Brynjólfur G. Halldórsson skipstjóri var 50 ár á sjó og hefur nú verið 20 ár í landi. Hann hefur marga fjöruna sopið og oft komist í hann krappan, til að mynda í hinu alræmda Nýfundnalandsveðri árið 1959 þegar Júlí fórst með 30 sjómönnum innanborðs. Brynjólfur ræðir atburðina, lærdóminn og ferilinn.

Brynjólfur Gunnar Halldórsson fæddist í Reykjavík árið 1937 og ólst upp í Laugarnesinu. Ekki verður annað sagt en að hafið hafi kallað á hann frá blautu barnsbeini, en Brynjólfur
minnist þess að hafa stolist út á sjó með vinum sínum þegar hann var aðeins níu ára gamall. Hann hafi í slagtogi við tvo vini sína á svipuðu reki sjósett bát sem þeir fundu í fjörunni skammt frá vinnustofu Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara.

„Þaðan drógum við bátinn á Kirkjusand, þar sem við sáum að það voru rifur í bátnum, sem við fylltum í með tvist,“ segir Brynjólfur. Öðrum strákum í hverfinu hafi ekki litist á blikuna þegar þeir sáu sjó í bátnum en það hafi ekki stöðvað þá félaga. Þeir hafi því ýtt úr vör og komist út á miðja ytri höfnina áður en þeim hætti að lítast á blikuna.

„Það var kominn sjór upp á hné og við byrjum því að ausa með stígvélunum okkar. Við veifuðum til skútu sem kom siglandi til okkar. Mennirnir um borð kölluðu á okkur: „Hvað eruð þið að flækjast?“ áður en þeir köstuðu til okkar fötu til að ausa með. Því næst drógu þeir okkur í átt að fjörunni áður en þeir tilkynntu okkur að við gætum róið restina,“ segir Brynjólfur. „Þannig bjargaðist þetta.“

Hann segist ekki hafa þorað að segja neinum frá svaðilförinni og það hafi ekki verið fyrr en hálfum mánuði síðar sem hann fékk tiltal frá föður sínum – „sem bað mig vinsamlegast um að þvælast ekki svona aftur,“ segir Brynjólfur og hlær. „Börn í gamla daga voru svo frjáls.“

Sextán ára gamall flæktist Brynjólfur með vini sínum til Sandgerðis, þar sem honum bauðst að vera kokkur um borð í Guðbjörgu. Þrátt fyrir að hafa enga reynslu af eldamennsku sló Brynjólfur til og greip gamla kokkabók frá Jóninnu Sigurðardóttur.

„Ég var alveg ægilega sjóveikur,“ segir Brynjólfur, en það kom ekki í veg fyrir að hann gæti eldað kjötsúpu ofan í áhöfnina. „Sama hvað ég gerði, ef það var
heitt þá var það í lagi.“

Allt fraus sem frosið gat
Samhliða því að klára nám við Stýrimannaskólann sigldi Brynjólfur á Ólafi Jóhannessyni, togara frá Patreksfirði, og togaranum Mars. Það var á síðarnefnda skipinu sem Brynjólfur lenti í einni minnisstæðustu atburðarás ævi sinnar, sem síðar hefur verið nefnd Nýfundnalandsveðrið.

Það var um vaktaskipti að kvöldi 9. febrúar 1959 þegar brast á aftakaveður N-NA af Nýfundnalandi í Kanada. Þar höfðu íslensk skip verið að veiðum við hinn svokallaða Ritubakka, þar á meðal Þorkell Máni úr Reykjavík, Harðbakur frá Akureyri, Vöttur frá Eskifirði og Mars, hvar Brynjólfur var um borð.

Þrátt fyrir að von hefði verið á slæmu veðri kom það skipverjum í opna skjöldu, aftakaveðrið brast á eins og hendi væri veifað og menn þekktu ekki til slíkrar ísingar.

„Við náðum að drífa trollið inn og þegar búið var að gera allt sjóklárt var farið að slóga og lóna upp í veðrið. Frostið var svo mikið og sjórinn var svo kaldur, mínus tvær gráður, vindurinn var um 10 vindstig. Við höfðum oft verið í svoleiðis roki áður, en frostið var svo mikið og sjórinn svo kaldur að það fraus nærri allt sem kom inn. Maður sá þegar pusið kom á brúna og það fraus, seig aðeins niður og svo var það fast. Svona hlóðst á skipið.“

Brynjólfur minnist þess hvernig allir vírar og kaðlar á Mars hlóðu utan á sig ís þannig að jafnvel grennstu spottar voru orðnir eins og faðmar að ummáli. Vanturinn á skipinu, sem var uppi á brúnni, var þannig orðinn einn klakabunki. „Allir voru því ræstir út til að berja klaka,“ segir Brynjólfur.

