Í haust, þegar 50 ár eru liðin frá því að fiskveiðilögsaga Íslands var færð í 50 mílur, kemur út hjá Sögufélagi fyrsta bókin af þremur í ritröð Guðna Th. Jóhannessonar,  sagnfræðings og forseta Íslands, um þorskastríðin. Guðni segir mikilvægt að segja söguna eins og hún var, ekki aðeins sem helgisögu um samstöðu og forystustarf þjóðar í  baráttunni við ofríki. Íslendingar nutu alþjóðlegrar þróunar á sviði hafréttar og voru síður en svo einhuga um skrefin sem tekin voru í baráttunni við Breta og Vestur-Þjóðverja um útfærslu landhelginnar.

„Öll er þessi saga æsileg, flókin og marghliða en grunnurinn, meginþráðurinn, er sá að við Íslendingar vildum skiljanlega tryggja full yfirráð okkar yfir auðlindum hafsins  umhverfis Ísland en Bretar voru ekki á þeim buxunum að samþykkja það og ekki heldur Vestur-Þjóðverjar, sem sóttu hér líka á þessi mið. Einhvers konar átök voru því nánast óumflýjanleg,“ segir Guðni Th. Jóhannesson um væntanlega bók sína sem kemur út 1. september næstkomandi, í tilefni af því að þá eru 50 ár liðin frá því að lögsaga Íslands var færð í 50 mílur.

Ritun bókarinnar á sér nokkurn aðdraganda.

„Þegar ég var í doktorsnámi á Englandi undir lok síðustu aldar og í byrjun þessarar tókust samningar við ritnefnd um sögu landhelgismálsins um að ég skrifaði þá sögu með tíð og tíma,“ segir Guðni. „Árið 2006 setti ég saman lítið rit, Þorskastríðin þrjú, og svo var alltaf hugmyndin að ég segði þessa sögu í ítarlegra máli.“

Skriður komst á söguritunina árið 2013 þegar Guðni fékk stöðu við Háskóla Íslands og var hann í miðjum klíðum við verkið þegar örlögin tóku í taumana árið 2016 og hann varð að leggja til hliðar öll bókaskrif, enda kominn í hlutverk þjóðhöfðingja.

„En í heimsfaraldrinum fann ég stund milli stríða og tók upp þráðinn og út er að koma hjá Sögufélagi bók mín um sögu landhelgismálsins frá árinu 1961, þegar átökunum um útfærslu landhelginnar í 12 mílur lauk, og til 1971 þegar ný ríkisstjórn komst til valda á Íslandi og lýsti því yfir að fiskveiðilögsagan yrði færð út í 50 sjómílur, 1. september  1972.“

Um leið áréttar Guðni að hann hafi vitanlega haft nægu að sinna í heimsfaraldrinum, líkt og öllum stundum í embætti forseta, en um leið hafi honum verið hollt að finna stund hér og þar til að hverfa frá ys og þys samtímans og sökkva sér ofan í fyrri hugðarefni. „Það veitti ákveðna sálarró sem ég kunni afar vel að meta. Ég er viss um að fólk í ábyrgðar- og áhrifastöðum hefur gott af því að hverfa um stund frá amstri dagsins, hvort sem það er til að skella sér á skíði, leika á gítar eða skrifa bók um þorskastríðin,“ segir hann kankvís.

Fetar gullinn meðalveg
Bókin fjallar um aðdraganda útfærslunnar í 50 sjómílur þegar annað þorskastríðið hófst. Guðni segir Breta þá reyndar ekki strax hafa sent verndarskip á miðin og raunar vonað í lengstu lög að þess þyrfti ekki.

