• 90 ár eru liðin frá því að síðutogarinn Skúli fógeti strandaði við Staðarhverfið í Grindavík • Þrettán fórust en 24 björguðust • Viðbúnaður og vakt björgunarsveita auk notkunar fluglínu sönnuðu enn gildi sitt

Togarinn Skúli fógeti, eign útgerðarfélagsins Alliance, fórst á mánudagsnóttina í Grindavík og drukknuðu 13 menn, allir úr Reykjavík, þar á meðal skipstjórinn Þorsteinn  Þorsteinsson, en 24 skipverjar björguðust. Versta veður var þegar þetta átakanlega slys vildi til,“ sagði í knappri frásögn á forsíðu Dags á Akureyri 13. apríl 1933. Þá voru þrír dagar liðnir frá hörmulegu strandi síðutogarans Skúla fógeta skammt vestan við Staðarhverfið í Grindavík aðfaranótt 10. apríl. Aðrir höfðu gert atburðunum ítarlegri skil.

Skipið var að koma af veiðum þegar slysið varð, en ekki er vitað um aðrar orsakir strandsins en að veður var afar slæmt, snjóél gengu yfir í miklu roki og svartamyrkri.

Boð um strandið bárust í land þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í eitt um nóttina. Vegna þess að símasamband lá niðri leið þó alllangur tími þar til tókst að koma boðum um strandið til Grindavíkur. Það gekk þegar upplýsingum um strandið var útvarpað með veðurfréttum korter fyrir tvö um nóttina.

Alþýðublaðið segir svo frá daginn eftir strandið að þegar símstöðvarstjórinn í Grindavík, Karl Guðmundsson, hafi farið á fætur til að taka veðurfrétt, eins og hann þurfti að gera vegna róðra, hafi hann orðið þess vís að Skúli fógeti væri strandaður nálægt Grindavík.

„Klæddi hann sig þá í snatri og vakti upp björgunarliðið, og fór það  þegar að leita meðfram ströndinni,“ segir þar.

Í afmælisblaðinu „Útkall rauður“ sem gefið var út árið 2007 í tilefni af 60 ára afmæli Björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík segir í frásögn af atburðunum að Einar Einarsson í Krosshúsum, formaður slysavarnasveitarinnar á staðnum, hafi brugðist skjótt við og látið kalla saman björgunarliðið, sem hafi haldið af stað til að leita að skipinu, en menn hafi ekki vitað hvar það var. Klukkan var þá um þrjú og því nærri þrír tímar frá strandinu.

„Björgunarsveitin lagði af stað á bílum og hafði með sér línubyssu, 14 eldflaugar, 2 skotlínur í pökkum og eina grind, 170 faðma líflínu, um 400 faðma tildráttartaug með
halablökk, björgunarstól, þrífót og fjórskorna talíu,“ segir þar, en einnig var tekinn með meiri búnaður til vara.

Vegna fannfergis og erfiðleika við að komast yfir kom björgunarliðið ekki að strandstaðnum fyrr en rúmlega fimm um morguninn, þegar aðeins var farið að birta af degi. „En um háflóð og gekk stórsjór látlaust á skipið,“ segir í afmælisritinu.

Erfitt er að gera sér í hugarlund hvernig það hefur verið fyrir skipverjana að bíða björgunar þar sem þeir höfðu komið sér fyrir allan þennan tíma og eftir að hafa mátt horfa á eftir félögum sínum þar sem þá tók út af skipinu fljótlega eftir strandið.

Morgunblaðið lýsir því svo daginn eftir björgunina að eftir strandið hafi skipið brátt fyllst af sjó og um tuttugu mínútum eftir strandið hafi það sigið niður að aftanverðu út  af skerinu.

„Þá voru 23 menn af skipshöfninni á hvalbaknum, 12 á stjórnpalli en tveir höfðu klifrað upp í fremri reiðann.“ Skömmu eftir að togarinn seig niður hafi farið  ólög yfir stjórnpallinn „svo þeir sem voru í fremri reiðanum sáu, að stýrishúsið fór við og við alveg í kaf“ segir í blaðinu. Þrír skipverjar hafi komist af stjórnpallinum fram á hvalbakinn. „En sjór skolaði hinum brátt út.“

Þegar slysavarnadeildin kom á staðinn segir Morgunblaðið 22 hafa verið á hvalbaknum, en tveir verið í fremri reiðanum. Fjarlægð í skipið úr flæðarmáli var um 100 faðmar, eða nálægt 170 metrum. Björgunin gekk síðan hratt fyrir sig, en í annarri tilraun tókst með línubyssu að koma taug út á hvalbak skipsins. Tuttugu voru komnir í land klukkan átta um morguninn.

„Tveir menn voru þá eftir á hvalbaknum. Var staðnæmst með björgunina, því eigi þótti tiltækilegt að koma annarri línu úr landi til þeirra, sem í reiðanum voru. Heldur skyldi bíða að þeir kæmust úr reiðanum og fram á hvalbakinn til þeirra sem þar voru. Þetta tókst þegar nægilega mikið var fallið út,“ segir í frásögn Morgunblaðsins. „Var þeim fjórum síðan bjargað í land í bjarghring, eins og félögum þeirra, og var björgun þeirra lokið kl. 9.30.“

Fram kemur að jafnóðum og mennirnir komu í land hafi þeim verið komið fyrir að Stað og í Móakoti þar sem þeirra beið hressing og heit rúm, en þar voru þeir undir umsjón héraðslæknisins Sigvalda Kaldalóns.

