Hátíðahöld sjómannadagsins í Reykjavík verða sumpart með nýju sniði í ár. Þrátt fyrir ýmsar nýjungar og breyttar áherslur mun gamli sjómannadagsandinn svífa yfir vötnum.
Skipuleggjendur hátíðahaldanna eru áfram um að dagurinn verði sem stærstur, ekki aðeins vegna þess hve mikilvægt er að heiðra hetjur hafsins heldur jafnframt vegna  messufalls síðustu tveggja ára. Það sé því komin „uppsöfnuð sjómannadagsþörf“ sem þurfi að uppfylla – og það með glæsibrag.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sett svip sinn á alla anga mannlífsins og eru hátíðahöldin á sjómannadaginn þar engin undantekning.

Eftir tveggja ára hlé hefur aftur verið boðað til mannfagnaðar á Grandanum í Reykjavík og hafa skipuleggjendur sett markið hátt. Elísabet Sveinsdóttir, einn skipuleggjenda hátíðahaldanna í Reykjavík, segir að á bilinu 30 til 40 þúsund manns hafi sótt dagskrá sjómannadagsins árlega fram að faraldrinum og að vonir standi til að gestirnir verði  enn fleiri í ár.

Undirbúningurinn fyrir daginn hefur staðið yfir í um sjö mánuði, enda ekki vanþörf á þegar um jafn viðamikinn viðburð er að ræða.

Elísabet segir að það sé markmið allra sem að hátíðinni standa að gera sjómannadaginn stærri og betri en áður. Ótal aðilar hafi komið að skipulagningunni og markmið þeirra sé að gera þetta með veglegum hætti. Faraldurinn hafi framkallað „uppsafnaða sjómannadagsþörf“ sem ætlunin sé að svara.

Fjölskylduhátíð fyrir alla aldurshópa 
Yfirskrift hátíðahaldanna í Reykjavík í ár er „Hafsjór af skemmtun,“ sem Elísabet segir gefa ákveðna vísbendingu um hvað sé í vændum.

Grandinn verður undirlagður af hvers kyns uppákomum og skemmtiatriðum sem eiga að höfða til allra aldurshópa, auk þess sem fyrirtækin á svæðinu voru hvött til að bregða út af vananum í starfsemi sinni í tilefni dagsins. Elísabet segir að í aðdraganda hátíðarinnar hafi verið ráðist í margvíslegar greiningar sem leitt hafi í ljós að sjómannadagurinn sé fyrst og fremst fjölskylduhátíð, þangað sem foreldrar fjölmenni með börn sín.

Hún segir að hátíðahöldin og umgjörð þeirra hafi verið í nokkuð föstum skorðum í gegnum árin. Nú standi hins vegar til að breyta aðeins til, ekki aðeins hvað varðar skemmtidagskrá heldur jafnframt í kynningarstarfi og upplýsingagjöf. Þannig verður aukin áhersla lögð á að gera hátíðina stafrænni og aðgengilegri en áður, til að mynda með því að auðvelda fólki að sækja dagskrá sjómannadagsins í símann.

„Við vildum slá nýjan tón í þetta og uppfæra hátíðina,“ segir Elísabet.

Þessa áherslu megi jafnframt sjá í kynningarefni viðburðarins, sem nú ber aðeins nafn sjómannadagsins. Á undanförnum árum hefur jafnframt verið stuðst við heitin „Hátíð hafsins“ og „Hafnardagurinn“ en Elísabet segir að í ár hafi verið tekin ákvörðun að gera gamla heitinu aftur hátt undir höfði. „Við þekkjum öll sjómannadaginn, þetta er heiti  sem hefur fylgt þjóðinni lengi og við vildum hefja það aftur til vegs og virðingar,“ segir Elísabet.

Þrátt fyrir margvíslegt nýjabrum verða sígildir þættir í dagskránni á sínum stað; eins og reiptog, kappróður, siglingar og hinn ómissandi koddaslagur. „Allt þetta gamla góða,“ segir Elísabet.

„Við vildum halda í kjarna hátíðarinnar en blanda honum saman við ýmsar nýjungar.“

Mikilvægi hátíðarinnar óbreytt
Þrátt fyrir að sjósókn sé ekki nándar nærri jafn hættuleg og hún var á fyrri tímum, þökk sé betri tækjakosti og auknu öryggi sjómanna, segir Elísabet að nú sem fyrr sé mikilvægt að halda sjómannadaginn hátíðlegan.

„Sjómennskan er samofin sögu þjóðarinnar. Við erum umkringd hafinu og þúsundir Íslendinga hafa beina tengingu við sjávarútveg,“ segir Elísabet og vísar þar til allra þeirra
sem hafa starfað í sjávarútvegi og aðstandenda þeirra.

„Þrátt fyrir að sjómennskan sé ekki jafn hættuleg og áður eigum við margt undir greininni. Þetta er enn einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar, meginstoð samfélagsins, og fólk velur áfram að starfa í sjávarútvegi þrátt fyrir hætturnar og langa fjarveru frá fjölskyldunni. Við eigum að heiðra þetta fólk með þessum gamla og fallega sið.“

Elísabet segir að hátíðahöld sjómannadagsins séu ekki síst til þess fallin að draga fram það góða í sjávarútvegi og gera því skil.

„Sjómennska er stór atvinnugrein og við eigum að vera stolt af því hvernig sjávarútvegurinn er í dag. Hann er hluti af þjóðarsálinni enda erum við umkringd hafi, hvernig getum við annað en verið tengd sjónum?  Sjómannadagurinn er stórmerkilegt fyrirbæri.“

Sem fyrr segir gera Elísabet og aðrir skipuleggjendur sér vonir um að hátíðahöldin í Reykjavík verði vel sótt og segist hún spennt að sjá hvernig Íslendingar taka fyrstu fjölmennu útiskemmtuninni í tvö ár. „Og svo krossleggjum við fingur um að veðrið verði gott,“ segir Elísabet Sveinsdóttir.

– sój

 

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.