Dekkið var orðið ísilagt og skipið því mjög þungt, sem gerði allar veltur þeim mun dýpri og þyngri. „Við höfðum stundum bakborðsbeitivind til að fá pusið skáhallt yfir skipið svo það lenti ekki allt á brúnni. Ég var í því að reyna að halda einum glugga opnum svoleiðis að maður sæi út, allt hitt var orðið frosið. Baráttan um nóttina var í þessu, að halda skipinu vel til upp í veðrið.“

63 föðurlaus börn
Morguninn eftir tilkynnti loftskeytamaður að ekki hefði náðst samband við togarann Júlí frá Hafnarfirði. „Júlí svarar ekkert,“ hefur Brynjólfur eftir loftskeytamanninum og bætir við að þá hafi mönnum orðið ljóst að togarinn væri farinn. Allir um borð fórust í því sem er talið vera eitt hörmulegasta sjóslys í útgerðarsögu Íslands.

„Þarna skeði ótrúlegt sjóslys. Þetta voru 30 menn. 63 börn urðu föðurlaus, flest úr Hafnarfirði. Enginn veit almennilega hvers vegna Júlí fórst. Kannski tókst þeim ekki að gera almennilega sjóklárt. Það sem bjargaði okkur var að við vorum að byrja túrinn og vorum því léttari á sjónum.“

Brynjólfur Gunnar Halldórsson

Brynjólfur fór í brúna árið 1964 þegar hann varð skipstjóri á togaranum Geir og síðar á togaranum Sigurði. Hann flutti sig síðan yfir til útgerðarfélagsins Ögurvíkur árið 1972 og var þar skipstjóri á Ögra.

Fleiri skip lentu í miklum hrakningum í veðrinu, til að mynda Þorkell Máni, sem hafði þá lagst á hliðina og fengið sjó inn um brúargluggann bakborðsmegin.

Brynjólfur telur að snarræði vélstjórans um borð hafi bjargað því ð ekki hafi farið verr hjá Þorkeli Mána. Öllu lauslegu var hent frá borði, davíðurnar fjórar aftan á bátadekkinu voru logsoðnar af og björgunarbátunum sleppt, „enda orðnir eitt klakastykki,“ að sögn Brynjólfs, sem bætir við að það hafi „bjargað þeim mikið“.

Eftir að skipverjar höfðu brotið klaka í einn og hálfan sólarhring fór veðrið loksins að lægja og segir Brynjólfur að Mars og Þorkell Máni hafi lónað saman í suðaustur í átt að heitari sjó. Þrátt fyrir hrakningana segist Brynjólfur ekkert hafa verið uggandi við að fara aftur á sjó.

„Nei. Meðan á þessu havaríi stóð, eitt skipið hafði farið niður og annað var í vandræðum, þá held ég að enginn hafi hugsað þegar við vorum að berja klakann að við værum að redda okkur til að sökkva ekki. Hugsunin fór ekki svo langt. Það var bara verk að vinna og það var gengið í það af krafti að berja klakann.“

Það hafi ekki verið fyrr en á heimstíminu, sem tók fjóra sólarhringa, þegar menn um borð í Mars náðu loksins sambandi við fjölskyldur sínar að þeir „fóru að hugsa hvað þeir hefðu sloppið vel,“ segir Brynjólfur.

Konur hafi þurft að sanna sig meira
Brynjólfur fór sjálfur í brúna árið 1964 þegar hann varð skipstjóri á togaranum Geir og síðar á togaranum Sigurði. Hann flutti sig síðan yfir til útgerðarfélagsins Ögurvíkur árið 1972 og var þar skipstjóri á Ögra. Hann segir að það hafi verið mikill munur að komast á skuttogara, menn hafi ekki „verið vanir svona græjum og óðu í þetta“ og fyrir vikið hafi hvers kyns minniháttar óhöpp verið algeng.

„Lífsreynslan kenndi mér það að þegar maður varð var við ísingu átti maður að koma sér burtu, eins og þegar ég var skipstjóri á Ögra við Austur-Grænland. Maður var búinn að læra af reynslunni,“ segir Brynjólfur. Það sé jafnframt hans reynsla að mikilvægt sé að gefa fólki tækifæri á að spreyta sig á sjó. Hann minnist þess þannig að hafa verið með hóp heyrnarlausra sjómanna um borð en þrátt fyrir að hann hafi ekki kunnað táknmál hafi samstarfið gengið vel.

Að sama skapi hafi reynst vel að gefa konum tækifæri á sjó. „Þegar það kemur kvenmaður innan um strákana er eins og hún þurfi að vinna aðeins meira en strákarnir til að sanna sig. Það er bara þannig,“ segir Brynjólfur og minnist sérstaklega einnar sem féll ekki verk úr hendi.

„Þegar kallarnir fóru í reykpásu hélt hún áfram að vinna og var búin að snyrta þá í kaf þegar þeir komu til baka. Það var ekki fyrr en þá sem hún var talin vera dugleg og búin að sanna sig.“

Brynjólfur lauk síðasta túrnum í lok árs 2002 og hefur hann því brátt verið 20 ár í landi. Hann segir eftirlaunaárin hafa farið vel með sig og að galdurinn felist í reglulegri hreyfingu og hollu fæði. Hann hafi þó alveg sagt skilið við sjóinn. „Það var mikið gengið á mig að kaupa mér trillu en ég hélt nú ekki,“ segir Brynjólfur og hlær.

– sój

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.