„En raunin varð sú að átök blossuðu upp á miðunum og þessum átökum lauk ekki fyrr en haustið 1973 þegar gert var  bráðabirgðasamkomulag um réttindi Breta innan 50 mílnanna.“

Guðni segir að við ritun bókarinnar hafi hann leitast við að feta hinn gullna meðalveg sem sagnfræðingar flestir vilji helst rata. „Þá horfum við til þess að virða í hvívetna fræðileg vinnubrögð, vitna í heimildir og styðja mál okkar rökum, en reynum um leið að segja frá á þann máta að lesandinn leggi bókina ekki frá sér á fyrstu síðunum.“

Í þeirri viðleitni hafi hann líka notið aðstoðar einvalaliðs, svo sem Margrétar Tryggvadóttur myndaritstjóra, sem séð hafi til þess að bókin sé líka ríkulega myndskreytt.

Í sögunni segir Guðni líka að séu þættir sem óneitanlega séu efniviður í afskaplega spennandi frásögn. Í bókinni sé til dæmis ítarleg frásögn af eltingaleik við  Aberdeentogarann Milwood árið 1963 sem hafi verið æsilegur í alla staði. Eins sé í henni að finna frásögn af töku togarans Brands frá Grimsby árið 1967 og flótta hans frá Reykjavík.

„Þá ákvað skipstjórinn að hverfa úr höfn í skjóli nætur og freista þess að halda alla leið til Englands með tvo íslenska lögregluþjóna um borð og var það fáránlegt feigðarflan frá upphafi, en lýsti ákveðinni örvæntingu.“

Um leið bætir Guðni því við að saga þorskastríðanna gerist ekki bara á hafi úti. „Á vettvangi stjórnmálanna er aðdragandinn að útfærslunni í 50 mílur mjög spennandi á sinn hátt því á þessum tíma var alls ekki um það eining á Íslandi að stækka lögsöguna.“

Deilur hafi verið um málið milli ríkisstjórnarflokkanna sem tóku við 1971, sem voru Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Samtök frjálslyndra og vinstri manna.

„Innan þessarar stjórnar var hver höndin upp á móti annarri. Síðan var stjórnarandstaðan með Alþýðuflokk og Sjálfstæðisflokk, þar sem leiðtogar vildu fara mun hægar í sakirnar, leita sátta og málamiðlana, bíða um stund og sjá hvernig þróun mála yrði á alþjóðavettvangi.“

Guðni Th. Jóhannesson

Galdurinn við ritun sögunnar segir Guðni felast í hinum gullna meðalvegi, sem sé að virða í hvívetna fræðileg vinnubrögð um leið og smíðaður sé læsilegur texti sem haldi fólki við efnið.      Myndir/Anton Brink Hansen

Höfðum ákveðinn meðbyr
Guðni segir skipta miklu máli og ekki mega gleymast þegar rætt er um útfærslu lögsögunnar að Ísland hafi á þessum tíma notið mjög þróunar á alþjóðavettvangi.

„Hafréttur var allur að breytast okkur í vil og alls ekki af því að við hefðum rutt þá braut. Þegar við færðum út í 50 sjómílur haustið 1972 voru ýmsar þjóðir Rómönsku Ameríku búnar að taka sér og verja 200 mílna lögsögu.“

Hann varar sterklega við því að falla í þá freistni að líta svo á að hér hafi Íslendingar einir verið í fararbroddi.

„Það væri misskilningur og nánast þjóðremba sem við eigum að forðast.“

En þó að Íslendingar hafi notið þess að geta siglt í kjölfar annarra megi ekki heldur gleymast að hér á Norður-Atlantshafi hafi Íslendingar verið ákveðnir frumkvöðlar.

„Hér voru aðrar þjóðir miklu varkárari, svo sem Norðmenn og Danir fyrir hönd Færeyinga. En alþjóðasamhengið er slíkt að við nutum þessarar þróunar hafréttar.“

Eins segir Guðni þurfa að horfa til þess að Íslendingum hafi heldur betur komið til góða hernaðarmikilvægi Íslands í köldu stríði.

