Danski skipherrann Carl Georg Schack varð þjóðhetja á Íslandi eftir vasklega framgöngu gegn breskum togaraskipstjórum sem uppvísir urðu að landhelgisbrotum hér við land. Hann þoldi ekki að sjá arðránið sem stórþjóðir stunduðu hér við land og sýndi í verki að honum stóð ekki á sama.
Er minnst er á landhelgina og deilur þar að lútandi verður flestum eflaust hugsað til hinna svokölluðu „þorskastríða“ sem háð voru á sjötta og áttunda tug síðustu aldar. Þó er landhelgisgæsla mun eldra fyrirbrigði og hefur alltaf verið þýðingarmikil, enda skorti Íslendinga lengi bæði fjármagn og skip til að halda uppi löggæslu á hafinu.
Í byrjun 20. aldar voru það auðvitað Danir sem sáu um slíkt. Þá höfðu orðið miklar framfarir á veiðiskipum. Stálklæddir togarar voru komnir til sögunnar sem gátu veitt mun stærri afla í einni ferð en áður þekktist. Danir höfðu reynt að bregðast við þessu og árið 1895 sendu þeir hingað beitiskipið Heimdall, sem var 1.342 smálestir, hraðskreitt og vel vopnum búið. Þrátt fyrir þetta var floti Dana ekki stór og enn voru mörg seglskip þar í þjónustu. Í raun var ekkert annað skip en Heimdallur sem gat haft í fullu tré við hin nýju fiskiskip Breta og Þjóðverja.
Bretland var öflugasta ríki veraldar
Hafa ber í huga að ástand í alþjóðamálum var allt annað en við nútímafólk höfum vanist. Á þessum árum gilti enn réttur hinna sterku. Íslendingar hafa mögulega litið á Dani sem einhverja stórþjóð. Það gerðu Danir ekki. Þeim var fullljóst að þeir yrðu að fara varlega í umgengni við hinar sterku þjóðir Evrópu eins og t.d. Bretland, Þýskaland og Frakkland.
Aðeins voru nokkrir áratugir síðan Danir höfðu beðið mikið afhroð í styrjöld við nágranna sinn Prússland. Það ríki var nú orðið Þýskaland og enn öflugra en áður. Enda brá svo við að þessar þjóðir, sérstaklega Bretar, tóku komu Heimdalls ekki fagnandi og sökuðu áhöfnina um að hafa frammi ógnandi tilburði nær daglega við bresku togarana.
Þetta var söngur sem átti eftir að heyrast oft er leið á öldina. Bretland var þá langöflugasta ríki veraldar og voru Bretar fljótir að minna Dani á mátt sinn. Sumarið 1896 sigldu fjögur bresk herskip til Íslands til að fylgjast með veiðiskipum sínum og afskiptum Dana af þeim. Þau köstuðu akkerum úti fyrir Reykjavík, öllum borgarbúum vel sýnileg.
Svo virðist sem Heimdallur hafi staðið sig ágætlega. Það hafði t.d. afskipti af 15 skipum sumarið 1897. Þetta nægði þó ekki Íslendingum, sem vildu mun öflugri varnir, enda sveið mörgum að sjá erlend skip sópa upp af þessum auðugu fiskimiðum. Íslendingar höfðu beðið Dani um að senda hingað fjögur gæsluskip en eins og áður er nefnt bjuggu Danir hreinlega ekki svo vel að geta brugðist við þeirri kröfu.
Skipakostur hér var lakari
Í lok 19. aldar voru þær raddir orðnar háværar sem kröfðust breytinga á lifnaðarháttum þjóðarinnar. Ásælni erlendra veiðiskipa gerði ekki annað en að auka þær kröfur. Fleiri og fleiri vildu hverfa frá hinum gömlu lifnaðarháttum þar sem landbúnaður var stærstur og huga í auknum mæli að sjósókn. Einar Benediktsson var einna fremstur í flokki þessa hóps. Hann var harðorður í garð landa sinna og virtist hreinlega blöskra framtaksleysið og lítill vilji í framfaraátt. Einar gaf út eigið blað, sem hét Dagskrá. Í lok 19. aldar skrifaði hann um þessi málefni:
Vér stöndum hér uppi bláfátækir, afskekktir og óþekktir, fyrir utan öll gæði heimsmenningarinnar, og horfum á erlenda fiskara draga frá okkur marga tugi milljóna á ári, og svo ef einhver leyfir sér að benda á veg til þess að leiða þennan gullstraum að nokkru, eða jafnvel miklu leyti, inn i vasa landsmanna, þá er hann í sömu svipan búinn að fá heila hjörð af urrandi rökkum á hælana, sem ekkert hugsa um, einskis annars óska heldur en að geta verið sér sjálfum og öðrum til tjóns með því að hindra skynsamlegar, rökstuddar umræður um það ráð, sem til er lagt. Þetta er menningin okkar íslendinga. Hér er ekki til mikið aflögufé til góðra, þjóðlegra fyrirtækja, en vér höfum ávallt allsnægtir af illgjörnum andróðri gegn öllu, sem miðar í nýja stefnu, til að víkja af alfaravegi vanabundinnar, sofandi hugsunar.