Strax um nóttina sendi loftskeytastöðin líka út skeyti til veiðiskipa á Selvogsbanka og á fimmta tímanum var Hauganes fyrst á vettvang, en aðstæður þannig að engu var hægt að bjarga af sjó. Seinna komu þangað líka togarinn Geir og varðskipið Óðinn.

Í Morgunblaðinu 13. apríl 1933 var þeirra minnst sem fórust í strandi Skúla fógeta og birtar af þeim myndir. Magnús Jónsson, þingmaður Reykvíkinga og þá einnig  ritstjóri Stefnis, ritaði hugleiðingu undir myndunum. Þar segir í upphafsorðum:

„Það er hvorttveggja, að Ægir er stórgjöfull við íslensku þjóðina, enda krefur hann mikið í staðinn. Mannfórn á mannfórn ofan er honum færð við strendur landsins. Þetta virðist lítið breytast við bættan skipakost. Hann tók mannslífin af opnu bátunum, síðan af þilskipunum og nú af gufuskipunum. Enn í vetur hafa blóðtökurnar farið fram á mánuði hverjum. Og loks hefir nú sá atburður orðið, að alla setur hljóða, og það væri ekki kynlegt þó að þeir, sem um sárast eiga að binda, spyrðu: Er það sanngjarnt að við greiðum þetta voðalega gjald?“

Hann bendir líka á að unnið hafi verið björgunarafrek þegar 24 var bjargað úr skipinu og hvetur til þess að haldið verði áfram að huga að öryggismálum sjómanna:

„Miklu hefði hann að líkindum orðið voðalegri, ef ekki hefðu góðir menn og ötulir verið búnir að hefjast handa til varna og gagnsóknar, og því getað sótt í greipar heljarmeiri hluta þeirra, sem hún hafði sjer vígt. Er því vonandi, að enn verði hert á þessari sókn og vörn. Það, sem liðið er, verður ekki aftur kallað. En hitt er enn á voru valdi, að gera það, sem mannlegur máttur orkar til þess, að vernda líf þeirra, sem þjóðin sendir út í þessa hörðu baráttu fyrir heill hennar og lífsviðurværi.“

Togarinn Skúli fógeti var byggður fyrir Alliance í Beverley í Englandi árið 1920, að því er greint var frá í fyrstu frásögn Morgunblaðsins af slysinu. Skipið var sagt hið  vandaðasta, 348 brúttótonn. Um leið var bent á að Skúli fógeti hefði þá verið talinn tíundi eða ellefti íslenski togarinn sem farist hefði „síðan Leifur heppni fórst í  febrúarveðrinu mikla 1925“. Þá var bent á að með línubyssu þeirri sem Slysavarnadeildin í Grindavík hefði notað til að bjarga 24 skipverjum af Skúla fógeta hefði verið  bjargað alls 62 mönnum, með þeim 38 sem bjargað var við strand fransks togara austan við Grindavík í mars 1931.

»» óká

Úr frásögn Stefáns Benediktssonar stýrimanns

„Það munu hafa liðið um 20 mínútur frá því skipið strandaði, og þangað til það seig aftur á bak niður af skerinu. Um leið hallaðist það mjög út á þá hliðina er til hafs  vissi. Ég var þá staddur aftur á þilfari og var að slá botninn úr lýsistunnum, með Jóni Magnússyni háseta. Við vildum heldur fara í reiðann en í brúna, en treystumst ekki  til að ná hvalbaknum, því svo snögglega seig skipið niður. Við tókum því það ráð, að klifra í reiðann. Upphaflega var áformað að skipshöfnin öll færi fram á hvalbakinn.  En þeir 12, sem lentu í brúnni hafa orðið of seinir fyrir að komast fram á hvalbakinn, áður en skipið seig niður. Við, sem í reiðanum vorum, klifum svo hátt upp, að  öldurnar náðu okkur ekki, nema rétt þær hæstu skoluðu um fætur okkar. Við sáum vel til þeirra sem í brúnni voru. Sjór gekk svo hátt þegar í byrjun, að ekki örlaði á stýrishúsinu, þegar ólög voru sem hæst. Flestum þeim sem í brúnni voru skolaði brátt út. En þrír þeirra manna, er staðnæmdust í brúnni, komust lífs af fram á hvalbakinn. Einn þeirra fikraði sig áfram með borðstokk þeim, sem hærra bar á, eða hafði stuðning af borðstokknum. En tveir fetuðu sig með ljósaleiðslunni er lá frá  brúnni. Þeir, sem á hvalbaknum voru, gátu haldið sér í grindur á borðstokki, í fokkustagið, sem liggur frá hvalbak og í vindu sem á hvalbaknum var. En grindurnar voru  farnar að gefa sig, er björgun hófst, og viðbúið að þær brotnuðu þá og þegar.“

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2023. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.