann við skipaskoðanir í eigin fyrirtæki til 75 ára aldurs. Vert er að velta fyrir sér hvort Hálfdani með sín fjögur börn hafi stundum fundist hann missa af heimilislífinu á sjó?

„Já, mér finnst það og viðurkenni að ég öfundaði fólk sem gat verið heima hjá sér um helgar og sinnt börnunum, farið á skíði og stundað útiveru. Það er það sem ég sé eftir þótt mér hafi fundist sjómennskan skemmtilegt starf og gott að vera hjá Landhelgisgæslunni,“ segir hann eftir 26 ára sjómennskuna.

En er hann stoltur af ævistarfinu? „Ég hef verið mjög heppinn. Ég á góða fjölskyldu, duglega krakka og tengdabörn. Við vissum öll hvað það er gott að vera vel tengd saman og nú á ég sextán barnabörn. Ég get ekki verið annað en stoltur.“

»» gag

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.