Þrjátíu og fimm ár eru liðin frá strandi Barðans GK undan Hólahólum á Snæfellsnesi. Áhöfninni var allri bjargað við erfiðar aðstæður, haugasjó og éljagang, og er ekki síst talið að snarræði þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar hafi skipt sköpum. Talið er að röng staðarákvörðun hafi valdið strandinu, auk þess sem radar skipsins var bilaður og skekkja í Loran-tæki Barðans.

Það var að morgni laugardagsins 14. mars árið 1987 sem neyðarkall barst frá áhöfn Barða GK 475, rúmlega 130 tonna stálskips í eigu útgerðarfélagsins Rafns frá Sandgerði. Níu manna áhöfnin hafði verið að veiðum undan vestanverðu Snæfellsnesi og var í þann mund að draga inn netin þegar báturinn strandaði við Dritvík. Dýrvitlaust veður var á strandstað, norð-norðvestan hvassviðri eða stormur, éljagangur og dimmviðri sem gerði Eðvaldi Eðvaldssyni skipstjóra erfitt að sjá til lands.

Mikið högg kom á bátinn, svo mikið að áhafnarmeðlimir töldu að þeir hefðu lent í árekstri við annan bát, og síðan ólag sem bar bátinn á svipstundu inn í skorninginn þar sem hann strandaði. Háir hamrar eru allt í kringum strandstaðinn og fór báturinn fljótt á hliðina, skorðaður milli kletta. Báturinn lá á stjórnborðshliðinni uppi í klettunum og er áætlað að hann hafi hallað um 70 eða 80 gráður þegar verst lét.

Sjórinn gekk linnulaust yfir skipið og inn í stýrishúsið. Áhöfnin hafði komið sér fyrir í kortaklefanum, inn af stýrishúsinu, og ekki leið á löngu áður en það tók að fyllast. „Stýrishúsið var opið og gekk sjórinn þar í gegn og annað hvert brot gekk yfir okkur þannig að við vorum allan tímann meira eða minna í sjó. Við gátum ekki annað gert en beðið,“ sagði Bergþór Ingibergsson, stýrimaður á Barðanum, í samtali við Morgunblaðið daginn eftir.

Vægast sagt ömurleg aðkoma
Áhöfnin sendi út neyðarkall á sjöunda tímanum um morguninn og voru björgunarsveitir frá Ólafsvík, Hellissandi og Breiðuvík kallaðar út klukkan 7:15. Þær voru komnar á strandstað um hálftíma síðar og varð þeim fljótt ljóst að þær gætu lítið aðhafst frá klettaveggnum. Ekkert lífsmark sást um borð, mannlaus björgunarbáturinn var á floti hjá skipinu og ekki voru neinar aðstæður til að koma línu úr landi að Barðanum. „Þetta var vægast sagt ömurleg aðkoma,“ eins og Emanúel Ragnarsson, formaður Sæbjargar í Ólafsvík, komst að orði í samtali við Morgunblaðið.

Á sama tíma og björgunarsveitirnar voru að átta sig á aðstæðum nálgaðist þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, strandstaðinn óðfluga. Um borð var fimm manna áhöfn; flugstjóri, flugmaður, læknir, stýrimaður og sigmaður, en hún hafði ekki getað tekið af stað frá Keflavík um leið og útkallið barst vegna ísingar og óveðurs.

Þegar þyrlan var komin að Dritvík klukkan 8:13 varð áhöfninni ljóst hversu erfið björgunarskilyrðin voru. „Við flugum nokkra stund yfir og könnuðum allar aðstæður. Báturinn lá á hliðinni og möstrin voru það neðarlega að við vorum hræddir um að þau myndu slást upp ef hann rétti sig,“ sagði Páll Halldórsson, flugstjóri TF-SIF.

Engin hreyfing sást um borð í Barðanum og var óttast að áhöfnin kynni að vera af. Ekki leið þó á löngu áður en björgunarsveitir og áhöfn TF-SIF sáu skipstjóranum bregða fyrir í einum glugganum á stýrishúsinu. Þá tók áhöfn þyrlunnar til starfa og flutti lækni áhafnarinnar, Guðmund Björnsson, í land þar sem hann kom sér upp aðstöðu – „eins konar heilsugæslustöð“ – og beið þess að taka á móti skipverjum. Tekin var ákvörðun um að hífa áhöfn Barðans um borð í TF-SIF og ljóst var að mikið væri undir. Að sögn Bergþórs stýrimanns var „eini möguleikinn að komast um borð í þyrluna“.