„Bandaríkjamenn hvöttu Breta ætíð til þess að sýna aðgát og setja öryggishagsmuni Atlantshafsbandalagsins ofar fiskveiðihagsmunum í Hull og Grimsby, Fleetwood og Aberdeen. Þetta mikilvægi Íslands jók mjög slagkraft okkar í þessum átökum.“

Guðni bendir um leið á að þegar fært var í 50 mílur, við mótmæli bæði Breta og Vestur-Þjóðverja, hafi allt eins verið búist við því að staðan á miðunum yrði keimlík því sem var í fyrsta þorskastríðinu, 1958 til 1961, þegar fært var út í tólf mílur. „Þá ösluðu bresk herskip á miðin og gátu nær alltaf komið í veg fyrir að breskur togari yrði færður til hafnar.“

En nokkrum dögum eftir að fært var út, 1. september 1972, segir Guðni Íslendinga í fyrsta sinn hafa beitt leynivopni sínu.

„Skipstjórinn á Ægi, Guðmundur Kjærnested, klippti á togvíra breska togarans Peter Scott, og þá varð uppi fótur og fit. Bretar mótmæltu þessum aðförum harðlega, en hér  var komið leynivopn sem dugði heldur betur og vígstaðan á miðunum gjörbreytist. Skipherrar okkar og áhafnir á varðskipunum urðu mjög fljótt flink í að beita klippunum og  þetta höfðu Bretar ekki séð fyrir.“

Ósætti var um sáttina
Í þessum aðstæðum segir Guðni að hlotið hafi að koma til átaka.

„Fyrst reyndu Bretar að senda dráttarbáta á Íslandsmið togurum til verndar. En svo hófst eldgos í Heimaey og þá voru varðskipin í nokkrar vikur bundin við alla þjónustuna þar. Þá má líka halda því til haga að þrátt fyrir mikla hagsmuni í húfi og átök á miðunum var það nú svo að þegar gosið hófst sögðu breskir togaraskipstjórar allir sem einn: Hvað getum við gert til að hjálpa? Sama gildir um leit á hafi úti. Þá eiga sjómenn eina sál.“

En þegar varðskipin tóku slaginn aftur og fóru að klippa aftan úr togurum veiðarfærin misstu Bretar þolinmæðina.

„Í maí ´73 hugsaði Edward Heath, forsætisráðherra Breta, með sér að nú væri nóg komið og horfði framhjá viðvörunarorðum embættismanna og jafnvel liðsmanna sjóhersins um að herskipavernd gæti aldrei skilað árangri til lengri  tíma litið.“

Harka færðist í leikinn þegar herskip ösluðu á miðin.

„Og því miður fór svo síðsumars 1973 að um borð í Ægi lést Halldór Hallfreðsson, annar vélstjóri. Hann var að sinna viðgerð eftir ásiglingu og fékk raflost þegar alda gekk yfir borðstokkinn og dó af þeim völdum.“

Spennan í deilunni jókst til muna og íslensk stjórnvöld hótuðu að segja landið jafnvel úr NATO. Þá segir Guðni að tekið hafi að fara um fólk í Lundúnum og í höfuðstöðvum NATO í Brussel og Washington.

„Þetta leiddi til þess að samningar hófust. Ólafur Jóhannesson hélt til Lundúna, átti þar fundi með Heath forsætisráðherra Breta og kom heim með samkomulag um tímabundnar veiðar Breta innan 50 mílna í tvö ár.“

Viðbrögðin við samkomulaginu voru hins vegar blendin og lá við stjórnarslitum.

„Því Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra vildi ekki sjá eftirgjöf, undanslátt eða það sem  hann kallaði jafnvel algera uppgjöf. En Ólafur las rétt í stöðuna og þetta samkomulag féllust Alþýðubandalagsmenn á með miklum semingi. Batt það enda á þessi átök, þó að eftir þetta hafi enn slegið í brýnu milli varðskipa og Vestur-Þjóðverja, sem ekki voru aðilar að samkomulaginu. Sumum íslenskum sjómönnum þótti líka gæsla á miðunum ansi slæleg eftir þetta samkomulag og að breskir togarar fengju að komast upp með hitt og þetta, en samkomulag var í höfn og Lúðvík og hans menn urðu að láta sér það lynda þótt þeim þætti það súrt í broti.“

Fleiri bækur í pípunum
Sögu þessa segir Guðni þurfa að segja undanbragðalaust, ekki sem helgisögu um að við Íslendingar höfum alltaf staðið saman allir sem einn og haft heilagan rétt okkar megin, heldur án þess að búa til einhverja helgimynd. „Fyrir vikið verður sagan líka miklu nær sanni,“ bætir hann við.