Íslendingar höfðu vissulega reynt að auka útgerð en skipakostur þeirra var langt á eftir öðrum þjóðum. Það er kaldhæðnislegt að sumir keyptu t.d. skútur af Bretum, sem voru í miklum mæli að færa sig yfir á togarana. Þessi skip voru iðulega kölluð „botnvörpungar“, eftir aðalveiðarfæri þeirra.
Sjálfur taldi Einar að það væri eina vitið að Íslendingar hæfu einnig botnvörpuútgerð, en það var hægara sagt en gert. Til auka á vanlíðan landsmanna gerði botnvarpan meira en að sópa upp fiskinum. Veiðarfæri þau sem Íslendingar notuðust við urðu iðulega fyrir miklum skemmdum vegna ágangs erlendra skipa.
Gefnar voru upp sakir
Botnvörpungar fóru oft ansi nærri landi í skjóli nætur, langt fyrir innan landhelgismörkin sem þá voru þrjár sjómílur en ekki lögfest sem slíkt. Íslendingar voru öskureiðir og beindu spjótum sínum að Dönum, sem auðvitað áttu að koma í veg fyrir landhelgisbrot. Líklega hafa Danir viljað gera eins vel og þeir gátu en eins og áður sagði höfðu þeir ekki yfir mörgum skipum að ráða sem gátu sinnt þessu verkefni.
Einnig hafði koma bresku herskipanna árið 1896 ekki farið framhjá þeim. Þeir skildu alveg skilaboðin sem Bretar voru að senda þar. Eins og stór ruddi væri þar að vara lítilmagnann við því að angra sig. Þannig var einfaldlega staðan. Danir voru hræddir við stóru þjóðirnar, einkum Breta. Þetta gekk svo langt að Danir þorðu ekki annað en að gefa landhelgisbrjótum upp sakir og afturkalla sektir til þeirra. Hannes Þorsteinsson lýsti þessu ágætlega í grein sem hann skrifaði í tímaritið Þjóðólf:
Er mælt að náðun þessi stafi af alvarlegum kvörtunum (eða hótunum) ensku stjórnarinnar til utanríkisþjónustunnar dönsku, er svo hefur fengið Íslandsráðgjafann nýja til að útvega lögbrjótum þessum fulla uppgjöf sektanna eða konungsnáðun. Þegar Englendingurinn ygglir skelfur Danskurinn. Vér Íslendingar fáum að bera afleiðingarnar af því að Danir eru kotþjóð og vér undirlægjur þeirra og er því ekki við góðu að búast.
Reiði Íslendinga jókst og fleiri og fleiri virtust nú sannfærðir um að betra væri að sinna sínum málum sjálfir en að vera upp á Dani komna, sem gátu svo ekki sinnt sínu hlutverki sómasamlega. Í þeim málum miðaðist eitthvað. Ísland fékk heimastjórn árið 1904. Þremur árum áður höfðu Danir og Bretar gert samkomulag um að landhelgi Íslands og Færeyja yrði þrjár mílur.
Það er þó eitt að ákveða lögin og annað að sjá til þess að þeim sé framfylgt. Enda kom fljótlega í ljós að Bretar og aðrar þjóðir virtu þetta að vettugi og veiddu oft langt fyrir innan. Jafnvel gerðust þeir svo frakkir að sigla nánast upp í land nærri byggðarlögum, eins og hreinlega til að sýna innfæddum hver hefði völdin.
Íslandsmet sem enn stendur
Árin liðu og ný öld gekk í garð en lítið breyttist í þessum málum. Samband Íslendinga og Dana varð æ stirðara, enda voru þeir fyrrnefndu æfir yfir hugleysi og lydduskap þeirra síðarnefndu. Danir héldu áfram að senda hingað skip sem áttu að taka og sekta landhelgisbrjóta en eins og áður virtust skipherrar afar ragir við að ganga röggsamlega fram í því starfi.
Til tíðinda dró þó árið 1905, en þá kom hingað beitiskipið Hekla. Það var nútímalegt skip, 1.350 smálestir með 3.000 hestafla vél og 156 manns í áhöfninni. Skipherra á Heklu var hinn fimmtugi Carl Georg Schack. Hann fór ekki dult með fyrirlitningu sína á Bretum og hryssingslegri framgöngu þeirra gagnvart öðrum þjóðum.
Bæði Íslendinga og Breta rak nú í rogastans, því Schack var ekkert að tvínóna við hlutina. Hann var nánast stanslaust úti á sjó og beitti þeirri taktík að koma askvaðandi með sólina í bakið og króa lögbrjótinn helst af nálægt landi svo að honum var engrar undankomu auðið.