Líklega hefði enginn komist í land
Sem fyrr segir voru björgunaraðstæður erfiðar, aftakaveður og allir skipverjar í einum hnapp í kortaklefa Barðans. Ekki var talið forsvaranlegt að senda sigmann niður í bátinn og hætta þannig lífi eins manns til viðbótar. Sambandi var komið á milli TF-SIF og Barðans með svokallaðri tengilínu sem tekið var á móti í brú bátsins, beint niður um brúardyrnar og í hendurnar á áhöfn bátsins. Erfitt reyndist að koma björgunarlykkjunni að skipverjunum.

„Þó svo að við höfum æft hífingar við allar mögulegar aðstæður höfum við aldrei gert okkur grein fyrir að þessi staða gæti komið upp, að hífa menn út um dyr á brú,“ sagði Sigurður Steinar Ketilsson, fyrrverandi skipherra, sem þá var stýrimaður á TF-SIF, við Morgunblaðið. Ekki bætti úr skák að þarna var haugasjór „með einhverju versta sjólagi sem við þekkjum“ að sögn Sigurðar. Þó hafi sex fiskiskip dælt olíu í sjóinn fyrir utan strandstaðinn til að lægja hann, sem talið er að hafi haft sitt að segja.

Björgunin sjálf gekk því ekki hnökralaust fyrir sig. Ekki var hægt að sjá hvernig skipverjarnir voru í björgunarlykkjunni, auk þess sem ýmsir hlutir flæktust fyrir þeim. Engu að síður var búið að bjarga sex mönnum um borð í TF-SIF tæplega 40 mínútum eftir að þyrlan kom á vettvang, sem flutti mennina til Guðmundar læknis í landi þar sem hann hlúði að þeim. Ekki tók nema sjö mínútur að ferja mennina þrjá sem eftir voru úr Barðanum og upp á land.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður slasaðist enginn skipverji við björgunina, þó svo að þeir hafi allir verið mjög kaldir og hraktir. Sjórinn var jökulkaldur og talið er að málalyktir hefðu orðið aðrar ef mennirnir hefðu verið klukkustund lengur í sjónum. „Við höfðum ekki þrek til að taka við neinu og hefðum örugglega ekki komist allir í land, líklegast enginn okkar. Þetta var orðin spurning um hvað við héldum lengi út. Báturinn gat brotnað hvenær sem er og stýrishúsið farið,“ sagði Bergþór um aðstæðurnar um borð.

Guðmundur læknir skoðaði alla skipverjana og voru flestir þeirra lítið lemstraðir en sendir á sjúkrahúsið í Ólafsvík til frekar aðhlynningar. Skipstjórinn var verst á sig kominn og talinn lífshættulega kaldur. Hann var fluttur á Borgarspítalann í Reykjavík, þar sem hann var þó fljótt úrskurðaður úr allri hættu. Allir skipverjarnir lifðu því hrakningarnar af, þrátt fyrir uggvænlegar aðstæður og erfið björgunarskilyrði.

Sigurður Steinar, stýrimaður í TF-SIF, taldi að árangrinum væri að þakka vel samhæfðri áhöfn þyrlunnar, sem hefði æft slíkar björgunaraðgerðir tvisvar til þrisvar í viku – „og þar að auki erum við með gott tæki,“ sagði Sigurður og vísaði þar til TF-SIF.

Bilaður radar og skekkja í Loran
Til þess að varpa skýrara ljósi á aðdraganda atburðanna fór fram sjópróf hjá bæjarfógetanum í Keflavík þremur dögum eftir strandið, þriðjudaginn 17. mars. Þar tjáði Eðvald skipstjóri réttinum að honum hefði láðst að staðsetja skipið rétt á korti að morgni strandsins. Hann hefði þó séð vitann á Malarrifi og því getað áttað sig á staðsetningu skipsins.

Ekki hefði bætt úr skák að radarinn um borð í Barðanum hefði haft tilhneigingu til að „detta út,“ auk þess sem Loran-tækið ætti það til að sýna skekkju. Ómögulegt hefði verið að sjá til lands vegna veðurs, sem einkenndist af éljagangi og dimmviðri.

Við sjóprófið kom jafnframt fram að brú Barðans hefði verið mannlaus þegar slysið varð. Skipstjórinn hefði sjálfur verið niður í matsal ásamt öðrum úr áhöfninni og ákveðið að láta skipið reka á meðan. Í brúnni var neyðartalstöð sem skipverjar sögðu að hefði ekki verið notuð, hins vegar hefði verið stuðst við VHF-örbylgjustöðina til þess að kalla á hjálp. Strax hefði náðst samband við Höfrung II og ekki verið seinna vænna, þar sem önnur hurðin hefði brotnað og sjór tekið að flæða inn í brúnna.

Nánar má fræðast um strand Barðans í fjölmiðlaumfjöllun þess tíma, auk þess sem slysinu eru gerð skil í bók Óttars Sveinssonar Útkall Alfa TF-SIF.

– sój

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.