Efniviðinn í söguskoðunina sækir hann víða, svo sem í frásagnir blaða og annarra fjölmiðla, auk frásagna þeirra sem á vettvangi hafi verið, þó svo að þá þurfi líka að gæta  að því að hver horfi á hlutina frá eigin sjónarhóli eða stjórnpalli. Þá séu skriflegar heimildir í skjalasöfnum, frásagnir af samningafundum, dagbækur þeirra sem tóku þátt og  þar fram eftir götunum.

„Og oft er þar eitthvað sagt sem skýrir heildarmyndina eftir á, en fólk vissi ekki þar og þá. Öll þessi vinna snýst um að safna saman þeim heimildum sem til eru, vega þær og meta, túlka og setja í samhengi og búa vonandi til læsilega frásögn.“

Með útgáfu Sögufélags á þessari bók Guðna segir hann fyrsta skrefið tekið og hyggur á áframhaldandi útgáfu. „Mér skal takast að halda dampi og ná þá næst að segja söguna frá 1971 til 1974, sögu allra þessara átaka með allri sinni dramatík jafnt á sjó sem landi.“ Eftir það vonast hann til að geta tekið til við að skrifa sögu síðasta þorskastríðsins, átakanna þegar lögsagan var færð út í 200 mílur, árin 1975 til 1976.

„Auðvitað hefur þessi saga verið sögð áður, en það er svo að sagan hefur aldrei verið sögð fyrir fullt og allt og alltaf má bæta við. Ég hef notið rannsókna þeirra sem á undan mér hafa komið og skrifað um þessi mál. Ég nefni til dæmis Jón Þ. Þór, Guðmund J. Guðmundsson, og að maður tali ekki um skipherrana og embættismennina sem hafa skráð endurminningar sínar. Þessi saga er þjóðarsaga og við Íslendingar eigum að vera stolt yfir því að okkur tókst að hafa lokasigur í þessari þjóðarbaráttu, en um leið eigum við að geta sagt söguna í öllum sínum blæbrigðum, sagt frá ágreiningi, viðurkennt mistök, sagt frá málstað annarra en okkar eigin, þannig að einhver heildarmynd skapist sem við getum unað við.“

– óká

Verk forseta kunna að vera litin öðrum augum

Þegar velt er upp spurningunni um hvort staða Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta Íslands setji honum einhverjar skorður í efnisvali eða framsetningu þegar kemur að ritun sögunnar kemur í ljós að hann hefur velt vöngum yfir því.

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar þetta rit kemur út og aðrar rannsóknir mínar má vel vera að viðbrögð, til góðs eða ills, markist af því að ég gegni þessu embætti nú um stundir,“ segir hann en stendur um leið við þá sagnfræðilegu nálgun sem viðhöfð er í verkinu.

„Í þessu embætti er nánast skrifað í starfslýsinguna að maður horfi björtum augum fram á veg og líka um öxl og leitist við að finna það sem sameinar fólk frekar en það sem sundrar því. En um leið er ég sannfærður um að hver sem þessu embætti gegnir gerir þjóðinni engan greiða með því að búa til falska mynd af sameinaðri þjóð sem drýgir hverja hetjudáðina á fætur annarri, öðrum betri og hæfari. Þannig að ég geng út frá því að það sjónarmið okkar sagnfræðinga á Íslandi, leiðarstef okkar og leiðarljós, að hafa skuli það sem sannara reynist, dugi líka forsetum vel.“

 

Greinin er úr Sjómannadagsblaðinu 2022. Hægt er að opna allt blaðið í PDF-útgáfu HÉR.