Schack var hér aðeins í nokkra mánuði en hann nýtti þann tíma vel og var nánast sem úlfur í sauðahjörð innan um erlendu fiskiskipin. Á örfáum mánuðum tók hann 22 togara, færði til hafnar og sektaði. Auk þess rak hann 40 aðra út fyrir landhelgismörkin. Mun það enn vera Íslandsmet. Nú var komið að Íslendingum að gleðjast en yggldist alvarlega brúnin á Bretum. Í apríl 1905 birtist eftirfarandi frétt í Þjóðólfi:
Enn hefur varðskipið Hekla höndlað tvo enska botnverpla við ólöglegar veiðar í landhelgi nálægt Dyrhólaey. Annað skipið var sektað um 60 pund en hitt þurfti að greiða 80 pund. Það er alls í sektum um 2520 kr. Auk veiðarfæra og afla, er upptækt var gert. Hekla hefur þá alls höndlað sex botnverpla síðan hún kom hingað og nema sektirnar frá þeim öllum 6480 kr. Má kalla að hér sé all vasklega að gengið af varðskipinu og á kapt. Schack, yfirforingi þess, heiður og þökk skilið fyrir dugnaðinn.
Sveið umkomuleysi Íslendinga
Schack varð á svipstundu þjóðþekktur, enda fundu Íslendingar að hér var kominn maður sem stóð ekki á sama um illa aðstöðu þeirra og blöskraði framganga erlendra lögbrjóta. Hann átti eftir að skrifa um verkefni sín hér í blaðinu Dansk Tidsskrift árið 1907. Þar kemur vel fram hve sárt honum fannst að sjá umkomuleysi hinna fátæku eyjarskeggja og arðrán stórþjóðanna á þeim:
Enskir gufutogarar fóru að birtast á Íslandsmiðum í kringum 1890. Nokkru seinna bættust þýskir, franskir og hollenskir togarar í hópinn. Urðu þeir fljótlega hinir verstu óvinir íslensku þjóðarinnar. Þeir báru nákvæmlega enga virðingu fyrir einu né neinu. Þeir virtu ekki landhelgina, sópuðu upp öllum fiski fyrir framan nefið á innfæddum og eyðilögðu veiðarfæri íslenskra fiskimanna með því að draga troll sín yfir þau. Þeir hröktu Íslendingana miskunnarlaust á brott ef þeir voguðu sér að fara á sömu mið á sínum litlu bátum og ollu slysum eða jafnvel dauða með skammarlegu framferði sínu. Nógu slæmir voru þeir á hafi úti en stundum fór þessi erlendi lýður í land og ógnaði heimamönnum og rændi kindum frá þeim. Það eru ströng viðurlög við veiðum í íslenskri landhelgi en eitt er að setja lög, annað að framfylgja þeim. Erlendir togaraskipstjórar kærðu sig kollótta um þetta og veiddu hvar sem þeir vildu og hlýddu í engu mótbárum innfæddra.
Um þá erfiðleika sem Danir stóðu fram fyrir við landhelgisgæsluna skrifar Schack:
Það var ekki fyrr en í lok 19. aldar að við höfðum loksins kraftmikil beitiskip sem gátu elt togarana uppi. Ef maður ætlar sér að handtaka meintan landhelgisbrjót, verður maður að vera algjörlega viss um að hann hafi verið fyrir innan línuna, inni í landhelgi. Þetta er mjög mikilvægt. Það verður víst að viðurkennast að Danmörk er lítið land og má sín einskis gegn stórþjóðum eins og Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, svo nokkrar séu nefndar. Gerir þú mistök þá mun viðkomandi skipstjóri strax senda inn kæru. Sérstaklega heimta Englendingar alltaf nákvæmar sannanir og lýsingar á því hvar togari hefur verið tekinn við ólöglegar veiðar og vei þeim danska kafteini sem ekki hefur allt sitt á hreinu hvað það varðar.
Togaraskelfirinn kallaður heim
Enda gerðist nú nokkuð sem kom Íslendingum kannski ekki á óvart en gladdi þá lítt: Carl Georg Schack var kallaður heim til Danmerkur í júlí 1905. Ástæðan sem var gefin upp var heilsubrestur en það var ekki nokkur sála á Íslandi sem trúði því. Bretar höfðu beitt valdi sínu og neytt Dani til að senda þennan „togaraskelfi“ heim.
Svo má vera en annað hékk á spýtunni: Schack hafði verið miklu meira á ferðinni en yfirvöld bjuggust við og farið langt yfir mörkin í kolanotkun, eða um 60 tonnum meira. Danir þurftu að horfa í budduna eins og aðrir.
Íslendingar sáu mjög á eftir þessum röggsama Dana sem hafði sýnt að honum stóð ekki á sama. Hundruð Reykvíkinga skrifuðu undir og færðu honum virðulegt skrautskjal með kærum þökkum: „fyrir þann framúrskarandi dugnað og óþreytandi árvekni, sem þér hafið sýnt þessu starfi, er hefir svo mikla þýðingu til að vernda annan aðalatvinnuveg landsmanna, fiskiveiðarnar, fyrir yfirgangi, áleitni og lögbrotum útlendra ránsmanna.“
Carl Georg Schack lést árið 1930. Seinna áttu Íslendingar eftir að eignast sína eigin röggsömu kafteina sem gengu vasklega fram gegn landhelgisbrjótum en það er önnur saga.
Höfundur: Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur
Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.
Recent Comments