Sjómannadagurinn er árlegur hátíðisdagur og hefur verið það í tæplega 90 ár. Hann er skemmtilegur á ýmsa kanta en engu að síður langt í frá upp á punt, heldur stöðug áminning um þátt sjómennskunnar í afkomu þjóðarinnar. Dagurinn hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem álíka fastur punktur í tilverunni og fullveldisdagurinn, þjóðhátíðardagurinn og baráttudagur verkalýðsins. Með mismunandi mikilli beinni og óbeinni þátttöku sameinast þjóðin í virðingarvotti við tilefni dagsins. Hún er meðvituð um það hvernig sjómennskan hefur um aldir, og reyndar allt frá landnámi víkinganna forðum, dregið mikilvægustu lífsbjörg þjóðarinnar í bú.
Ímynd sjómennskunnar frá árdögum hennar við Íslandsstrendur er samofin innsæi og glöggskyggni formanna áhafnanna, kjarki, áræðni og hreysti bátsverja, kærkomnum árangri í veiðiskapnum en því miður líka stórum fórnum þegar óveðursský hrönnuðust óvænt upp með hörmulegum afleiðingum. Þessarar löngu sögu stöðugrar sóknar á gjöful en viðsjárverð fiskimið við Íslandsstrendur minnumst við á þessum degi. Um leið þökkum við sjómönnum líðandi stundar fyrir það hvernig þeir halda enn á þessu fjöreggi þjóðarinnar af sömu elju og útsjónarsemi og áður fyrr.
Frá þessum árdögum íslenskrar sjómennsku hefur mikið vatn runnið til sjávar. Byltingarkenndar framfarir í skipakosti, tækni, aðbúnaði, öryggisþáttum um borð, tæknivæddum fyrirsjáanleika í veðurhorfum o.m.fl. valda því að daglegar áskoranir og aðsteðjandi hættur umfram fjölmargar aðrar atvinnugreinar heyra nánast sögunni til. Margt fleira hefur orðið til þess að auka öryggi sjómanna, fækka vinnuslysum og bjarga mannslífum. Þar hefur Slysavarnaskóli sjómanna, sem stofnaður var af Slysavarnafélagi Íslands sem síðar sameinaðist Landsbjörg, lyft grettistaki á undanförnum áratugum. Námskeið um öryggis- og björgunarmál eru haldin reglulega á öllum helstu útgerðarstöðum landsins auk þess sem Slysavarnaskólinn annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir alla nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi.
Af framangreindum ástæðum hafa öryggisþættir sjósóknarinnar gjörbreyst. Það er vel. Það sem hefur hins vegar ekki breyst, og mun væntanlega seint eða aldrei gerast, er að enn eru sjómenn í aðalhlutverki þeirrar verðmætasköpunar sem Íslendingar sækja í auðlindir hafsins. Án bátsmanna, háseta, skipstjóra, stýrimanna, vélstjóra og síðast en ekki síst kokkanna, sem oft eru reyndar einnig í hlutverki sálgæslumanna á borð við barþjóna, rakara og leigubílstjóra, kæmi einfaldlega engin branda úr sjó. Það væri mikil synd, þegar við eigum í 200 mílna landhelgi okkar ein allra gjöfulustu fiskimið Norður-Atlantshafsins og höfum einfaldlega heimsborgaralega skyldu til þess að nýta þau til fullnustu.
Enda þótt við höfum að mörgu leyti umgengist þessa gjöfulu en vandmeðförnu auðlind á undanförnum áratugum af tillitssemi við lífríki sjávar með sjálfbærni fiskveiðanna að leiðarljósi er langt í frá að hægt sé að líta á auðæfi hafsins í kringum landið sem einhvers konar eilífðarvél. Slík maskína hefur reyndar ekki enn verið fundin upp. Það steðja að lífinu í sjónum ýmsar hættur og um leið þeim stóra hluta sjómannastéttarinnar sem sækir sjóinn til þess að færa björg í bú.
Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar Íslendinga hefur fyrir löngu sannað ágæti sitt bæði hvað varðar sjálfbærni veiðanna og afkomu útgerðarinnar. Fyrir vikið skilar sjávarútvegurinn landsmönnum miklum tekjum á sama tíma og sjósókn víðast hvar um heiminn er studd umtalsverðum ríkisstyrkjum. Við getum því verið hreykin af stöðu mála enda þótt afgjaldið fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar orki tvímælis, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Deilurnar um það fyrirkomulag eru ekki á borði sjómanna. Þar hafa þeir enga aðkomu og bera enn síður ábyrgð á þeirri stöðu sem við blasir. Sú mikla gjá sem myndast hefur á milli þeirra sem eiga auðlindina og hinna sem nýta hana er súr veruleiki. Vonandi er að varanleg þjóðarsátt muni nást fyrr en síðar um regluverkið í kringum sjávarútveginn.
Það er sameiginlegt hagsmunamál sjómanna, þjóðarinnar og í raun heimsbyggðarinnar allrar að slegin verði skjaldborg um auðlindir hafsins. Í þeim efnum er í mörg horn að líta enda þótt súrnun sjávar, væntanlega sem afleiðing hlýnunar jarðar, beri þar hæst. Plastmengun í hafinu, blýmengun, alls kyns önnur mengun þungmálma og úrgangs o.m.fl. ógnar afkomu okkar og um leið fæðuöflun mannkyns. Eitt af verkefnum sjómannadagsins, jafnvel þó að hann sé gleðiríkur hátíðisdagur, er að auka meðvitund þjóðarinnar gagnvart mikilvægi þess að standa með öllum tiltækum ráðum vörð um þessa gjöfulu auðlind sem náttúran hefur fært okkur.
Í þeirri varðstöðu bera stjórnvöld mikla ábyrgð. Í gegnum alþjóðlegt samstarf sitt annars vegar og stýringu á sértækum aðgerðum innanlands hins vegar verða þau ávallt í aðalhlutverki þeirra aðgerða sem unnt er að grípa til. Útgerðin þarf að vera fús til samstarfs, enda eru hagsmunir hennar til lengri tíma litið afar miklir. Sjómenn leggja síðan sitt af mörkum með því að kappkosta eins vistvæn vinnubrögð og frekast er unnt. Með framlagi þeirra sannast reglan um að margt smátt geri eitt stórt. Með samhentu átaki þessara þriggja aðila, og órofa samstöðu þjóðarinnar að baki þeim, sannast vonandi líka hið fornkveðna um að margar hendur vinni létt verk.
Átökin í Úkraínu, ásamt verðhækkunum og mögulegum vöruskorti í kjölfar þeirra, eru enn ein áminningin um það hve mikilvægt það er að við hugum að sjálfbærni í matvælaframleiðslu okkar eins og kostur er. Óþarft mun að fjölyrða um mikilvægi sjávarútvegsins í þeim efnum. Enn leiðir það hugann að þætti íslenskra sjómanna, sem seint verður ofmetinn sem lykilatriði í lífsviðurværi og afkomu íslenskrar þjóðar.
Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs
Pistil formanns Sjómannadagsráðs er að finna á leiðarasíðu Sjómannadagsblaðsins 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments