Nýtt siglingaljósamastur var sett upp í varðskipinu Óðni í fyrrasumar eftir að góð gjöf frá Japan barst til landsins. Unnið hefur verið að því hörðum höndum undanfarna mánuði að gera Óðin haffæran á ný og meðal skilyrða var að skipt yrði um mastrið, enda var upphaflega mastrið orðið mjög illa farið af ryði.

Í lok síðasta árs endurheimtu Hollvinasamtökin gamla kallmerki Óðins, TFRA, og í kjölfarið fékkst fjarskiptaleyfi hjá Fjarskiptastofu. Nú hefur Samgöngustofa, í góðu samstarfi við sjálfboðaliða sem starfa um borð í Óðni, unnið að undirbúningi að útgáfu nýs haffærisskírteinis fyrir skipið og verður því væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að sigla skipinu úr  höfn.

Meðal þess sem skipt hefur verið um eru spjöldin fyrir ganghraðaskipanirnar.  Mynd/BV

Óðinn vakinn til lífs á ný
Guðmundur Hallvarðsson, formaður Hollvinasamtaka Óðins, segir að undanfarin ári hafi traustur hópur félagsmanna í samtökunum, m.a. fyrrverandi starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þar á meðal í áhöfn Óðins, unnið hörðum höndum að því að vekja skipið til lífs aftur, ef svo má segja, með því að yfirfara allan búnað og tæki í brú, loftskeytaklefa og áhafnarrýmum auk allra tækja og stýringa sem tilheyra vélarrúminu, þar á meðal aðalvélar og ljósavélar, svo örfá dæmi séu nefnd af þúsund atriðum á löngum gátlista atriða sem hefur þurft að yfirfara og laga til að koma skipinu á ný í haffært ástand.

Mikil vinna liggur að baki
„Þetta hefur verið gríðarlegt verkefni og margir hafa lagt lóð á vogarskálarnar til að það mætti takast, bæði einstaklingar og fyrirtæki sem greitt hafa  ýmsan kostnað og líka lánað mannskap til ýmissa sérhæfðra verkefna. Þeirra á meðal er Egill Þórðarson, fyrrverandi loftskeytamaður og varðstjóri í stjórnstöð  Landhelgisgæslunnar, sem starfar núna sem sjálfboðaliði um borð í Óðni og hefur unnið ötullega að því að yfirfara og laga ýmsan búnað um borð í skipinu.

Þegar átti að yfirfara siglingaljósin í mastrinu í stafni skipsins kom í ljós að mastrið var svo haugryðgað að ekkert vit var í að ráðast í lagfæringar, heldur yrði að láta smíða nýtt mastur,“ segir Guðmundur.

Nýja mastrið tákn um djúpa vináttu
Var í kjölfarið gerð nákvæm smíðalýsing og í kjölfarið óskað verðtilboða hér innanlands og í Póllandi.

Á hverjum miðvikudegi hittast um borð í Óðni meðlimir Hollvinasamtaka Óðins og taka stöðuna. Mynd/Jón Kr. Friðgeirsson

„Þá datt Agli Þórðarsyni í hug að senda smíðalýsinguna til Japan, nánar  tiltekið til forstjóra skipasmíðastöðvarinnar Mirai þar í landi, Takeyoshi Kidoura, sem Egill þekkir vel. Kidoura svaraði um hæl að stöðin skyldi smíða mastrið og færa okkur að gjöf sem þakklætisvott fyrir aðstoð Íslendinga við Japani sem áttu um sárt að binda í borgunum Miyako og Kesennuma á norðausturströnd landsins eftir stórfelldar flóðbylgjur sem gengu þar á land í kjölfar jarðskjálfta í mars 2011 og lögðu byggðir í rúst á fjögur hundruð kílómetra löngu belti meðfram ströndinni sem leiddi m.a. til kjarnorkuslyss,“ segir Guðmundur.

Það má því segja að nýja mastrið á Óðni sé fallegt tákn um góða vináttu Íslendinga og Japana sem birtist í hjálparátaki landsmanna við fólkið á hamfarasvæðunum og enn fremur í þeim þakklætisvotti Japana sem birtist í þeirri gjöf sem nýja mastrið á Óðni er.

Óðinn siglir til Grindavíkur

Óðinn hefur um árabil legið við bryggju á Granda í Reykjavík, en heimahöfn hans er við Sjóminjasafnið. Mynd/Jón Kr. Friðgeirsson

Guðmundur segir að allt sé orðið nokkuð klárt um borð í Óðni, tilskilin leyfi til siglingar séu á næsta leiti, enda öll nauðsynleg stjórntæki og skipsbúnaður að verða klár til notkunar.

„Nýtt haffæri Óðins er skilyrt við dagana frá 11. maí til 31. júlí ár hvert, fimmtán manna áhöfn og að hámarki tólf farþegar um borð þegar siglt er. Leyfið þarf svo að endurnýja árlega. Við ætlum að sigla af stað laugardagsmorguninn 11. júní frá Reykjavík til Grindavíkur. Með í för verða m.a. sendiherra Japan á Íslandi, Takeyoshi Kidoura forstjóri Mirai og tveir kollegar hans hjá skipasmíðastöðinni og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson,“ segir Guðmundur.

Þegar skipið hefur lagst að bryggju í Grindavík afhendir Kidoura mastrið formlega ásamt því sem forseti Íslands flytur stutta tölu. „Síðan förum við í land og tökum þátt í  hátíðarhöldum Grindvíkinga, Sjóaranum síkáta, og skipið verður til sýnis á glæsilegri sjómanna- og fjölskylduhátíð íbúa þar í bæ. Síðan siglum við aftur til baka til Reykjavíkur í  eftirmiðdaginn. Á sjómannadaginn 12. júní verður Óðinn því miður ekki til sýnis fyrir gesti og gangandi, enda aðgengi að skipinu ekki öruggt þar sem það liggur sem stendur á  meðan verið er að endursmíða bryggjuna við Sjóminjasafnið, þar sem heimahöfn Óðins er.“

– bv

Fyrsta reglugerðin um safnskip gefin út á Íslandi

Fyrsta reglugerðin (Nr. 1044/2021) sem gefin hefur verið út um safnskip hérlendis tók gildi 27. september á síðasta ári og heyrir hún undir Innviðaráðuneytið. Í reglugerðinni er  jafnskip skilgreint sem skip, 50 ára eða eldra, sem rekið er í menningarlegum tilgangi og hefur fengið skráningu sem slíkt. Segir að menningarlegur tilgangur skipsins nái aðeins til menningarlegs gildis skipsins sjálfs en ekki starfseminnar um borð, svo sem tónleikahalds eða annarra menningarviðburða. Undir þessa reglugerð heyrir varðskipið Óðinn, sem er rúmlega 60 ára gamall, en hann kom nýr til landsins í lok janúar 1960.

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.